Um GPS-punkta

Eftir Örn H. Bjarnason

Stundum er sagt um þennan eða hinn að hann sé hálfgerður rati. Þetta þýðir að viðkomandi eigi erfitt með að rata. Nú eru hins vegar að ryðja sér til rúms hjálpartæki fyrir rata, svonefnd GPS-tæki. Þetta er þörf nýjung. Eini gallinn er sá að okkur vantar GPS-punkta til að rata eftir.

Nokkuð hefur verið rætt um að hestamenn safni þessum punktum á ferðum sínum, en ekkert hefur enn orðið úr því, enda enginn til að skiðpuleggja slíkt og halda utan um það. Ef gefnir eru út þess háttar punktar þá þarf það að gerast á skipulegan hátt.

Nú dettur mér í hug bráðabirgðalausn á þessu. Hún er sú að hestamannafélög um land allt eignist GPS-tæki. Síðan fari menn hver um sitt svæði og mæli lykilpunkta, hvar reiðleið byrjar og hvar hún endar. Eins hitt hvar mikilvæg hlið eru staðsett, vöð og annað. Þetta gæti verið fyrsta skrefið.

Það er svo með margar reiðleiðir, að rambi maður rétt á þær þá rekja þær sig nokkuð sjálfar, nema þá í blindþoku. Það er því ekki nauðsynlegt að vera með ótal punkta á algengustu leiðum. Þessa sömu lykilstaði mætti svo merkja með áberandi stiku.

Það er að verða æ algengara að hestamannafélög séu með heimasíðu á netinu. Þar er hægt að birta GPS-punkta yfir viðkomandi svæði. Þetta er sáraeinfalt, bara koma því í framkvæmd.