Nú er ég komin heim eftir skemmtilega 8 daga hestaferð. Við lögðum af stað frá Langsstöðum í Flóa föstudaginn 8. ágúst með 38 hrossa rekstur. Enduðum að Fjalli á Skeiðum eftir um 4 tíma reið, og þar bættust við 15 hross daginn eftir (9. ágúst) þegar við riðum upp í Skaftholtsréttir í Gnúpverjahreppi (komin með 53 hrossa rekstur).
Þessir tveir dagar voru svona einskonar upphitun, og þriðja daginn (10.ágúst), hófst ferðin fyrir alvöru. Þá riðum við 11 saman (og tveir fóru á bíl með draslið okkar) inn í Klett, sem tilheyrir Skeiða- og Flóaafrétti. Það tók um 7 tíma með áningum, og veðrið var gott, reyndar kom smá rigning en það skaðaði engan.
Um 11 leytið þann 12. ágúst lögðum við af stað í blíðskaparveðri frá Kletti áleiðis í Gljúfurleit á Gnúpverjaafrétti, en skjótt skipast veður í lofti og það kom grenjandi rigning…. Áðum meðal annars við Þjórsárdalslaugina, Stöng og í Hólaskógi, en á einum staðnum sem við ætluðum að stoppa á var búið að taka gerðið og rafmagnsborðinn var í bílnum sem var kominn í kofann, og ekkert símasamban! Þá urðum við bara að öll að passa hrossin meðan einn og einn í einu náði sér í nýjan reiðhest… það gekk að lokum og allir voru komnir á óþreytta fáka. Í Gljúfurleit hittum við 4 ferðalanga sem höfðu fengið leyfi til að vera með okkur í skálanum, en þau voru búin að vera á ferðalagi með 20 hross í um 22 daga og áttu enn 5 daga eftir…
Þann 13. ágúst var ferðinni heitið áfram eftir afrétti Gnúpverja, inn í Tjarnarver þar sem gist skildi tvær nætur. Á leiðinni þangað heltist ein hryssa, sem var send heim á kerru, og daginn eftir kom í ljós að hún var fótbrotin og því aflífuð. Þegar brotni fóturinn var krufinn kom í ljós að brestur hafði verið í beininu, sem olli því að við þessa áreynslu fór að meiða hana. Daginn eftir að hún kom heim hrökk svo bresturinn í sundur og var þá ekkert að gera nema aflífa hana greyið. Fyrir utan þetta leiðinda atvik gekk ferðin vel og við fengum afbragðs veður þennan dag. Hittum aftur ferðalangana 4 sem voru á heimleið (áttu um 4 daga eftir) Fórum snemma í háttinn til að vera vel hvíld fyrir erfiðasta daginn, sjálfan Arnarfellsdaginn.
14. ágúst rann upp bjartur og fagur og um 9 leytið lögðum við af stað áleiðis innundir Arnarfell. Riðum við meðal annars upp Nautölduna, og komum við í Nauthaga, þar sem einn ferðalangurinn ákvað að baða sig í heitum læk… og þurfti því að vera nærbuxnalaus undir reiðbuxunum það sem eftir lifði dagsins… Eftir 6 tíma reið (með stoppum) komum við loks undir Arnarfell hið mikla og það er sko einn fallegasti staður sem ég hef séð á minni lífstíð. Vorum búin að ríða yfir nokkrar stórar ár, og það var sko gaman!!! Þar hittum við 4 göngugarpa sem voru búnir að vera á gangi um hálendi Íslands í mánuð og áttu enn 2 vikur eftir!!! Við ákváðum að fara styttri leið til baka heldur en þá sem við komum en eftir 2 tíma reið kom í ljós að sú leið var ófær, vegna vatnavaxta og sandbleytu, þannig að það var ekkert annað í stöðunni en að snúa við og fara lengri leiðina til baka aftur… Þegar við vorum vel á veg komin var einn hesturinn orðinn ansi slappur, komst ekkert úr sporunum, og át ekkert þegar við beyttum hrossunum. Þá var hringt í dýralækni sem sagði að það væri ekkert hægt að gera nema LABBA með hestinn heim í Tjarnarver. Það voru tveir strákar sem tóku það hlutverk að sér, að labba með hestinn 6 km, yfir mishæðótt landslag, mýrar, grjót og sanda… við hin riðum í kofann og vorum komin þangað um 22:00. Þeir sem löbbuðu voru kominr í kofa með hestinn rúmlega miðnætti, þreyttir og svangir, enda þurftu þeir nánast að halda á hestinum yfir suma drullupyttina. Þá stóðu aðgerðir til að reyna að hressa hestinn við til 2 um nóttina, og þá voru flestir farnir að sofa, nema við 4 sem vorum að reyna að koma næringu í hestinn. Vá hvað ég var orðin mjööööggg þreytt…. zzzzzzz….
Fimmtudaginn 15. ágúst lögðum við ekki af stað fyren um 14:00 í Gljúfurleit, vegna erfiðisins daginn áður. Vegna þess hvað við lögðum seint af stað vorum við ekki komin í kofa fyren um 21:30, þá var búið að rigna mikið um daginn og voru allir fegnir að komast í kofann að fá að borða og hlýja sér. Þreytti hesturinn lufsaðist áfram, en við fengum senda bætiefnafötu um kvöldið þannig að hann fór allur að hressast. Annars gekk allt vel þennan dag nema að einn datt tvisvar af baki, í bæði skiptin vegna þess að hestarnir ultu um koll, en sem betur fer meiddist enginn.
16. ágúst var svolítið blautur, en ferðin gekk vel á leiðinni niður í Klettkofa þar sem við gistum síðustu nóttina. Lögðum af stað um 12:00 og vorum komin um 18:30. Áðum á sömu stöðum og þegar við fórum frá Kletti í Gljúfurleit, enda rosalega góð gerðin að Stöng og í Hólaskógi.
Síðasti dagurinn, 17. ágúst rann upp með skýjuðum himni, en það fór samt ekki að rigna fyrren seinni partinn. Lögðum af stað frá Kletti rétt fyrir hádegi og vorum komin heim að Fjalli um 19:00, hestarnir allir mikið fegnir að vera komnir þangað, þó að flestir ættu eftir enn einn dag heim að Langsstöðum.
Ferðin var alveg rosalega skemmtileg og ég vona sannarlega að við förum í aðra langa ferð næsta sumar. Fólkið var skemmtilegt og stemmingin góð, og hestarnir stóðu sig flestir mjög vel. Undirbúningurinn var mikill, og svo er þetta bara alltíeinu búið… það er alveg ofsalega skrítið, því mér finnst eins og við höfum lagt af stað í gær…

Vonandi hafðið þið haft gaman af að lesa þetta, og ég ætla að reyna að finna kort og merkja inn leiðina og setja á kasmírinn minn.. læt ykkur vita ef það tekst…
kv, karensk
_________________________________________________