Að laga skekkjur og taumvandamál með hringteymingu:

Það er frekar algengt vandamál að hestar séu skakkir. Reyndar eru flestir hestar aðeins skakkir að eðlisfari, en sumir verða með tímanum mjög áberandi skakkir. Þá má notast við hringtaum til að þjálfa vöðvana betur og losna við skekkjuna. Við notum hliðartauma, frá mélunum að gjörðinni. Það er alveg sama hvort við notum bara gjörð eða hnakk. Það verður að festa tauminn í miðju, eða rétt fyrir ofan miðju búksins, í gjörðina.
Innri taumurinn á að vera u.þ.b 5 cm styttri heldur en sá ytri. Í hvert sinn sem skipt er um hönd þarf að breyta hliðartaumunum

Lengd hliðartaumanna fer að vísu eftir stærð hestsins, en þarf að vera þannig að hesturinn sveigi höfuðið aðeins og gefi eftir. Aldrei mega taumarnir vera það stuttir að hesturinn sveigi hálsinn of mikið. Ef við drögum línu frá eyra,lóðrétt niður, er eðlilegt að nefið verði 10-20 cm fyrir framn línunam en þetta fer að einhverju leyti eftir byggingu og þjálfun hestsins.
Nefið má aldrei koma fyrir aftan þess línu! það er ekki nóg að binda hausinn á hestinu einhver veginn.

Þegar við byrjum að hringteyma, verðum við að fylgjast með því að hesturinn sveigist í bakinu líka, ekki bara í hálsinum. Það mætti sjá þetta vel að ofan en því miður er knapinn staddur á jörðu niðri. Samt má sjá mjög vel frá jörðinni hvort lendin sveigist út úr hringnum eða fulgir höfði og hálsi. Þegar hesturinn kemst upp með það að láta lendina sveigjast út, er ekkert gagn í æfingunni. Skakkur hestur verður áfram skakkur, eða jafnvel skakkari.

Það er mjög mikið atriði að fylgjast vel með hestinum og passa að hann noti afturfæturna vel og dyggilega. Yfirleitt sveigir hesturinn bakið vel í hringnum þegar hann notar afturfæturna vel. Það er sem sagt mikilvægt að hvetja hestinn öðru hverju og halda honum við efnið. Hitt er annað mál, að öllu má ofgera. Þegar hesturinn er ekki slakur í hringnum, getur hann farið að reyna að hlaupa undan og þá vinnur hann heldur ekki vel. Að sjálfsögðu er mikilvægt atriði að hesturinn hafi lært að hringteymast áður en við förum að gera svona kröfur til hans. hann verður að skilja hvers við ætlumst til að honum. Þá má hvetja hann rétt áður en innri afturfóturinn kemur niður og lengja þannig skrefin.

Til að þjálfa hest sem er orðinn skakkur,verðum við að gera okkur fyrst grein fyrir skekkjunni. Aðalmálið er ekki að þjálfa hestinn eingöngu á þeirri hlið sem er erfiðari heldur að þjálfa jafnt á báðum hliðum. Þegar afturfæturnir fylgja ekki lengur sporum framfótanna erum við kannski búin að ganga of langt og þurfum við þá að slaka aðeins á innri taumunum. Enn og aftur er mikilvægt að þjálfa báðar hliðar jafnt. Það tekur þó nokkurn tíma að laga mjög skakkan hest, því það þarf að endurþjálfa alla vöðva hans. Það þarf að teygja á þeim vöðvum sem eru stífir og styrkja vöðvana hinum megin.

Ef hestur er erfiður í taumi er stundum gagnlegt að hringteyma hann og kenna honum raddskipanir, sem nota má seinna í reið líka. Taumskekkjur koma oftast einnig fram í vöðvaskekkjum og með því að laga vöðvana má losna við taumaskekkjuna.
Menn verða líka að gera sér grein fyrir því að svona vinna tekur langan tíma, alveg sama hvort maður hringteymi hest eða sitji hann. Það þarf að endurþjálfa vöðva og við erum kannski að tala um tveggja mánaða verkefni.

Æfingarnar í taumhringnum geta hjálpað mikið til við að mýkja hestinn og liðka hann. Sveigjan í bakinu sem kemur þegar hesturinn gengur vel í hring, er mjög gagnleg. Einnig er kostur að knapinn sjái nákvæmlega hvernig hesturinn hreyfir sig og geti gert sér grein fyrir því hvað þarf að bæta.
#16