Ég var í 5 daga ferð um Löngufjörur núna í vikunni og ég get ekki sagt annað en það að þetta var það skemmtilegasta sem ég hef gert alla mína ævi! Ákvað að segja smá frá henni eins og síðustu ferð :) Það getur verið að þetta sé allt í vitlausri röð :P

Dagur 1
Við komum á fyrsta gistustaðinn um 5 leitið og fórum svo í stuttan reiðtúr um fjöruna svona til að hita okkur upp fyrir næstu daga. Ég ákvað að skella mér á hann Árjarp þar sem ég HÉLT að hann væri rólegastur af þessum hestum sem ég var með en sú varð ekki raunin. Hann fékk þetta þvílíka víðáttubrjálæði og þaut með mig á engu smá stökki. Ég hef aldrei á ævinni farið á jafn hratt stökk; ég hossaðist á sama hraða og ég hossast á hröðu brokki! Og svo þegar Árjarpur var kominn framhjá öllum hestunum þá datt hann úr takti svo allt fór í rúst, maður heyrði bara vandræðin í taktinum… Og þá ákvað HANN að taka U-beygju en ég hélt áfram í loftinu og lenti á slæma hnénu mínu (var hent illa af baki í vetur). En ég skellti mér á bak og reyndi að halda blóðinu frá fötunum mínum, sem gekk ekkert alltof vel :/ En þetta var nú bara gaman eftir á :)

Dagur 2
Úff… ég man lítið eftir honum… Þá var frænku minni hent af baki þegar hesturinn hennar fældist en þetta var samt ekkert langur dagur, svona 3 tímar bara :) Get ekki sagt neitt meira frá þessu þar sem þessi dagur er allur í móðu. Kannski út af því að ég var upptópuð af verkjalyfjum :/ :P híhí

Dagur 3
Hmmm… Verkjalyfaveikin enn á ný…
Þessi dagur byrjaði ósköp vel, við vorum komin vel á leið þegar hesturinn hans pabba tók eitthvað panicakast og þaut með hann lengst út í bláin svo hann datt af á endanum. Svo fórum við yfir alls kyns landslag. Brjálaðar kríur út um allt! Og þegar við vorum komin yfir kríusvæðið þá voru brjálaðir mávar út um allt! Og svo eftir það fórum við yfir eitthvað flugnasvæði og þá var ekki hægt að hafa munninn opinn! Og rétt svo hægt að hafa augun opin!

Dagur 4
Þessi dagur var skemmtilegastur af öllum dögunum. Við vöknuðum klukkan 6:30 og gerðum allt tilbúið. Lögðum svo af stað um 9 leið. Þetta var alveg frábær leið! Við fórum yfir margar djúpar ár og lentum í ýmsum ævintýrum :D Meðal annars þá festist ég í kviksyndi og það er alveg ótrúlegt að sjá aðferðirnar sem hestarnir hafa til að losa sig úr þessu! Þeir fara á afturfæturna, spyrna sér upp og lenda jafnfætis… nokkurn vegin þannig… Þá fór leiðsögumaðurinn að segja okkur sögur frá því í gamla daga um það hvernig menn björguðu sjálfum sér og hestunum úr kviksyndi. Þetta var þá þeirra síðasta von þegar allt annað brást. Þá tóku þeir tauminn og vöfðu honum þétt utan um hálsinn á hestinum þar til hann var alveg að kafna. Og þá kom flóttadýrið upp í hestinum og þeir beittu sínum allra síðustu kröftum í að koma sér upp úr kviksyndinu.
En það var alls ekki allt gott við þessa ferð! Svona til að halda mynstrinu þá fældist hestur frænku minnar og varð gjörsamlega bandbrjálaður! Að lokum hentist hún af baki í harðan sandinn og það heyrðist alveg hár dunkur þegar höfuðið á henni skall í jörðina. Okkur létti bara þegar við sáum hana hreyfa sig! Hana svimaði og varð óglatt, fékk víst vægan heilahristing :( En við létum hana þá bara á rólegan hest þegar hún var búin að jafna sig og þetta gekk allt í gúddí á leiðarenda :)

Dagur 5
Vöknuðum aftur klukkan 6:30 og lögðum af stað í leiðangurinn. Núna var ekki jafn mikið stress í gangi um að ná fjörunum þar sem það var ekki jafn mikið um djúpar ár og þannig. Þessi dagur var sem sagt eini dagurinn sem gekk áfallalaust :)

Ég mæli svo mikið með að þið farið á Löngufjörur að það er ekki hægt að lýsa því í orðum! Þetta er eitthvað sem allir verða að upplifa! Sandurinn er svona sólarstrandasandur og það er svo gaman að hleypa þarna! Þetta er alger hestaparadís!

En með þessum orðum kveð ég og óska ykkur góðrar ferðar um Löngufjörur ÞEGAR þið farið :D