Í haust fór ég í fyrsta sinn á fjall og fór fyrir Eystra-Geldingaholt í Gnúpverjahreppi á Gnúpverja-afrrétti. Afi minn hvatti mig síðan til þess að skrifa allt frá ferðinni og loks drattaðist ég til þess en þá var langt liðið á október. Ég kláraði hins vegar frásögnina ekki fyrr en í nóvember síðast liðnum. Ég vona að ykkur líki lesningin.

Sunnudagur 7. september reis bjartur og fagur, en þá átti ég að leggja af stað í fyrstu fjallferð mína. Um morgunin kom trússarinn að sækja farangurinn minn en þá var ég ekki tilbúin með hann svo trússarinn fór bara á næsta bæ til að sækja trússið fyrst. Klukkan tvö átti að leggja af stað og við vorum samferða Ragnheiði í Háholt, og fríðu föruneyti hennar. Árdís og Jón Karl fóru með mér.

Fyrsti áfanginn var frá Geldingaholti að Skaftholtsréttum. Þar stoppuðum við rétt smá stund. Þegar við lögðum af stað aftur, snéri fylgdarlið Ragnheiðar við en við hin riðum alla leið að Fossnesi án stoppa. Hesturinn sem ég reið, Víkingur, var ótrúlega æstur og það var gott að hafa Árdísi til að teyma merina sem ég var með.

Þegar við komum í Fossnes biðu allir þar og svo var lagt af stað. Þar skildu Árdís og Jón Karl við mig. Fyrsta stopp var við Haga, þar sem þurfti að bíða góða stund eftir heimamönnum. Þegar þeir voru tilbúnir riðum við upp að Gaukshöfða og við áðum þar uppi. Við höfðum haft einstaklega gott veður allan tímann nema þegar við áðum kom smá skúr. Við ákváðum að ríða svolítið lengra og stoppuðum undir Bringu í staðinn. Þar var stoppað dágðóða stund. Næsta stopp var á Sandártungu og fengu sum hrossin að velta sér í gerðinu. Þar skiptist hópurinn og flestir unglingarnir fóru í kaffi á Ásólfsstöðum. Ég fór hins vegar með elliheimilinu og við héldum áfram inn í Hallslaut. Stoppuðum þar. Vonuðumst eftir því að krakkarnir kæmu úr kaffinu en ekkert bólaði á þeim. Við héldum síðan áfram án þeirra og stoppuðum næst við Dverghamra. Þar voru nýliðarnir sendir upp í bjargið til að setja stein í hrúgu sem greinilega átti að vera varða. Ennþá bólaði ekkert á krökkunum svo við héldum áfram að Fossá. Þar var tekin góð pása. Rétt áður en við komum að Fossá var Víkingur orðinn þónokkuð góður, tölti en var samt frekar stífur og var lengi að ná töltinu þegar hann datt úr því.

Næsta stopp var við Stöng en ekkert bólaði á krökkunum. Við riðum inn og stoppuðum stutta stund á Kjóaflöt. Þegar við héldum síðan áfram upp hallann sáum við hvar krakkarnir riðu yfir sandinn miðja vegu milli vaðsins á Fossá og Stangar. Þegar við komum í Hólaskóg var farið að rökkva en krakkarnir komu ekki langt á eftir okkur.

Næsta morgun var vaknað um klukkan átta og borðaður morgunamatur. Þegar allir voru síðan tilbúnir með sín hross var riðið af stað þó svo nokkrir tækju þá sérvisku að ganga fyrstu 200 metrana frá kofanum. Riðið var yfir Hafið svokallaða að hlíðum Sandafells þar sem var áð á Gamla Tjaldstað. Allt í einu heyrðust tveir miklir hvellir, eins og sprengingar. Ekki voru allir sammálar um úr hvaða átt hljóðin hefðu komið. En mér fannst eins og þau kæmu vestan úr Fossárdal eða þar. Hrossin kipptu sér reyndar ekkert upp við það. Riðið var yfir allt Sandafellið og voru þá mörg hross laus, þar á meðal Arna, merin sem ég var með, og Röst, meri sem ég teymdi með mér þennan dag fyrir Ingigerði á Stóra-Núpi.

Næsta stopp var í Skúmstungum. Þennan dag var sól svo margir fóru í sólbað. Þessi dagur var bara eins og besti sumardagur, hlýtt og logn. Svo tók við langur kafli upp brekku sem virtist stundum endalaus. Næsta stopp var mjög einkennilegt. Þá hittum við trússarana sem voru á leið í Gljúfurleit. Það einkennilega við þetta stopp var að allir voru á veginum. Þetta hef ég aldrei heyrt um. Alla vega þá riðum við svolítið áfarm en fórum svo af veginum og göturnar yfir eina mýri. Krossuðum síða veginn á einum stað en riðum bara á götunum restina af leiðinni í Gljúfurleit. Á einum stað splittaðist hópurinn í tvennt og ég var í forreiðinni með stóðinum. Síðan ákváðum við að stoppa en Óli Jóns sem var fyrir stóðinu reið áfram og tók ekki eftir því að við hefðum stoppað og reið einn alla leið með stóðið í Gljúfurleit. Þegar forreiðin kom yfir Blautukvísl áði hún en ég hélt ein áfram í Gljúfurleit. Þá var farið að styttast og riðinn var bara vegurinn. Þegar ég kom í Gljúfurleit var Óli að beita hrossunum og mín fóru líka bara á beit. Síðan kom afgangurinn af mannskapnum og öll hrossin fóru niður að gamla Gljúfurleitarkofanum á beit. Þar sátu síðan flest allir í sólinni og spjölluðu og gerðu gys að Óla sem kom einn í Gljúfurleit. Þetta voru ,,hinsegin dagar í Gljúfurleit.”

Við rákum hrossin heim í gerði þegar þau voru búin að fá í sig og ekki löngu seinna var matur. Árdís kom eftir mat með Ingigerði sem hafði verið í bænum að vinna. Um kvöldið komu allir sér fyrir, flestir á svefnloftinu en líka nokkrir í eldhúsinu.
Um nóttina svaf ég ágætlega nema að ég vaknaði einu sinni við að einhver væri að hrjóta. Ég hugsaði “Viljiði sparka í manninn” og sofnaði strax aftur.

Þriðjudagsmorgun rann upp og allir vöknuðu um klukkan sex. Hafragrautur var meðal rétta á morgunverðarborðinu sem trússararnir voru búin að útbúa. Allir náðu í sín hross og við lögðum af stað inn að Dalsá um klukkan tuttugu mínútur yfir sjö. Riðið var frekar hratt inn að Dalsá enda var ég alltaf fremst. Áð var nokkrum sinnum en þegar við komum inn í Skiptibrík var kóngurinn ekki mættur. Nokkrir notuðu tækifærið og stukku að Dalsá til að skoða Hlaupið. Það var strangt til tekið fram að ég mætti ekki stökkva yfir svo ég hélt mig á mottunni.

Þegar við komum aftur voru Lilja og Árni komin og Árni fjallkóngur fór að skipa öllum í leitir. Þeir sem fóru vestur á Öræfi riðu strax af stað. Ég fékk að fara í Gljúfurleit og svo biðum við bara eftir því að Óli Íshólm kæmi sér fyrir á Öræfahjúknum. Þegar hann var á sínum stað vorum við líka komin á okkur stað á Kóngsás. Við fylgdumst lengi vel með strákunum sem voru næst Þjórsánni og svo gátum við lagt í hann. Það var riðið í hóp fyrsta spottann en þegar neðar kom fóru systkinin Guðni og Linda upp fyrir okkur og voru þar. Ég var á milli Lilju og Guðna og var á miðjum stalli í byrjun. Þegar við vorum komin þónokkuð af stað, ætli klukkan hafi ekki verið orðin 12 eða kannski eitthvað meira var okkur Guðna Björgvini falið það verkefni að fara með fjórar Geldingaholts-rollur niður í Gljúfurleit. Við urðum strax langt á eftir hinum vegna þess að í þessum litla hóp okkar voru bara rollur sem gátu ekki labbað og eitt lamb. Þó nokkuð fyrir innan Geldingaá gafst sú fyrsta upp. Sú var geld og gafst bara upp í litlu gili. Við Guðni hvíldum hinar en héldum síðan bara áfram, tóku bara vel eftir hvar við skildum við hana til að geta ná í hana á bíl. Síðan komumst við loks að Geldingaá. Alltaf var stoppað og teknar pásur til að hvíla kindurnar sem eftir voru. Ég hélt hreinlega að við myndum aldrei komast í Gljúfurleitarkofann, þetta gekk hreinlega allt of hægt. Ég var alltaf viss um að við þyrftum bara að fara fram hjá einni hlíð í viðbót en alltaf kom ný og ný í ljós. En þegar við vorum rétt farin að grilla í Gljúfurleit (ég sá reyndar aldrei kofann) tókum við pásu og þá ákvað Guðni Björgvin að stökkva í burtu til að sjá hvað væri langt eftir í húsið. Á meðan sat ég róleg fyrir neðan rollurnar en allt í einu taka báðar rollurnar (og lambið sem var með) strikið niður í gil sem var þarna. Ég reyndi að setja mig eftir þeim en hrossin mín voru svo treg til að ég komst ekki fyrir þær. Eftir mikið basl með hrossin (þau ákváðu að stökkva frá mér þegar ég rétt sleppti þeim) gafst ég upp með, orðin þá alveg ösku ill og fokvond út í Guðna Björgvin sem bólaði ennþá ekkert á. Ég klifra á bak en akkurat þá kemur drengurinn og segist hafa misst hestinn sinn niður í kofa og hafi þurft að sækja. Af hverju skildi hann hestinn ekki eftir niðurfrá? Ég var orðin svoleiðis bálreið út í hann og skammaðist og reifst við hann. En rétt í því missir hann taumhrossið sitt aftur og hleypir eftir honum. Við þetta tjúlluðust hrossin mín og létu öllum illum látum. Ég sá mér ekki annað fært en að fara af baki og teyma og það gerði ég, labbaði alla leið Gljúfurleit, sem reyndar var góður spotti. Þó svo þetta væri 15 mínútna labb eða svo var ég enn reið þegar ég kom niður eftir. Það segir ýmislegt um það hversu ill ég í raun og veru var.

En þegar ég kom í kofann hitti ég strákana sem höfðu verið gangandi við Þjórsá. Þeir spurðu mig hvar í línunni ég hefði verið og sögðu mér að ríða svolítið áfram til Gumma og Óla Jóns. Ég fór til þeirra en strákarnir tóku merina mína og settu hana í gerðið fyrir mig. Þegar ég kom til Gumma og Óla var ekkert að gera svo þetta var hrein fýluferð fyrir mig. Við snerum bara við og riðum aftur í Gljúfurleit.
Ég þurfti að fara með Lilju, Ragnheiði og einhverjum krökkum að sýna þeim hvar ég hefði týnt rollunum mínum. Atli trússari kom síðan að sækja þær á bílnum. Við fórum líka inn að Geldingaá til að sækja þá sprungnu. Hún hafði rölt eitthvað neðar og lá þar undir barði.
Í kvöldmatinn var hangikjöt sem Bjói í Geldingaholti matreiddi. Það var sko fjandi góður matur. Seinna komu Eiríkur og Árdís til að sækja rollurnar sem ég týndi, þær voru ennþá á vagninum hjá Atla.
Ég var grútsyfjuð eftir mjög erfiðan dag með [klippt út, of ljótt fyrir viðkvæmd augu] manneskju svo ég fór bara snemma í háttinn.

Miðvikudagur reis en hann var ekki eins bjartur og fagur eins og fyrri dagurinn. Þennan dag var skýjað og kalt og það var líka rok. Ég var fékk að vera kóngslalli þennan dag, þ.e. að ég var með Árna kóngi allan daginn. Reyndar fór ég upp fyrir hann seinna og hélt mig þar.
Ég var ennþá í Þjórsárgljúfri og var riðið fram úr. Alltaf sá maður meira og meira af Sandafelli og hinum fjöllunum framar, Heklu og Búrfelli. Síðan fór ég að sjá svolítið merkilegt. Ég vissi ekki hvað það var fyrst enn seinna kom í ljós hvað þetta var. Í Búðarhálsinum (hinu megin við Þjórsá) var búið að sprengja inn í fjallið. Ég hélt fyrst að þetta lægi jafnvel langt inn í fjallið en svo var ekki. Þetta var reyndar gríðarstórt en samt lá þetta ekkert langt inn í fjallið.

Nú fór Sultartangalón að blasa við mér og ég fór að sjá niður í Skúmstungur. Á þessum stað er maður líka að ríða í stöllóttu landslagi. Þegar ég var komin næstum niður í Skúmstungur, ekkert langt frá samt, þurfti ég að bíða örlitla stund eftir Árna og Stefáni. Þar voru einhverjar óþægar kindur. Ég sit þarna á merinni og bíð en skyndilega slítur Víkingur sig frá mér og hleypur í vesturátt til Einars Kára sem var þar með lausan hest með sér. Þessir tveir, Víkingur og þessi lausi, taka strikið í suður, Einar á eftir þeim en hann komst ekki fyrir þá. Ekki lengi eftir sé ég hvar tveir hestar eru komnir efst í Sandafellið og stefna áfram. Ég sá Víking ekkert meira þennan dag.

Stoppað var í Skúmstungum til að fá sér einhverja hressingu hjá Bjóa áður en lagt var af stað yfir Sandafellið.
Leiðin yfir Sandafell var alveg gríðarlega löng og margar kindur voru tregar að fara upp brekkurnar. Ég var með þeim öftustu. Þegar tók að halla undan fæti rann féð hraðar niður. Þegar var komið niður á Sandinn var mikið verk að koma fénu áfram en við komumst þó að Hólaskógi. Áfram er haldið þennan dag en við vorum mjög óheppinn og stór hópur af kindum komst inn í hestagirðinguna hjá Hólaskógi og það var mikið mál að koma þeim út aftur. Meðal annars var rafmagnsgirðing fyrir hrossunum okkar og hesturinn hennar Lilju flæktist í honum. En þegar áfram var haldið var sú ákvörðun tekin að fara lengra en venjulega til þess að þurfa að fara ,,styttra” daginn eftir, þá var spáð brjáluðu veðri. Merin mín var orðin mjög þreytt, ég hafði bara riðið henni þennan dag en sem betur fer ekkert daginn áður. Þegar við snérum við tók ég eftir því hversu þreytt hún var greyið, hún dróst aftur úr og sló saman á brokkinu.

Í Hólaskógi var matur og eftir hann lagðist ég upp í rúm og steinsofnaði í öllum fötunum. Fólk kom til að vekja mig og ég var mjög fúl. Ég vildi bara sofa, takk fyrir.

Daginn eftir fékk ég að sofa örlítið frameftir miðað við hina dagana. Fólk fór að týnast út til að smala Stangarfellið en ég var ein af þeim sem fór að reka féð sem var á leiðinni niður að Stöng. Úti var hífandi rok og rigning og maður þurfti hreinlega að halda sér til að fjúka ekki af baki. Ég var með Ingigerði og Hildi um morguninn og við húktum um hálftíma í skjóli á meðan við biðum eftir þeim sem voru inni í Fossárdal. Yfir næsta sand fórum við og komum að girðingunni. Þennan dag var ég allan á Víkingi, grey merin þurfti á hvíldinni að halda. Við riðum veginn fram Þjórsárdal og áðum á stórri flöt við Fossá, alveg fram við þjóðveg. Þar skiptumst við á að fara í kaffi á meðan hinir pössuðu féð. Síðan hófst löng og ströng vegalengd, fram sandinn. Þetta var næstum ógerlegt því féð sótti ótrúlega út í lúpínuna sem var með veginum. Merin mín var alveg til ama, hún var svo þreytt að ég þurfti að toga hana ef ég ætlaði eitthvað tilbaka. En hesturinn var eins og fjall, hann virtist ekkert ætla að verða þreyttur. Nú var veðrið orðið skaplegra og við komumst að Ásólfsstöðum. Þar ver féð sett inn í áningarhólf. Þangað komu Árdís, Pálína, Jón Karl og Sigþrúður og Pálína reið Örnu fram undir Bringu.
Við Bringu var aftur áð og aftur fyrir framan Haga. Þar þurfti að stoppa vegna þess að Flóa- og Skeiðasafnið var ekki komið nógu langt í burtu til að leggja af stað. Það kom niður Fossnes-hagana og við ætluðum að setja safnið okkar í nátthólf við Fossnes. Við komum í Fossnes, og settum loks féð í hólf og síðan kom Sigþrúður að sækja okkur Óla Ís og skutlaði okkur heim í Geldingaholt. Þar var matur á borðum.

Föstudagur var réttadagur og þá var farið snemma á fætur, um sex, og Árdís skutlaði okkur Óla að Fossnesi. Þar beið féð okkar óþreyjufullt eftir því að komast í Skaftholtsréttir. Allir fóru að sækja hrossin sín og síðan var fénu hleypt út. Rétt áður en við komum að Minna-Núpi þurfti stór Trailer endilega að troða sér á veginn. Ég fékk að fara með Lilju, Ingigerði og Hildi framfyrir féð þegar fyrsta féð fór framhjá afleggjaranum að Stóra-Núpi. Þá fór Víkingur á svoleiðis þvílíku yfirferðartölti alla leiðina að réttunum að ég held ég hafi aldrei setið neitt slíkt áður og ég hafði bara ekki viljann í mér til að stoppa hann, þetta var bara allt of gaman til að hægja sig niður. Þennan dag var hann alveg eins og í draumi. Þegar við komum að réttunum fórum við að setja Flóa- og Skeiðaféð í gerðið sem er nær réttunum. Síðan opnuðum við hliðið út á veg og bara biðum. Veðrið var yndislegt, sólin skein í heiði og það var logn. Þegar nærri allt féð var komið inn í gerði fékk ég leyfi til að ríða heim og ég gerði það og að sjálfsögðu fór klárinn þetta yfirferðartölt sitt. Ég brosti mínu breiðasta.

En þegar heim var komið flýtti ég mér inn til að fá mér kaffisopa en stökk síðan út aftur og sótti litlu, sætu Eldinguna mína, lagði á og reið af stað. Á leiðinni mætti ég Sigrúnu, Katrínu og Mána Sveini, þau voru að koma í Geldingaholt til að fara í réttirnar. Elding tölti að sjálfsögðu alla leiðina í réttirnar eins og henni væri borgað fyrir það.

Réttirnar byrjuðu ágætlega, reyndar voru skúraleiðingar en það birti síðan til og stytti upp og rétt eftir hádegi var komið þetta fína veður. Allir drógu eins og brjálæðingar og skyndilega var allt búið. Ekki ein einasta kind eftir. Reyndar var hestur sem skemmti sér með því að stökkva upp á réttarvegg og var þar. Það tókst að snúa honum við og ýta honum niður í réttan dilk aftur.
Við lögðum síðan af stað með reksturinn okkar og allt gekk eins og í sögu.

Eftir góða fjallferð var farið til Möggu og fengið sér hangikjöt og uppstú. Svona lýkur fjallferð 2003 á Gnúpverjaafrétti.