Óskotsleið að Reynisvatni

Eftir Örn H. Bjarnason

Inngangur
Á síðustu misserum hafa rannsóknir leitt í ljós, að umgengni við dýr í æsku dragi úr líkum á því að viðkomandi fái t.d. asma. Svo virðist sem ónæmiskerfið þurfi að hafa eitthvað að kljást við. Sömu rannsóknir sýna að tempraður sóðaskapur styrki ónæmiskerfið. Þetta hljóta að vera góð tíðindi fyrir hestafólk. Ég er ekki með þessu að segja að hestafólk sé upp til hópa sóðar, alls ekki, heldur hitt að hestamennsku fylgir óhjákvæmilega talsverð óþrif.

Frá Blikastöðum að Álafossi
En svo ég snúi mér að efninu, þá hafði ég hesta mína í sumarbeit á Blikastöðum í Mosfellssveit í allmörg ár. Þaðan er vinsælt að fara ríðandi Óskotsleið svonefnda, Reynisvatnshringinn og aftur að Blikastöðum. Segjum að lagt sé af stað frá Ferðamannavaði á Blikastaðaá, þá liggur leiðin um fjöruna hjá Leiruvogi yfir Dýjakrókslæk fyrir norðan golfvöllinn og síðan áfram í gegnum hesthúsahverfið á Varmárbökkum. Þaðan liggja ágætar reiðgötur nokkuð samsíða Varmá og um undirgöng hjá Brúarlandi. Síðan um Álfafosskvos.
Leiruvogar er víða getið í fornsögum. Þar áttust m.a. við Hrafn Önundarson og Hallfreður vandræðaskáld, en Hrafn sótti að honum með 60 manns og hjó á landfestar Hallfreðar. Skipið rak og lá þarna við alvarlegu skipbroti. Leiruvogar er einnig getið í Landnámu, en Hallur goðlauss nam land að ráði Ingólfs frá Leiruvogi til Mógilsár. Mjög góð lending var talin hafa verið í Leiruvogi.
Fyrir norðan hesthúsahverfið er Skiphóll, en hann var seinasta leiti á mörkum milli Helgafells og bæjarins Varmár. Skip fóru þarna upp um flóð m.a. til að taka hey úr Skaftatungu, en Skaftatunga voru mýrar sem lágu undir Helgafelli. Þangað hefur verið langur engjavegur fyrir suma.
Rétt þar hjá sem hringvöllurinn er á Varmárbökkum var Hestaþingshóll, sem bendir til að þar hafi verið háð hestaöt, vinsæl skemmtun til forna. Þegar graðhestum var att saman var gjarnan höfð meri í látum ekki langt undan. Fnykurinn gerði þá áhugasamari um að standa sig.
Árið 1896 setti Björn Þorláksson bóndi á Varmá upp ullarverksmiðju á Álafossi. Frá árinu 1919 rak Sigurjón Pétursson verksmiðjuna til æviloka 1955, en þá tók Ásbjörn sonur hans við. Sigurjón var mikill íþróttamaður, m.a. glímukóngur. Hann byggði sundlaug á Álafossi og hóf þar sundkennslu árið 1924. Þar stóð hann fyrir sundmótum.

Frá Álafossi að Reynisvatni
Frá Álafossi er farið í áttina að Suður-Reykjum, en þaðan stutt frá liggja götur út með hlíðinni og að Hafravatni. Fyrir suðvestan Hafravatn skammt þar frá sem Úlfarsá rennur úr vatninu til vesturs er eyðibýlið Óskot og liggja troðningar þar hjá og áfram um Óskotsheiði og suður á Langavatnsheiði og Reynisvatnsheiði. Þá er komið á veg, sem liggur að Reynisvatni. Þess má geta að Úlfarsá verður seinna að Korpu og síðan Blikastaðaá, sem rennur til sjávar hjá Blikastaðakró.
Um Suður-Reyki segir í Sýslu- og sóknalýsingu frá því um miðja 19. öld: “Mælt er að bænhús hafi áður verið til forna á Suðurreykjum.” Í sama handriti, sem geymt er oní kjallara úti í Þjóðarbókhlöðu er minnst á nýbýlið eða afbýlið Hamrahlíð, sem var í landi Blikastaða skammt fyrir norðan þar sem vegurinn liggur upp í Mosfellssveit í dag. Jarðabókin frá 1703 segir m.a. þetta um Suður-Reyki: “Kirkjujörð. Þar er heimamanna gröftur og embættað þá fólk er til altaris.” Og síðan: “Engjavegur langur og slæmt engi. Skriður spilla úthögum og eru foruð í þeim, sem peningi er hætt við. Hreppamannaflutningur erfiður.”
Ekki veit ég til þess að ortur hafi verið óður til Óskotsheiðar líkt og Laxness gerir til Mosfellsheiðar. Í Kvæðakveri útgefið 1949 birtist ljóð eftir hann, sem byrjar svona: “Ó Mosfellsheiði.” Seinna í kvæðinu lofsyngur Halldór sauðkindina og lömbin svöng. Hann minnist líka á fuglakvak og döggvatár. Sú árátta sumra að rakka niður sauðkindina, hefur lengi farið í taugarnar á mér. Það er því nokkur huggun að lesa í kvæði Laxness, að honum finnst sauðkindin “yndisleg” og “trú og trygg.” Og hann talar um veislu sem hefur varað í þúsund ár. Við sem höfum setið við þetta veisluborð, ættum að sjá sóma okkar í því að tala ekki ílla um aðal gestgjafann.
En aftur að Óskotsleið. Skammt þar hjá sem hún kemur á veginn niður að Reynisvatni liggja ágætar moldargötur um Reynisvatnsheiði að Rauðavatni. Einnig liggja götur um Hólmsheiði. Því miður hef ég aldrei almennilega getað áttað mig á því hvar ein heiðin hættir og sú næsta tekur við. Þarna efra er talsverð bleyta á veturna, en á vorin og yfir sumarið eru þarna vildisgötur. Þetta vita þeir best, sem eru með hesta sína í Fjárborginni, en hún er fyrir austan Almannadal.
Í Almannadal mættust fjölfarnar leiðir fyrrum m.a. aðalleið skreiðarlesta austan úr sýslum til Suðurnesja, að sækja skreið í skiptum fyrir búvörur. Einnig leið til norðurs hjá Reynisvatni til Gufuness og verstöðvanna við Kollafjörð. Niðurgrafnar moldargötur þarna uppi á heiðunum bera vott um þetta. Þeir sem áhuga hafa á gömlum reiðleiðum ættu að skoða sérstaklega gömlu skreiðarleiðirnar, sem lágu til veiðistöðvanna víðsvegar um land. Þær mörkuðu aðal vegakerfi landsins á sinni tíð.
Þess skal getið að í Trippadal milli Rauðavatns og Fjárborgar á að rísa nýtt hesthúsahverfi Fáksmanna. Þaðan verður væntanlega aðal tengingin við Mosfellssveitina um Óskotsleið. Reiðgötur hjá Grafarholti ættu samt áfram að haldast opnar, þó svo að þær liggi ansi nálægt golfvellinum hjá Korpúlfsstöðum. Golfleikarar er einn háttvísasti þjóðfélagshópur landsins, svo að ekki þurfum við að kvarta undan nábýli við þá. Það heyrir til undantekninga ef golfleikari bíður ekki með að slá kúlu sína sjái hann hestafólk nálgast. Frá þessu væntanlega hesthúsahverfi liggja einnig ágætar reiðgötur um Rauðhóla og hringinn í kringum Elliðavatn.
En aftur að Óskoti. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 er þess getið, að Óskot sé forn eyðijörð og enginn viti hversu lengi hún hafi verið í auðn. Talið er að hún hafi verið í konungseign. Ábúendur jarðarinnar Reynisvatn notuðu hana til beitar og torfskurðar. Einhver silungsveiði mun hafa verið þarna.
Seinna hefst búskapur á Óskoti og er síðasti bóndinn þar Janus Eiríksson. Afi hans í móðurætt, Guðmundur Kláusson. kom sunnan með sjó og keypti þetta kot. Janus er fæddur árið 1922 og er enn lifandi. Faðir hans, Eiríkur Einarsson, dó þegar Janus var aðeins 15 ára gamall. Móðir hans vildi ekki flytja frá Óskoti og það varð því úr að þau bjuggu þarna saman. Þau voru með kýr, kindur og hænsni, en Janus hætti búskap eitthvað í kringum 1970. Hann segir mér að gríðarleg umferð hafi verið hjá Óskoti um Gamla veginn svonefnda, sem lá austur á Þingvöll.
Venjulega er riðinn bílvegurinn að Reynisvatni, en skammt frá honum má sjá móta fyrir gamla Þingvallaveginum, sem liggur í Seljadal og áfram um Vilborgarkeldu á Þingvöll, en Vilborgarkelda er forn áningarstaður austast á Mosfellsheiði.
Úr því að minnst er á leiðina um Seljadal skal þess getið, að ekki langt frá henni og skammt frá Hafravatni stendur bærinn Búrfell. Minnst er á eyðibýli með sama nafni í Jarðabók Árna Magnússonar frá 1703. Bærinn hafði þá verið í eyði í 8 ár og var þetta hjáleiga frá Miðdal. Í Jarðabókinni segir: “Lagðist þetta kot mest í eyði fyrir óbærilegum átroðningi þjóðgötu, sem þar liggur í gegnum túnið, og er þetta kot ekki þess erfiðis vert, sem kosta vildi að gjöra þar bygð að nýju, sá er ágangi ferðamanna gæti af hrundið, og þykir því ei aftur byggjandi.” Þessi setning skýrir að nokkru rótgróna tortryggni bænda gagnvart hestafólki. Ferðamönnum fylgdi átroðningur hér áður fyrr. Við hestafólk eigum vissulega rétt á að ferðast um þetta land, en á okkur hvílir sú skylda að hlífa gróðri eins og kostur er þar sem við eigum leið um.
Milli Hafravatns og Langavatns heitir á einum stað Þórðargjóta. Þar varð eitt sinn úti smalamaður frá Miðdal.
Hjá Reynisvatni er tekið vel á móti hestafólki og er þar gerði fyrir hesta og selt kaffi. Ég veit að Fákskonur hafa oft riðið þarna upp eftir úr Víðidal á vorin. Ekki skyldu menn verða á þeirra leið þegar þær eru að beisla gandinn.
Um jörðina Reynisvatn segir í Jarðabókinni, að þar sé nægilegur torfskurður til húsagerðar og eldiviðar, en að vatnsból þrjóti í stórharðindum og að skepnum stafi hætta af foruðum. Laxveiðiréttindi á jörðin í Korpu, en veiði er lítil. Kirkjuvegur er langur. Leigan greiddist með smjöri ýmist til Bessastaða eða Viðeyjar.
Í Sýslu- og sóknalýsingu frá því um miðja 19. öld er þess getið að aðalkirkja sóknarinnar hafi verið á Mosfelli, en einnig var kirkja í Gufunesi. Messað var 3ja hvern helgan dag á veturna en 2 hvern á sumrin. Einnig virðist hafa verið messað 10da hvern helgan dag í Viðey. Engin hætta var á því að þeir á Reynisvatni kæmu of seint til messu. Ef þeir vildu vita hvað klukkan var þurftu þeir ekki annað en að gá til sólar og miða hana við kennileiti í náttúrunni. Austast er Árdegisás, því næst Hádegishæð og vestast Nónás. Aldrei stöðvaði þetta sólarúr. Gussi sá til þess að halda því gangandi.
Síðasti bóndinn á Reynisvatni var Ólafur Jónsson. Hann var múrari og byggði m.a. Hótel Borg. Eitthvað lengur mun hafa verið búið á Reynisvatni en Óskoti.

Frá Reynisvatni að Blikastöðum
Frá Reynisvatni er riðið meðfram vegi framhjá Engi niður að Vesturlandsvegi. Riðið er meðfram Vesturlandsvegi og undir brúna á Korpu. Þaðan er svo farið eftir nýjum reiðgötum yfir vað á Korpu og hjá golfvellinum hjá Korpúlfsstöðum. Aftur er farið yfir Korpu ýmist á brú eða vaði og svo skömmu síðar riðið um árfarveginn á Blikastaðaá stuttan spöl og svo yfir Ferðamannavað á Blikastaðaá og er þá aftur komið á Blikastaði. Á Blikastaðaá voru þrjú nafngreind vöð. Blikastaðavað var á götunni að Korpúlfsstöðum beint á milli bæjanna. Ferðamannavað er þar sem gamli vegurinn liggur niður undir sjó og það neðsta niður við sjó en ofan klettanna. Það heitir Króarvað.
Sums staðar á þessum Reynisvatnshring er bílaumferðin full nærri. Umferð er að þyngjast æ meir. Úr því minnst er á bifreiðar á höfuðborgarsvæðinu langar mig að koma því að hér, að fjöldi þeirra er minnst helming of mikill. Við erum löngu búin að sprengja gatnakerfið. Nú er svo komið að gangandi vegfarendur eru í verulegri útrýmingarhættu. Sá sem hættir sér fótgangandi út á götu stílar ekki upp á langlífi. Meira að segja á fáförnum götum íbúðarhverfa getur maður átt von á því, að 3 eða 4 bílar komi á mann. Þetta er kjarnafjölskyldan er að búa sig að heiman. Karlinn er að fara á sínum bíl í vinnuna, konan á sínum, strákurinn að aka á sínum bíl í Menntaskólann í Hamrahlíð og dóttirin á sínum bíl í Menntaskólann við Sund.
Þessi þekkilega, litla fjölskylda getur ekki hugsað sér að verða samferða á morgnana. Ef við skoðum inn í baðherbergið hjá þessari sömu fjölskyldu sjáum við þar uppi á hillu ekki minna en fjórar tegundir af sjampói. Hún getur ekki einu sinni komið sér saman um hvaða sjampó á að nota.
Og áfram halda skipulagsyfirvöld að bæta við slaufum og brúm og undirgöngum. Við erum búin að skipuleggja borgina þanning, að það er nær óhugsandi annað en að vera á bíl. Og lögreglan er komin með schäferhunda til að reyna að hafa stjórn á þessari óreiðu, leita uppi fíkniefnasala, gera sprengjuleit og hafa hemil á mannfjölda. Morgunblaðið flytur okkur þessi válegu tíðindi og á hinni síðunni stendur: “Kraftaverk að við skulum vera á lífi.” Þetta er einmitt það sem ég hugsa þegar ég kem heim til mín á kvöldin. “Kraftaverk að ég skuli vera á lífi.”
Nú gæti manni dottið í hug að það hafi verið betra að vera uppi í gamla daga. En hvað um foruðin um alla Mosfellssveit og óheiðarleikann? Veturinn sem Páll Beyer og Jens Jörgensson voru báðir ráðsmenn á Bessastöðum lánaði Hendrich bóndi á Reynisvatni þeim hest til reiðar suður á Stafnes. Þennan hest sá Hendrich aldrei meir og enga borgun fékk hann fyrir.

Niðurlag

Í upphafi þessarar greinar var minnst á hollustu sóðaskapar. Hvað gerist svo annað en að um daginn var viðtal við Davíð Oddsson, forsætisráðherra í sjónvarpinu? Í þessu viðtali lýsti ráðherrann því yfir að hann færi af og til í bað. Hann kvað það hafa heppileg áhrif á smásagnagerðina. Mér varð hvelft við. Síst vil ég að okkar ástkæri forsætisráðherra falli fyrir hendi þeirra Lúx, Ariel og Sjampó. Ég bið því ráðherrann um að stilla böðun sinni í hóf og reyni að finna andagiftina annars staðar en í baðkerinu, best væri ef hann færi að moka hrossaskít í tómstundum.
En það eru ekki aðeins hefðarhálsar sem baða sig reglulega. Alþýðan í landinu baðar sig líka. Ég hygg að þetta háskalega líferni hafi byrjað með tilkomu þvottalaugana í Laugardal eitthvað í kringum aldamótin 1900. Á Þjóðveldisöld þekktist að vísu einn og einn snyrtipinni eins og Snorri Sturluson, en ég held að hann hafi verið undantekning, alla vegana var kerlaugin í Reykholti ekki fyrir almenning, svo mikið er víst.
Hér að framan er nokkuð vitnað í Jarðabókina frá 1703. Ekki var samkomulagið alltaf upp á það besta í Mosfellssveitinni. Bóndinn á Hrísbrú kvartar t.d. undan því, að engjar mæti beitarátroðningi. Sá í Leirvogstungu ber sig ílla út af landþröng og ágangi nábúa. Niðurlag lýsingarinnar yfir Mosfellssveit hljóðar síðan svona: “Þessir eftirskrifaðir Mosfellssveitar umfarendur og niðursetningar, sem hér að öllu sveitlægir eru, reiknast nú að tölu 43. Eru hér meðreiknaðir 8 þjófar og letingjar, sem þó hafa burði og aldur sér föstur að vinna, en hitt gamalt, of ungt og vanburða til að vinna.” Eigandi ofangreindra jarða var “kóngl. Majestat.” Ef það er eitthvað eitt sem eignamenn þola ílla, þá eru það þjófar og letingjar og varla hefur það glatt hjarta konungsins að lesa um þetta hyski í Mosfellssveitinni eigandi þar nánast hverja einustu jörð.
Þó að ég efist ekki um að margir letingjar hafi verið í Mosfellssveitinni, þá veit ég ekki hversu bókstaflega á að taka Jarðabókina. Hún er skrifuð upp að miklu leyti eftir ábúendum, sem bera sig ílla svo að leiga og kvaðir þyngdust síður. Aftur og aftur rekst maður á orðalagið: “Kirkjuvegur langur, kirkjuvegur erfiður.” Kannski hafa letingjarnir verið fleiri en 8 í sveitinni og menn einfaldlega ekki nennt að sækja messu.
En nú er þessum hring lokað og vonandi rambið þið rétt á göturnar á Óskotsleið. Það er þess virði að leita þær uppi.