Það fer svolítið í mig þegar fólk býr til skiptingu milli efnis og anda eða náttúrulegs og yfirnáttúrulegs. Ef andi er eitthvað sem hefur áhrif á gang heimsins, er hann þá ekki bara efni? Ef andi er óuppgötvað form efnis, var ljóseindin þá einu sinni andi? Hefur þá einhverja merkingu að tala um “anda” umfram “óuppgötvað efni”?

Ef yfirnáttúrulegir eða andlegir hlutir geta haft áhrif á heiminn en ekki heimurinn á þá, þá geta þeir ekki “vitað” hvað þeir eru að gera við heiminn og geta aðeins valdið handahófskenndum atburðum á handahófskenndum stöðum, nokkuð sem engar vísbendingar eru fyrir. Að “sjá” heiminn eða að miðla upplýsingum innan hans er háð því að verða fyrir áhrifum frá honum og geta aftur haft áhrif á hann. Þetta er einfaldlega það sem efni gerir. Andleiki og yfirnáttúruleiki eru óþarfi.