Er að velta fyrir mér hvað vitlaus inntaka í bernsku getur haft mikil áhrif á hugsun manns langt framt eftir öllu.

Einhverra hlutavegna meðtók ég miðflóttaaflið sem miðflotaaflið. Þar til fyrir stuttu þá hef ég alltaf heyrt/lesið segi og skrifa miðflotaafl. Svo var það fyrir svona tveimur mánuðum síðan að ég las allt í einu miðflóttaafl (er hálfragur við að nota þetta orð, því innst inni trúi ég því að það sé vitleysa). Við það að lesa orðið rétt var eins og flóðgáttir himins opnuðust fyrir mér og ég áttaði mig skyndilega á andhverfuhætti miðflóttaaflsins og aðdráttaraflsins og stærðfræðilegri og eðlisfræðilegri birtingu hans.

Ég fór líka að velta fyrir mér hvort ég sé haldinn mörgum svona meinlokum í viðbót. Kannski á skilningsleysi mitt á heiminum rót sína að rekja til mismæla og misheyrna sem ég hef tekið fyrir satt. Kannski kemur sá dagur þegar ég hef öðlast fullan skilning á tungumálinu og hef þá umleið öðlast fullan mannlegan skilning.

M.