Stardalsleið á Þingvöll

Eftir Örn H. Bjarnason

Inngangur

Í gamla daga var ólæsi notað til að halda fólki í fáfræði og kúga það. Í dag er farið öðruvísi í þetta. Dengt er yfir það slíku ofurmagni upplýsinga, að það veit varla hvað það heitir. Með þetta í huga ætla ég að hafa örnefni í lágmarki í þessari grein, en hún fjallar um gömlu göturnar frá Skeggjastöðum í Mosfellssveit hjá Stardal og áfram Hálsaveg og sem leið liggur um Kjósarheiði á Þingvöll. Ég mun eftir föngum flétta inn í ýmsu sögulegu sem á leið okkar verður.
Í Landnámu er þess getið að Þórður skeggi hafi numið land milli Mógilsár og Leirvogar og búið á Skeggjastöðum. Þaðan liggur leið sem Sveinn Pálsson nefnir í Ferðabók sinni Stardalsveg. Tvær aðrar leiðir nefnir Sveinn um Mosfellsheiði, Bringuveg sem hann telur greiðasta og syðst Seljadalsveg.
Að morgni 3. ágúst 1792 er Sveinn staddur hjá Vilborgarkeldu, en hún er snertispöl fyrir austan þar sem Kjósarskarðsvegur mætir Þingvallavegi, austast á Mosfellsheiði. “Vegurinn er hvarvetna gersamlega óruddur,” segir Sveinn, “þó er hann allgóður sums staðar, en lengstum allt of grýttur og væri þó létt verk að bæta hann.” Þetta er sami söngurinn og heyrist eftir hverja einustu Jónsmessureið Fáks á Þingvöll. Að hugsa sér. Og þó væri létt verk að bæta úr þessu með þeim tækjum, sem við höfum yfir að ráða í dag t.d. “Bobcat” vinnuvél eða einfaldlega raða fólki á leiðina og týna úr henni grjót.
Sveinn kom úr Viðey og lenti í Gufunesi en spítalahaldarinn þar tók á móti honum og útvegaði ýmsar nauðsynjar. Frá Gufunesi fór hann upp eftir Mosfellssveitinni, en ekki er alveg hægt að sjá á samhenginu hvort hann hefur farið Stardalsleið eða Bringuveg. Sennilegra er þó að hann hafi farið Bringuveg vegna þess, að hann minnist á útsýni til Heklu, sem sést hugsanlega ef farið er þar sem hæst ber á Mosfellsheiðinni.
Á Brúsastöðum hitti Sveinn bóndann, sem var mjög vel að sér í læknisfræði, segir Sveinn, efnafræði og húsagerð, skildi sæmilega bæði þýsku og dönsku, en kunni auk þess margar kynjasögur. Annars var hangikjöt aðal áhugamál Sveins og segir hann hangikjötið í Þingvallasveit bera af öðru hangikjöti, vegna þess að það er reykt við hrís en ekki móreyk.
Í Harðar sögu og Hólmverja er sagt frá Illuga frá Hólmi á Akranesi. Hann fór í bónorðsför til Ölfusvatns að biðja Þuríðar dóttur Grímkels. Tveimur mánuðum seinna átti brúðkaupið svo að fara fram og fór Illugi þá að heiman ásamt 30 manns. Þeir fóru yfir fjörðinn á Kjalarnes. Síðan riðu þeir fyrir norðan Mosfell og í Vilborgarkeldu og þaðan um Jórukleif í Hagavík og að Ölfusvatni. Úr því að þeir fóru fyrir norðan Mosfell hafa þeir mjög sennilega farið Stardalsleið og Hálsaveg og yfir Bugðu. Svo fyrir sunnan Litla-Sauðafell, en þaðan er stutt í Vilborgarkeldu. Yfir Leirvogsá hafa þeir væntanlega farið á vaði milli bæjanna Hrafnhóla og Skeggjastaða. Vitaskuld er þetta aðeins getgáta.
Vilborgarkelda var á krossgötum og þaðan lá m.a. Laufdælingastígur í vestur um Mosfellsheiði í nyrðri enda Lyklafells. Þarna voru sýslumörk milli Árnessýslu og Kjalarnesþings.

Frá Skeggjastöðum í Stardal
Nú er ég kominn nokkuð úr leið. Hverfum því aftur að Skeggjastöðum. Í Jarðabók sinni frá 1704 segja þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín, að á Skeggjastöðum sé forn jörð sem hafi byggst aftur 16 árum áður. Er þar “stórviðrasamt fyrir hús og hey og kvikfé til mikils háska.”Og svo: “Berjalestur halda menn að heimilismönnum gagna mætti.”
Leiðin frá Skeggjastöðum liggur sunnan megin við Leirvogsá upp hjá Tröllafossi, sem er gegnt Haukafjöllum, en þar rennur áin í hrikalegu gljúfri. Þarna gera hestamenn gjarnan stuttan stans og skoða fossinn. Lofthræddu fólki vil ég benda á að fara ekki of tæpt þarna, nema hvað kunningi minn einn úr hestamennsku, sem er svo lofthræddur, að hann helst ílla við í rakarastól, hefur sagt mér að þegar hann er kominn í hnakkinn þá hverfi honum þessi sérviska. Hann hossast í lag, segir hann.
Um Tröllafoss segir þekktur útivistarmaður, að þegar lítið er í ánni þá brotni fossbunan á stalli neðan við mitt fossbergið og er það nokkurt lýti, segir hann. Þetta finnst mér sérkennilegt orðalag. Það er kannski líka lýti á Esjunni, að hún skuli ekki vera eins og Skjaldbreið í laginu. Picasso sem var nokkuð seigur að mála sagði eitt sinn, að það sem er fullkomið sé dautt. Náttúran er ófullkomin en hún er lifandi.
Nema hvað leiðin lá hér áður fyrr að mestu sunnan við Leirvogsá. Í dag er hins vegar farið á vaði yfir Leirvogsá á veg sem ruddur var á þriðja tug aldarinnar sem leið. Þarna var farið með mjólkina frá Stardal niður að Skeggjastöðum. Það var í þá daga þegar mjólkurpóstar voru með virtari stéttum landsins. Þeir hittu aðra mjólkurpósta við brúsapallinn og báru þaðan fréttir heim á bæina.
Ég held ég fari rétt með það, að Halldór Laxness hafi verið mjólkurpóstur sem unglingur heima hjá sér í Laxnesi í Mosfellsdal. Halldór hefur alla tíð verið minn uppáhaldshöfundur, sem helgast af því að þegar ég var að lesa til stúdentsprófs í Verslunarskóla Íslands, þá var hann tiltölulega ný búinn að fá Nóbelsverðlaunin. Ragnar í Smára kepptist við að gefa út heildarútgáfu af bókum hans og ég seldi þessar bækur með afborgunarskilmálum uppá prósentur.
Þjóðin var í óða önn að koma sér upp borgaralegri ásýnd og Laxness í heildarútgáfu smell passaði inn í þá ímynd. Ég, Ragnar í Smára og Halldór Laxness höfðum sameiginlegra viðskiptahagsmuna að gæta og ég dáði þessa menn báða mjög fyrir að sjá mér fyrir vasapeningum þessi árin.
Menntun mín í Verslunarskólanum miðaði að því, að ég legði fyrir mig viðskipti og ég hugsaði með mér, að það hlyti að vera góður bissness að vera Nóbelshöfundur og fór að skrifa smásögur í Lesbók Morgunblaðsins. Í þá daga var í tísku að vera harðsoðinn, svo að ég hafði smásögur mínar harðsoðnar, skrifaði um utangarðsfólk og dauðsföll og þvíumlíkt. Talsvert lof var borið á mig fyrir þessar sögur, sérstaklega þær sem fjölluðu um dauðsföll. Nokkur eftirspurn var líka eftir sögum um limlestingar hvers konar og drykkjuskap, bæði inni á heimilum og á veitingahúsum. Ég hygg að það hafi verið fyrir áhrif frá tískustraumum, sem bárust frá Svíþjóð m.a. með Magnúsi Ásgeirssyni, ljóðaþýðanda.
En með þessu áframhaldi kemst ég aldei á Þingvöll og því best að fara aftur á veginn upp að Stardal. Hjá honum er Sámsstaðaklauf, en fyrir neðan hana eru rústir býlis sem hét Sámsstaðir. Þar á að hafa verið kirkjustaður, sem lagðist í eyði í Svarta dauða árið 1402.
Frá Sámsstöðum er stutt að bænum Stardal. Það mun ekki vera fornt býli, en samt eru einhverjar óljósar sagnir um, að þar hafi verið búið fyrir Svarta dauða. Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín sömdu Jarðabók sína lögðu þeir sig í framkróka að ræða við aldrað fólk. Elstu menn mundu ekki til þess að nokkurn tímann hefði verið bóndabær í Stardal fyrir 1675. Þeir Árni segja að kvaðir hafi verið mannslán á vertíð, en sjaldan þurfti að lána hest til Alþingisreiðar né til að sækja hrís. Aðeins einu sinni var bóndinn látinn ná í timbur í Þingvallaskóg.

Frá Stardal í Selkot
Frá Stardal liggur leiðin um Múlagötu austur með Múlanum og á Hálsaveg. Áður er farið í gegnum nánast hlaðið á Stardal og áfram um hlið hjá útihúsi þar. Ekki er farinn hinn eiginlega Hálsaveg í dag, heldur beygt fljótlega til hægri á gamlan veg, sem liggur niður að Þingvallaveginum. Því næst meðfram honum þangað til komið er langleiðina að Bugðu. Þá eru ýmist farnar reiðgötur sem liggja til vinstri og í Fellsendaflóa eða um árfarveginn á Bugðu. Þaðan liggja götur um Þorláksvörðuholt og í Fellsendaflóa. Þá blasir bærinn Fellsendi við. Hann mun hafa byggst í kringum 1848-1849.
Áður en Fellsendaflói var þurrkaður upp var hann talsverður farartálmi. Hestamenn hvöttu þar gjarnan hesta sína með hrópum og óhljóðum upp úr keldum og fúafenjum.
Fyrst þegar ég heyrði þessi óhljóð leist mér ekki á blikuna, hugsaði með mér að kannski ætti ég að sækja í annan félagsskap, fara í golfið eða eitthvað þvíumlíkt. Að þeirri íþrótt laðast siðað fólk og stimamýkt höfð í fyrirrúmi í þeim hópi. Á golfvelli heyrast aldrei öskur. Þetta er ef til vill skýringin á því hvers vegna golfarar fá nánast allt sem þeir biðja um, en hestafólk oft hundsað af opinberum aðilum. Það vill skorta á fágun í framkomu hestafólks, nema hvað fágun skilar fólki síður langa dagleið á fjöllum. Þar gildir harðfylgni.
Kannski loðir líka enn við hestamenn það orðspor sem af þeim fór fyrrum. Árið 1865 var Bandaríkjamaður J. Ross Browne að nafni hér á ferð. Leiðsögumaður hans var Geir Zoëga. Browne segir í bók sem hann skrifaði íslenska hestaprangara ákaflega stefnufasta og að þeir fylgi aðeins einni meginreglu, nefnilega að fá hátt verð fyrir lélega hesta. Síðan heldur hann áfram. “Harðsvíraðir ræflarnir flykkjast úr sveitunum,” segir hann “og safnast saman á götuhornum nálægt gistihúsinu með alla þá útjöskuðu, höltu, blindu og fótaveiku hesta, sem með nokkru móti hefur verið hægt að smala saman í nágrenninu.”
Mig sárnaði mjög þegar ég las þetta og þori að fullyrða, að það sama gildir ekki í dag. Blindir eru hestarnir ekki, alla vegana ekki á báðum augum.
Undanfarið hafa farið fram talsverðar lagfæringar á reiðgötum í Fellsendaflóa. Sinn hvoru megin við hann hafa verið settar upp tvær aðhaldsgirðingar, sem er mjög til bóta fyrir hestafólk með rekstur. Annars veit ég ekki hversu margir notfæra sér þann ferðamáta að reka eins og hann er nú skemmtilegur. Menn ríða þá einhesta og eru mun frjálsari. Flestir komast fljótt upp á lagið með þetta. Aðal atriðið er að reksturinn steðji ekki framúr. Séu hross mjög heimfús þarf nokkurt lag við þetta. Annars veit ég um mann af Akranesi, sem ríður einn um landið sumar eftir sumar með 7 eða 8 hesta í rekstri. Þannig ferðaðist Sigurður Jónsson frá Brún líka, þegar hann fór hestasöluferðir sínar um miðbik síðustu aldar.
Annar ferðamáti er sá að ferðast með trúss og eru menn þá með allan sinn farangur í klyftöskum og lausir við bíla. Sé rafmagnsgirðing í farteskinu má slá tjöldum nánast hvar sem er. Þennan háttinn hafði Árni heitinn Pálmason á. Hann viktaði nákvæmlega upp á hestana alveg upp á súputening svo að töskurnar sliguðust ekki á aðra hlið hestsins. Varðandi reksturinn vildi hann helst hafa það þannig, að nokkrir voru í forreiðinni, en síðan einn og einn maður hafður inn á milli, svo fjórir, fimm hestar og síðan aftur maður. Þannig kvað hann auðveldast að hafa stjórn á rekstrinum. Svo kom eftirreiðin og hún mátti ekki reka of stíft á eftir. Hugtakið bágrækur sýnir, að ekki eru allir hestar jafn heppilegir í rekstur, sumir reyna að smokra sér út úr rekstrinum eða bíta aðra hesta út úr götunni. Slæga hesta þarf að merkja með því að setja litband í tagl.
Úr Fellsendaflóa liggur leiðin hjá Stíflisdalsvatni yfir Kjálkaá. Fyrir neðan Dalholt þar sem Nyrðridalur og Stíflisdalur mætast er talið besta vaðið á Kjálkaá, en hún kemur ofan úr Kjölnum og rennur í gljúfrum niður Nyrðridal og í Stíflisdalsvatn. Frá vaðinu er farið Selkotsveg svonefndan í Selkot, en Selkot var hjáleiga frá Stíflisdal og talið nýbýli árið 1840, byggt um 1830. Þarna var vetrarþungt en heyskapur hægur.
Fyrsti bóndinn í Selkoti var Sigurður Þorkelsson. Hann bjó þar árin 1830 til 1890, en síðasti bóndinn Sveinn Abel Ingvarsson bjó þar frá 1937 til 1953. Hann er jarðsettur þar ásamt tveimur konum sínum, þeim Helgu Pálsdóttur og Ragnhildi Lýðsdóttur.
Selkot stendur eins og fyrr segir í Nyrðridal, en eftir honum rennur Kjálkaá. Innst tekur við svonefnt Gljúfur. Upp með því liggja reiðgötur austur á Þingvöll. Fyrir framan gljúfrið er Kirkjuflöt, en þar áði fólkið frá Fellsenda, Stíflisdal og Selkoti, Dalbæjunum svonefndu, þegar farið var í Þingvallakirkju. Langur kirkjuvegur hefur það verið og messur voru all tíðar í þá daga. Á Úlfljótsvatni í Þingvallasveit var t.d. messað þriðja hvern sunnudag á sumrin og fjórða hvern á vetrum.
Á Teignum svonefnda meðfram Kjálkaá var engjastykki, sem spilltist mjög af umferð ríðandi manna. Sjálf er Kjálkaá alla jafna meinleysisleg, en í vatnavöxtum á vorin getur hún sýnt á sér klærnar og á vetrum lokaðist bærinn gjörsamlega inni milli ófærra lækja og áa. Þetta segir í örnefnalýsingu höfð eftir Bjarna Jónssyni, beyki. Þar segir: “Selkot lá mjög afskekkt. Vegir voru erfiðir, ófærir á vetrum og í leysingum. Þrjár leiðir lágu frá bænum. Leiðin til Reykjavíkur lá suður yfir Kjálkaá á tveimur vöðum, yfir Grjótá, og síðan aftur yfir Kjálkaá og suðvestur að Sigurðarhól í Stíflisdalslandi. Síðan lá hún vestur yfir Mosfellsheiði.”
“Leiðin í Kjósina lá norðan Stíflisdalsvatns, niður með Stýfingum, austan ár, niður með Þórufossi og norður að Hækingsdal.”
“Þriðja leiðin frá Selkoti var raunverulega framhald leiðarinnar úr Kjósinni, þ.e. leið Kjósaringa til Þingvalla, Kjósarheiði. Guðný (dóttir Jóns Bjarnasonar ábúanda í Selkoti 1918-1936) kveðst þekkja það nafn, en þessi leið var aldrei kölluð annað en Heiði þ.e. að fara austur yfir Heiði, frá Selkoti að Kárastöðum, Brúsastöðum og Þingvöllum. Leiðin lá til austurs eða suðausturs frá Selkoti. Þar voru reiðgötur, en faðir Kristrúnar (önnur dóttir Jóns) lagði þar veg eins og þeir voru í þá daga síðustu árin, sem hann var í Selkoti.”
Þess má geta að frá bænum Skálabrekku og upp að Selkoti og Stíflisdal eru gamlar götur, sem liggja um Skálabrekkusökk og upp á milli Hádegisholta. Eins lágu götur frá Heiðarbæ um Vestra-Hádegisholt. Um þessa heiði var mikil umferð hér áður fyrr, sérstaklega í sambandi við réttir á haustin.
Í Jarðabók Árna og Jóns segir að bóndinn í Stíflisdal sæki skóg til eldunar, kolagerðar og eins rafta í Þingvallaskóg, þó að það sé erfitt vegna “vonds vegar.” Kirkjuvegur þótti langur og erfiður og förumannaflutningur sömuleiðis. Þetta orð förumannaflutningur hef ég ekki heyrt áður, en merkir kannski að bændur hafi komið förufólki af sér frá einum bæ til annars. Þannig vann innbyggð Tryggingastofnun þjóðarinnar í þá daga. Þetta förufólk var svo gangandi fréttablað eða Ríkisútvarp með allt það nýjasta á hraðbergi og slúður í bland.
Þrjú önnur eyðibýli eru á þessum slóðum: Álftabakki í Stíflisdal fyrir sunnan Kjálkárós, Melkot fyrir austan Stóragil rétt hjá Selkoti og Hólkot, en sá bær stóð sunnan við Kjálkaá, norðanundir Hádegisholti. Hólkot fór í eyði í Svarta dauða árið 1402, en í Melkoti var búið í nokkur ár um aldmótin 1900.


Frá Selkoti í Skógarhóla
Frá Selkoti liggur leiðin um Kjósarheiði yfir Jakobssund eða Lögmannskeldu öðru nafni. Þar fyrir austan tekur við Einiberjaflöt vinsæll áningarstaður, Hlíðarmelar og Djúpgrófarholt. Þegar komið er niður af holtinu er komið að réttarbroti skammt frá Brúsastöðum. Þó að Kjósarheiði væri ekki nema tvær bæjarleiðir var hún nokkuð mannskæð.
Þann 8. október 1792 fór Sveinn Pálsson um Kjósarheiði að Meðalfelli í Kjós. Heiðin er stutt en erfið yfirferðar, segir hann, “vegna ótræðisflóa og keldna”. Komið er niður í Stíflisdal sem er fallegt, grösugt dalverpi.” Og svo heldur hann áfram: “Leiðin niður Kjósina liggur austan Laxár niður að bænum Vindási. Þar er vað og er stuttur spölur þaðan heim að Meðalfelli, sem stendur þar vestan undir einstöku fjalli.” Sveinn hefur farið Þrengslaleið niður með Laxá og yfir hana á Norðlingavaði eða Norðlendingavaði eins og það hefur líka verið nefnt. Þau eru ansi víða þessi Norðlingavöð.
Í sóknarlýsingu frá árinu 1840 er þess getið að Norðlingavað á Öxará hafi verið þrautavað þegar mikið var í Öxará neðar, en Norðlingavað er skammt frá réttinni hjá Brúsastöðum. Það er sjaldan farið í dag enda harðbalarnir meðfram Öxará að sunnanverðu mun eftirsóknarverðari. Annars voru vöð á Öxará nokkuð breytileg vegna hvarfa og sandbleytu.
Eftir að komið var yfir Öxará var farið um Norðlingaveg hjá eyðibýlinu Bárukoti og um Leynistíg til Alþingis, en Leynistígur er rétt hjá rimlahliðinu á Þjóðgarðsgirðingunni skammt frá Skógarhólum, nema farið hafi verið um Langastíg og Stekkjargjá, sérstaklega ef menn voru einhesta. Bárukot mun ekki hafa verið í byggð síðan á 17. öld og þá aðeins í 8 ár. Þar þótti þó sæmilegt túnstæði.
Úr því að við erum komin í Skógarhóla má geta þess að vestan undan Fjárhúsmúla undir Ármannsfelli var í kringum 1680 byggður kotbær á rústum fjárhúsa frá Svartagili. Þetta kot hét Múlakot og var ekki búið þar nema í eitt ár, en kannski hafði verið búið þarna löngu áður. Talsverð byggð var á Þingvöllum fyrrum og einn ferðalangur sá þar eitt sinn leggja reyk upp frá 18 bæjum. Orðhagur maður hefur kallað Þingvallasveit afdalabyggð í alfaraleið.
Á Alþingi sem haldið var á Þingvöllum fóru ekki aðeins fram venjubundin þingstörf. Þar var einn alsherjar suðupottur mannlegra samskipta. Ýmis viðskipti fóru fram, hrossakaup, menn báðu sér konu. Prestastefna Skálholtsbiskupsdæmis var haldin þarna. Drekkja þurfti konum fyrir að bera út barn sitt. Þjófar voru hengdir hjá Gálgakletti við Langastíg. Á Höggstokkseyri voru menn hálshöggnir. Enn fleira gerðu menn sér til skemmtunar. Inni á Hofmannaflöt voru haldin íþróttamót og óbein tískusýning var þarna enda spígsporuðu þar innan um sundurgerðamenn í skartklæðum, en minna um leppalúða og tötrahypjur, nema kannski liðið sem þurfti að hengja eða drekkja eða leiða á höggstokkinn.
Víst er um það að leiðir margra lágu á Þingvöll. Sumir komu um Leggjabrjót úr Botnsdal. Aðrir Gagnheiði frá Gilstreymi í Lundarreykjadal. Enn aðrir fyrir Ok ýmist frá Rauðsgili eða Giljum í Hálsasveit. Svo var það Kaldidalur frá Húsafelli. Einnig Hellisskarðsleið frá Geysi í Haukadal hjá Hlöðufelli og Skjaldbreið og um Goðaskarð á Hofmannaflöt. Að þessum leiðum lágu langferðaleiðirnar vestan undan Jökli eða úr Dölunum um Brattabrekku. Norðan úr landi um Holtavörðuheiði, Tvídægru eða Arnavatnsheiði. Skagfirðingavegur lá um Stórasand. Eyfirðingavegur úr Eyjafirði. Svo var það Sprengisandur. Austan úr Vopnafirði komu menn Biskupagötur um Ódáðahraun.
Í Sturlungu segir: “Þeir Órækja fóru úr Reykholti sjötta dag jóla fyrst ofan til Bæjar og léði Böðvar þeim vopn; fóru þaðan upp í Reykjardal (Lundrreykjadal) um kvöldið. Sjöunda dag fóru þeir suður Gagnheiði og höfðu fimm hundruð manna. Þeir Órækja og Sturla fóru með sínar sveitir á Þingvöll, en annað liðið fór á Kárastaði og Brúsastaði. Þeir höfðu engar fréttir sannlegar sunnan frá Gissuri.” Þessi styrjadarflokkur hefur komið niður hjá Svartagili og nærri fullvíst má telja að þeir sem fóru á Þingvöll hafi farið um Leynistíg. Hinir hljóta að hafa farið um Norðlingveg yfir Norðlingavað á Brúsastaði og Kárastaði.
Sturlunga er nokkuð góð heimild um fornar reiðleiðir enda gerðu menn á Sturlungaöld víðreist að kála hver öðrum. Fastmótað bændasamfélag seinni tíma bauð upp á færri skemmtiferðir af því tagi. Svo segir á einum stað í Sturlungu: “Nú er að segja frá ferðum þeirra feðga Arons og Bárðar, að þeir komu ofan um Kluftir og sjá niður undir Ármannsfell fjölda mikinn hrossa og manna og hugsa nokkuð fyrir sér ráðið og þykir eigi ólíklegt að þeir Hafliði muni þar sitja fyrir og gæta svo hvorirtveggju leiðarinnar, er önnur liggur fram undir Ármannsfell og Sleðaási en önnur liggur leiðin austur yfir hraun undir Hrafnabjörg og undir Reyðarmúla til Gjábakka og svo austan um hraun til búða.” Þarna er annars vegar verið að lýsa leiðinni um Leynistíg og hins vegar leiðar um Gjábakkastíg yfir Hrafnagjá.
Í Sýslu- og sóknalýsingum frá 1839-1843 segir að Almannagjá og Hrafnagjá hafi verið lagfærðar með “púðurhleypum og brúleggingu.” Vörður voru fáar og “gjár mjög varasamar þá yfir þær fennir,” og eina úrræðið að hlaða vörður. Það hefur ekki verið eftirsóknarvert að vera þarna á ferð á veturna, en um sumardag veit ég fátt skemmtilegra en að skokka á Þingvöll í góðum félagsskap.
Svo vikið sé að ferðalögum á vetrum þá er þekkt sorgarsagan um Lækjarmóts-Jón, sem ætlaði frá Gjábakka um Lyngdalsheiði austur í Laugardal í dimmviðri og snjókomu. Hann skilaði sér hins vegar aldrei þangað, en þrjátíu árum seinna fannst broddstafur hans í austanverðri Skjaldbreið. Þrettán árum eftir það fundust beinin vestur af Hlöðufelli. Signet hans fannst við lærlegg hans svo að það var ekki um að villast, að þarna hafði Lækjarmóts-Jón orðið úti. Um þennan óraveg hlýtur hann að hafa verið að flæmast í fleiri sólarhringa. Þetta sýnir að vilji fólk lifa lengur frekar en skemur, þá er óvitlaust að gá til veðurs.
Enn er ég orðinn afvegaleiddur og því best að slá botninn í þetta. Í upphafi þessarar greinar var minnst á ólæsi. Það er því kannski við hæfi að enda á skriftarkunnáttunni. Um hana segir séra Björn Pálsson í Sýslu- og sóknalýsingu sinni: “Þetta er þaulspurnig,” segir hann, “því að skuli telja alla þá menn skrifandi, sem bera penna á pappír, verða þeir margir, en skuli einungis telja þá, sem skrifa svo nokkurn veginn verði lesið verða þeir 29, þar af 4 kvenmenn.” Ætli þetta hafi ekki snúist við í seinni tíð ef marka má gestabókina í Skógarhólum. Þar ber rithönd kvenna af en karlmenn virðast oft lítt skrifandi, sérstaklega ef gisting þeirra ber upp á helgi.
Undanfarin ár hefur talsvert líf færst í starfsemina í Skógarhólum. Þar er ágæt gistiaðstaða og sturtubað. Garðar Hreinsson frá Helgadal hefur séð um staðinn og er m.a. með hestaleigu í gangi. Þar geta einstaklingar og hópar fengið hesta á leigu. Með þetta fólk fer hann gjarnan hefðbundinn, mjög skemmtilegan hring í þjóðgarðinum. Fyrst er riðið eftir ágætum götum að eyðibýlinu Hrauntún. Þaðan svo í Skógarkot og upp á Gjábakkastíg við Hrafnagjá. Síðan til baka og um Langastíg og Stekkjargjá og aftur í Skógarhóla. Mér er kunnugt um að starfsmannahópar hafa nýtt sér þessa þjónustu og oft er grillað að loknum reiðtúrnum. Fátt hristir fólk eins ánægjulega saman og dagstund á hestbaki og ég hygg, að mörg fyrirtæki muni fá það margfalt til baka að bjóða starfsfólki sínu upp á tilbreytingu af þessu tagi.
Mjög er mismunandi hvað menn eru ratvísir. Sumir fara hvaðeina á nefinu einu saman án þes að nota kort eða áttavita. Aðrir eru slíkir ratar að þeir eru óðara komnir í ógöngur, elta kindagötur fram á hengiflug eða út í fúafen. Slíkir menn eru lítt fallnir til forystu í hestaferðum, þó að sé oft einmitt þeir sem troða sér fremst og fara jafnvel framúr fararstjóranum.
Mikla ratvísi þarf nú ekki til að skokka á Þingvöll í björtu veðri. Leiðin rekur sig nokkuð sjálf, en samt er á tveimur eða þremur stöðum smá vafi hvar á að fara. Þegar komið er upp fyrir Stardal liggja gamlar götur, Hálsavegur, út með hlíðinni. Sú leið er ekki lengur farin heldur er farið um gamlan veg sem liggur niður að aðal Þingvallaveginum. Síðan er farið meðfram Þingvallaveginum þangað til komið er næstum út að Bugðu. Þar er farið til vinstri upp í Fellsendaflóa eða eftir gilinu hjá Bugðu.
Þegar komið er yfir veginn sem liggur um Kjósarskarð er farið eftir vegi, sem liggur í sandgryfju. Úr Þessari gryfju liggja ágætar reiðgötur og áframhaldið auðséð. Ég man ekki í svipinn eftir fleiri vafastöðum.
Svo bara eitt í viðbót. Sleppið aldrei hnakkhestinum á ferðalögum. Hann getur fyrirvaralaust tekið upp á því að hlaupa frá ykkur. Veglaus er hestlaus hestamaður.