Að viðhalda gleði hestsins í þjálfun er eitt það mikilvægasta af öllu ferlinu. Ef hesturinn er vinnuglaður gengur allt miklu betur fyrir sig og hann fer ósjálfrátt að leggja sig fram. Hér á eftir koma nokkrir punktar um hvernig má viðhalda gleði með fjölbreytni í þjálfun og viðmóti til hestsins.


Knapinn verður að vita að þjálfun er vinna og þjálfun er erfið fyrir hestinn. Þess vegna verður knapinn að reyna hvað hann getur til að vingast við hest sinn og leggja sig fram til að gera hlutina sem sanngjarnasta og einfaldasta fyrir hann. Stígandi erfiði gefur allra mest, ekki demba öllu á hestinn í einu. Of miklar kröfur færir allt ferlið skref aftur á bak. Mikilvægt er að muna að svokallaðir ‘þjálfunarveggir’ mæta hestunum á leiðinni - þá hættir líkami þeirra skyndilega að vaxa í þjálfuninni. Það þýðir ekki að allt sé á niðurleið - heldur stendur líkami hestsins tímabundið í stað áður en hann tekur aftur að vaxa í þjálfun. Þá á maður að halda áfram að þjálfa með venjulegum, sanngjörnum kröfum og man að vera jákvæður og hress. Allt í einu fer hesturinn svo upp úr stöðuninni og bætir sig.




Klappaðu og strjúktu hestinum þínum oft, og líka í reið. Talaðu mikið við hann - það gefur hestinum meira en þig grunar. Reiðmennska á ekki að vera vélræn - hún á að vera skemmtiferð báðra aðila. Það gefst oft best með hesta sem sýna kergju eða leiðindi að skamma þá ekki - heldur taka óhlýðninni af rólyndi, tala til hestsins og byrja að nýju. Klappa hestinum mikið og hrósa fyrir hvert framfaraspor. Allir hestar sem láta leiðinlega eru að mótmæla af því þeim finnst leiðinlegt eða eitthvað angrar þá hvort sem það eru reiðtygi eða knapi. Það gefst nefnilega oft best að sleppa því að skamma hestana í reið með því að kippa í tauminn eða sparka í vömbina - það gefur ekkert og gerir hestinn reiðan eða sáran út í knapann.



Fjölbreytni:
Hér koma nokkrar góðar hugmyndir að fjölbreyttri þjálfun. Að skipta oft um þjálfunarmynstur gerir hlutina meira spennandi fyrir hestinn, sérstaklega ef knapinn er jákvæður og sýnir ánægju sína á hestinum. Það gerir hestinn sáttan.



Til að auka næmni:

1. Kenndu hestinum þínum að hlaupa við hlið þér, og örlítið fyrir framan þig á stundum. Þú kennir honum þetta með því að vera með taum/písk í þeirri hendi sem er ekki við hlið hestsins og hreyfa í átt að honum fyrir aftan bak. Einnig er hægt að gera þetta með hendinni sem er nær en það æsir hestinn frekar upp og truflar hann í að hlusta á rödd þína. Þegar hesturinn er búinn að ná tökum á þessu skaltu aldrei teyma hann fyrir aftan þig - ef þú dregur hann á eftir þér finnur hann að hann er ekki með í spilinu og fer strax að leiðast. ,,Leiða skal hest við hlið sér eins og fína dömu'' - sagði einn bóndi mér og er það hárrétt hjá honum. Hesturinn finnur að hann er með. Stundum er hreinlega sniðugt að fara með hestinn út að hlaupa á þennan hátt og það finnst hestinum nokkuð sniðugt.

2. Farðu með hann í hringgerði og slepptu honum lausum. Kenndu honum að snúa við, stöðva, hægja á og herða með hljóðmerki og líkamshreyfingu/bendingu. Það eykur næmnina á milli manns og hests.

3 Einnig eru léttar fimiæfingar mjög brúklegar til að auka næmni og hlustun milli manns og hests. Ríða í slöngulínur, bauga, ganga í kross og fleira, mjög gott. Til að losa stífan hest af taum er oft gott að ríða upp að aðhaldi og biðja hann um að sveigja sig til hliðar - taka í tauminn, þrýsta með fæti að síðu til þess að sveigja sig frá og ganga út á hlið. Nota fótinn sem er frá vegg til að hamla að hann snúi sér áfram (hafa hann fyrir framan gjörð). Muna að þegar tekið er létt í tauminn verður að gefa hann eftir um leið og hesturinn sýnir viðbragð í rétta átt. Þá fer hesturinn að opna hliðar sínar og létta átakið á tauminn (t.d. hengur í taumi og leiðinlegur að beygja). Muna að gera þetta inn í fimigerði með öðrum æfingum, eða í reiðtúr - ekki gera þetta eingöngu þá verður hesturinn leiður og sýnir jafnvel mótþróa.

Fjölbreytt þjálfun gulls í gildi:

1. Taktu hest sem teymist auðveldlega með í reiðtúrinn. Þannig getur þú unnið í hesti þínum án þess að truflast af teymingarhestinum sem flýtur með. Teymingarhesturinn hvetur hestinn þinn áfram og gerir hlutina skemmtilegri, sérstaklega ef hestinum er mikið riðið einum. Einnig er auðveldara að vinna í hestinum á þennan hátt að mörgu leiti en í reiðtúr með öðrum. Þá er maður oft bundinn við hraða ferðafélagans og hesturinn oft meira að hugsa um að drífa sig en vanda sig. Þá er teymingarhestur málið - og skemmtileg tilbreyting.

2. Þolþjálfun og liðkun í tvítaum er mjög góð þjálfun og ekki of erfið fyrir hestinn. Hún byggist upp á mörgum skipunum og hesturinn þarf að hlusta og vera einbeittur. Unnið er á hægu brokki, og hesturinn látinn fara í bauga, slöngulínur, ganga til hliðar og hlaupa hring í kringum mann. Hesturinn verður þjálari í munni og í hliðum, lærir að hlusta betur. En maður verður að gæta þess að vera alltaf í aðhaldi og taka ekki fast í taumana. Minna er meira.

3. Að fara mismunandi reiðtúra skiptir miklu máli. Fara mismunandi langt og leggja áherslu á mismunandi hluti. Maður verður að muna að hlusta mikið á hestinn - ekki ofreyna hann eða gleyma honum í reiðtúrnum. Betra er að taka hlutina í lotum og leyfa honum að feta létt inná milli. Hestar verða mjög leiðir ef reiðtúrinn snýst bara um hraðferð. Þeir verða annað hvort reiðir og frekir eða hreinlega latir. Einnig er mikilvægt að skipta oft um reiðleiðir og áherslur á leiðinni. Ekki láta hestinn þekkja skipanirnar fyrirfram og hvað skal gera fyrirfram. Ekki hleypa alltaf upp sömu brekkuna - láttu stundum feta, brokka, stökkva hægt, en alls ekki láta tölta upp brekkur/halla - það eykur binding og ofreynir fætur/vöðva hestsins að óþörfu.

4. Að teyma hestinn með er mjög skemmtilegur kostur. Það æfir þol hestsins og kyndir undir gleði hans því hann er knapalaus. Einnig er sniðugt að slá 2 flugur í einu höggi og setja á hestinn hófhlífar til að styrkja bóga og vöðva á fótum. Maður má þó ekki láta hestinn fara mjög langt með hlífar ef hann er að byrja að styrkja framfætur - þá safnast mjólkursýra (úrgangsefni vöðva) frekar fyrir og hesturinn fær harðsperrur.

5. Að ríða út með öðrum er mjög skemmtilegt fyrir hestinn. Þá hefur hann einhvern að ræða við á leiðinni! Oft er best að hafa einhvern með í för ef maður stefnir í lengri reiðtúra (þolæfingar í fyrirrúmi - brokk er t.d. mjög til þess gert að auka þol). Hesturinn fær einhvern félaga og einhvern til að keppa við.




6. Þjálfun í hringgerði er góð leið til að styrkja hliðar hestsins. Þannig kynnist maður hesti sínum betur og hann manni. Hægt er að sleppa honum lausum eða hafa hann í taumi til að aðstoða við ábendingar. Muna að stoppa stundum við og biðja hann um að koma, hrósa honum og tala við hann og byrja aftur að þjálfa.






Járnum á 6-8 vikna fresti. Það minnkar líkur á meiðslum vegna ágripa eða að hrossið misstígi sig. Einnig minnkar góð járning álag á sinar í fótum sem er mjög mikilvægt - enda getur slíkt leitt til helti eða meiðsla.



Munið að umbuna stundum með smá bita af brauði/mola, en ekki alltaf. Oftast er nóg að hrósa með rödd og klappi, notum nammið spari til að þeir beri meiri virðingu fyrir því og líti á það sem eftirsóknarvert. Þá er nammið mjög mikið hrós þegar það kemur.


Hrósum oft, skömmum minna, verum jákvæð og setjum ekki of miklar kröfur. Og minna gefur meira í þjálfun (og í svo mörgu öðru)! Skemmtu þér með hestinum þínum og brostu - þá brosir heimurinn framan í þig.
Endilega leiðréttið mínar stafsetninga og málfræðivillur!!