Skírir Mér datt í hug að segja aðeins frá hestategundinni sem nefnist Skírir. Sumir kannast kannski við nafnið, en fyrir þá sem ekki kveikja þá er Skírir svona eins og stóri dráttarklárinn í Babe (Vaski grísinn Baddi) og líka eins og Boxer í Animal Farm…

Þegar hollenskir verktakar voru sendir til að þurrka upp ensku Fenjalöndin á 16. og 17. öld tóku þeir með sér stóru hestana sína. Þar blönduðust þeir stóru hestunum sem fyrir voru í Englandi, sem komnir voru af Stóra hestinum sem var stríðsfákur Englendinga á miðöldum. Fríslendingakynið hafði líka einhver áhrif. Nafnið Skírir fékk þessi hestategun því hún var ræktuð í skírum (þ.e. sýslum) Miðlanda; Lincoln, Leicester, Stafford og Derby en það var þó ekki byrjað að nota nafnið fyren 1884. Stofnfaðir Skírisins var blindur hestur sem hét Packington.

Skírishestarnir eru sterk- og þéttbyggðir og vega u.þ.b. 1016 - 1220 kg, og það mesta sem hefur mælst að tveir hestar saman hafi getað togað eru 50 tonn!!! Höfðuðið er meðalstórt, augun blíðleg og breitt enni milli þeirra. Bógarnir eru vel skálagaðir og henta vel undir klafa. Fæturnir mjög sterkbyggðir og gildleiki þeirra á bilinu 28 - 30 cm, hófskeggið nær frá hnéhorni/hækli niður á jörð og á að vera slétt og mjúkt. Bakið er stutt og vöðvamikið og afturhluti og læri breið og fallega aflíðandi. Brjóstið þrekið og kraftalegt.

Vinsælasti liturinn á þessum fallega hesti er svartur, og helst sokkóttur, en einnig er mikið um að hestarnir séu jarpir/jarpsokkóttir, gráir og brúnir. Oft er taglið klippt til að það flækist ekki í aktygjum en þó er beinið í taglinu ekki klippt, bara taglhárin sjálf

Þar sem hestarnir gegna ekki lengur eins mikilvægu hlutverki í landbúnaði og áður, þá eru þeir notaðir í ýmsar sýningar og keppnir, til dæmis keppni í plægingu. Einnig má sjá hestana draga þunga ölvagna um borgarstræti Englands og fleiri landa.

Ég vona að þið hafið haft gagn og gaman af að lesa þetta,
kv. karensk

heimildir: Stóra hesatbókin eftir Elwyn Hartley Edwards
_________________________________________________