Askur frá Kanastöðum c/p af eidfaxi.is

Askur frá Kanastöðum fannst dauður í skurði á gamlársársdag. Askur var í girðingu á Ásmundarstöðum ásamt þremur öðrum stóðhestum og þegar ljóst var að hann vantaði í hópinn voru skurðir gengnir og fannst hann dauður í einum þeirra. Snjór var yfir öllu og er líklegt að Askur hafi fælst og lent ofan í skurðinum.

Askur stóð sig vel á síðast ári er hann varð annar í B-flokki á Hvítasunnumóti Fáks. Knapi var Logi Laxdal og átti hann að vera með Ask í vetur og þjálfa fyrir úrtöku og þá Landsmótið ef allt gengi vel.

Askur var undan Svarti frá Unalæk og Öskju Hervarsdóttur frá Miðsitju. Askja hlaut mjög góðan dóm á sínum tíma og fékk m.a. 9,2 fyrir tölt og 9,5 fyrir brokk. Askja virðist ætla að vera frábær kynbótahryssa því undan henni hafa komið mjög góð hross eins og Ambátt frá Kanastöðum og Akkur frá Brautarholti. Ambátt, Askur og Akkur eru fyrstu afkvæmi Öskju og er meðaleinkunn þeirra 8,31 og þá er líklegt að Akkur eigi eftir að hækka töluvert og þá meðaleinkunnin líka. Tvær dætur Öskju verða sennilega í tamningu í vetur en það eru Aða Óðsdóttir og Alda Dynsdóttir og verður spennandi að fylgjast með þeim.

Askur hlaut á sínum tíma mjög góðan kynbótadóm eða 8,18 fyrir sköpulag, 8,62 fyrir hæfileika og 8,44 í aðaleinkunn. Trippin sem hafa komið í tamningu undan Aski lofa mjög góðu. Þau eru geðgóð, viljug og ganglagið er gott svo það eru allar líkur á því að Askur hafi verið góður kynbótahestur þó hann yrði aldrei tískuhestur. Faðerni Asks spilar þar sennilega stærsta þáttinn því þó Svartur frá Unalæk skilaði góðum hrossum þá voru þau yfirleitt ekki hágeng.
#16