Leið Illuga frá Hólmi að Ölfusvatni

Eftir Örn H. Bjarnason

Inngangur
Illugi bjó á Hólmi á Akranesi og var hann Hrólfsson. Hann var gildur bóndi. Sagt er frá því í Harðar sögu og Hólmverja, að hann fór til Ölfusvatns, bær sunnanvert við Þingvallavatn, í bónorðsför og bað Þuríðar dóttur Grímkels, sem hann átti með fyrstu konu sinni. Grímkell tók honum vel og fóru festar fram.
Síðan segir í Harðar sögu: “Að tvímánuði skyldi brúðlaupið vera heima að Ölfusvatni. En er kom að þeirri stefnu bjóst Illugi heiman við þrjá tigu manna til brúðlaupsins. Með honum var Þorsteinn öxnabroddur úr Saurbæ, mikill bóndi, og Þormóður úr Brekku af Hvalfjarðarströnd. Þeir fóru yfir fjörð til Kjalarness og fyrir norðan Mosfell og svo upp hjá Vilborgarkeldu, þaðan til Jórukleifar og svo til Hagavíkur og svo heim til Ölfusvatns og komu snemma dags.”

Leiðin af Kjalarnesi í Vilborgarkeldu
Hugsanlega hefur Illugi tekið land ekki langt frá Brautarholti á Kjalarnesi. Þar hafa beðið hans hestar. Ekki hefur hann skort reiðgötur á Kjalarnesi, því að þar hófst snemma vegagerð. Um það segir í Kjalnesinga sögu: “Þá var skógi vaxið allt Kjalarnes svo að þar aðeins var rjóður er menn ruddu til bæja og vega. Braut mikil var rudd eftir holtunum frá Hofi.” Í þessari braut reisti Andríður nokkur bæ og kallaði Brautarholt.

Kannski hefur Illugi farið um þessa braut, en síðan farið að rótum Esju og sem leið lá hjá Mógilsá og austur hjá Völlum og Norður-Gröf og meðfram Leirvogsá að norðanverðu. Í hlíðinni við Mógilsá má víða sjá móta fyrir gömlum götum og raunar víðar á Kjalarnesi. Þarna hefur sjálfsagt verið talsverð umferð enda háð þing á Kjalarnesi. Annars lá aðal leiðin á sumrin upp í Kjós um Svínaskarð og áfram norður Sandfellsgötu yfir að Fossá í Hvalfirði.

Í dag er leiðin með rótum Esju ekki fær hestafólki vegna gaddavírs og hengilása. Reyna þyrfti að komast að samkomulagi við landeigendur um að opna þessa leið. Reiðgötur eru hins vegar meðfram þjóðveginum, en það er allsendis ófullnægjandi eins og umferðin er orðin. Það er algjör óþarfi að klessa bílum og hestum þétt saman. Þessu þarf að breyta, en ekki með offorsi heldur lempni.

Vera má að Illugi hafi farið yfir á leiðina er lá um Bringur þar sem heita Lestarófur, sléttar flesjur upp með Köldukvísl. Þær heita svo vegna þess að þar sást síðast til ferðamanna, er þeir fóru austur um Mosfellsheiði. Síðan lá leiðin fyrir norðan Geldingatjörn um Illaklif, sem er suðaustan við Leirvogsvatn og hjá Þrívörðum í Vilborgarkeldu, en Vilborgarkelda er austast á Mofellsheiði ekki langt frá þar sem nýi vegurinn sveigir í norðaustur. Ekki veit ég hvernig nafnið er til komið, en hugsanlega hefur hestur einhverrar Vilborgar legið þar í.

Ekki er þó með öllu útilokað að Illugi hafi farið Stardalsleið upp hjá Skeggjastöðum um Stardal og Hálsaveg í Fellsendaflóa. Hálsavegur var heybandsvegur er lá í austur frá Stardal og í Fellsendaflóa. Þaðan hefur Illugi síðan farið milli Stóralandstjarnar og Heiðartjarnar að Þríðvörðum og svo í Vilborgarkeldu.

Hinn eiginlegi Hálsavegur er ekki farinn í dag, heldur sveigt niður að aðal þjóðveginum, þegar komið er upp fyrir Stardal og riðið meðfram honum langleiðina austur að Bugðu. Rétt áður en komið er að Bugðu er sveigt til vinstri upp í Fellsendaflóa.
Vitað er að þetta var í tvímánuði, en hann hefst seinni partinn í ágúst. Það er ekki hægt að fullyrða hvernig Fellsendaflóinn hefur verið á þessum tíma, en áður en hann var ræstur fram var hann oft erfiður yfirferðar. Ég veðja því frekar á, að hann hafi farið um Lestarófur, enda hafa ótræðisflóar löngum verið eitur í beinum hestamanna. Þekkt er orðtakið: “Betri er krókur en kelda.

Frá Vilborgarkeldu að Ölfusvatni
Frá Vilborgarkeldu fer Illugi fyrir vestan Hæðir og um Jórukleif, en hún er upp frá Hestvík við Þingvallavatn. Jórukleif heitir eins og kunnugt er eftir Jórunni bóndadóttur úr Sandvíkurhreppi í Flóa, sem ærðist þegar hestur föður hennar beið lægri hlut í hestaati. Hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið. Svo hljóp hún með lærið yfir Ölfusá og upp Grafning og nam ekki staðar fyrr en uppi í Hengli. Þar settist hún að í Jóruhelli.

Af Jórusöðli, hnjúk í Henglafjöllum, fylgdist hún með ferðamönnum bæði sem fóru um Grafning og Dyraveg. Í Jórukleif sat hún svo fyrir ferðamönnum, rændi þá og drap. Þessu linnti ekki fyrr en Noregskonungur fann upp ráð til að koma henni fyrir kattarnef. Þjóðsaga þessi endurspeglar hvílík dauðans alvara hestamennska gat verið í gamla daga og er enn. Í dag eru læri þó ekki rifin undan hrossum þegar ílla gengur.

En aftur að ferðalagi Illuga. Leið hans lá áfram hjá Hagavík og að Ölfusvatni. Þegar þangað kemur saknar hann Harðar Grímkelssonar, hálfbróðir Þuríðar, og spyr hvers vegna hann sé ekki mættur, hvort honum hafi ekki verið boðið? Grímkell svarar því til að honum sé sjálfboðið. Þetta finnst Illuga ekki viðeigandi og ríður til Grímsstaða þar sem Hörður býr, en sá bær var í Þingvallasveit milli Svartagils og Brúsastaða.

Þegar þangað kemur er Hörður ekki til viðræðu, þykist vera veikur en er í raun móðgaður vegna þess, að hann hafði ekki verið hafður með í ráðum um giftinguna. Illugi reynir að friðmælast við hann, en Hörður svarar bara skætingi og er stórorður. Ríður Illugi þá á brott.

Geir var fóstbróðir Harðar og voru þeir mjög samrýmdir þannig að “þá skildi á hvorki orð né verk.” Hann sótti hross og reyndi svo að fá Hörð ofan af þvermóðsku sinni. Það tókst að lokum og riðu þeir á eftir Illuga, fyrst væntanlega yfir Öxará á Norðlingavaði, svo hjá Brúsastöðum og Stórhöfða. Þegar þeir náðu Illuga brást hann glaður við og öll stóryrði gleymd.


Heimferðin
Veislan fór hið besta fram en síðan segir í Harðar sögu: “Riðu þeir allir samt frá boðinu allt til Vilborgarkeldu. Þar skildust götur.” Það kemur mér dálítið á óvart, að þeir skyldu verða samferða alla leið í Vilborgarkeldu. Ég hefði haldið að hún væri aðeins úrleiðis þegar fara skal í Þingvallasveit. En kannski hefur Hörður bara viljað fylgja Illuga nokkuð á leið. Hitt er ljóst að þarna hjá Vilborgarkeldu hafa verið krossgötur. Þaðan lá m.a. Laufdælingastígur í vestur eftir Mosfellsheiði að nyrðri enda Lyklafells. Gera má ráð fyrir því að Illugi hafi farið svipaða leið til baka að Hólmi.

Illugi vildi gera vel við Hörð og ætlaði að gefa honum skjöld að skilnaði, en Hörður vildi ekki taka við honum. Þá gaf Illugi honum hring sem Hörður gaf svo aftur Þorbjörgu systur sinni þegar heim var komið á Grímsstaði. Þegar hér er komið sögu er Hörður ekki nema 12 ára, þannig að hann hefur spjarað sig dável, þó að hann væri ekki farinn að ganga óstuddur þriggja ára gamall.

Niðurlag
Í Sýslu- og sóknalýsingu yfir Þingvalla- og Úlfljótsvatnssóknir frá árinu 1840 er minnst á Grímsstaði sem eyðibýli “hvar Grímur hinn litli bjó, sem getið er í Hólmverja sögu.” Einnig er minnst á Vilborgarkeldu og hún talin áfangastaður á Mosfellsheiði. Heyrt hef ég bæjarnafnið Vilborgarkot, sem hefur verið nokkuð fyrir austan Geitháls einhvers staðar nálægt Elliðakoti og ekki langt frá Sólheimatjörn.

En hvaða Vilborg skyldi hafa verið þar á ferðinni? Hefur einhver Vilborg verið það merkileg fyrr á tímum, að bæði kot og kelda væri látin heita eftir henni? Heimildir eru til um þetta kot hjá Örnefnastofnun og ég reyndi að finna það á korti, en jafnvel lærðustu uppdrættir sýna það ekki. Hins vegar er búið að gera Vilborgarkeldu ódauðlega í íslenskum bókmenntum og hana má finna á kortum.

Netfang:ornhelgi@simnet.is