Ég fann þetta á textavarpinu:

Skipulags og byggingarnefnd Árborgar hafnaði í gær umsókn Olil Amble landsliðskonu í hestaíþróttum og fyrrum íþróttamanns HSK um lóð undir reiðhöll, en Olil starfar sem tamningamaður og er einn þekktasti knapi landsins. Í fundargerð skipulags og byggingarnefndar segir að umsóknin samrýmist ekki deiliskipulagi svæðisins þar sem eingöngu er gert ráð fyrir hesthúsum til einkanota en ekki reiðhöllum.
Þetta vekur upp spurningar hvar sé gert ráð fyrir reiðhöllum í sveitarfélaginu Árborg en ýmsir bæjarstjórnarmenn hafa lýst yfir vilja til að sjá slíka reiðhöll rísa á félagssvæði hestamannafélagsins Sleipnis á Selfossi. Samkvæmt núgildandi skipulagi er ekkert svæði til undir slíkt húsnæði en þó er gert ráð fyrir stórri skemmu viði reiðvöllinn nýja austur af Langholtinu. Þar til nýtt skipulag verður tekið í gagnið verða atvinnumenn í hestamennsku að bíða og sjá hvar þeirra starfsemi finnst staður.
——————————–

Þar sem ég er á Selfossi þá vekur þetta óneitanlega reiði í mér sem hestamanneskju. Sleipnismenn eru að byggja upp félagsaðstöðu sína mikið og hafa mörg hesthús sprottið upp seinasta árið eða svo. Skemmst er þess líka að minnast þegar við tókum í notkun nýja völl hérna norðan hesthúsa-byggðarinnar og verður sá gamli lagður undir byggingarlóðir fyrir ný hesthús í framtíðinni.

Á sama tíma og voru uppi hugmyndir um nýjan völl voru líka hugmyndir á sveimi um að byggja glæsilega reiðhöll (það var í kortunum að hún færi í byggingu á þessu ári) og bæta þar með aðstöðu atvinnu-tamningamanna á svæðinu svo um muni. En nú er ég og margir aðrir orðin leið á biðinni og því hefur Olil greinilega tekið af skarinu og sótt um þetta leyfi sem nú hefur verið hafnað.
Því spyr ég mig: er verið að traðka á okkur? Er verið að synja okkur um hluti sem var búið að lofa okkur? Hvar endar þetta allt?

Eins og á höfuðborgarsvæðinu (og reyndar á mörgum öðrum þéttbýlisstöðum á landinu) eru íbúðarhverfina að nálgast okkur óðfluga og reyndar er byggð alveg komin ofan í okkur úr vestri. Við Sleipnismenn erum komin í erfiða stöðu. Fyrir ekki meira en 10 árum voru engin hús í þessu hverfi sem er næst okkur.
Fyrir austan okkur höfum við síðan hreppamörkin að Gaulverjabæjarhreppi. Við erum því varla inni á bæjarkortinu. Og svo er Byko að troða sér inn á okkur með því að taka beitarsvæði frá félaginu undir enn eina Byko verslunina. Er ekki nóg að hafa Húsasmiðjuna? -Samkeppni er þó alltaf holl.

En þið Hugarar: Finnst ykkur ekki verið að ýta okkur hestamönnum ofan í skítahauginn með því að virða ekki reiðvegina okkar heldur eru krossarar að drepa okkur og hrossin okkar, bæjarstjórnarmenn sem halda að hestar lifi á malbiki og Guðni sem starir út í loftið og segir brandara.

Ég er alla vega búin að fá mig fullsadda.