Í grein sem „24 stundir“ (fyrrum Blaðið) birtu í dag talar Tómas Torfason, formaður KFUM & K, að öfgahópur leiki lausum hala. Mér brá heldur í brún þegar ég sá að blessaður maðurinn var að tala um trúleysingja!
Hvernig í ósköpunum er hægt að kalla trúleysingja öfgamenn er mér hulin ráðgáta, sérstaklega þar sem trúleysingjar hafa enga afmarkaða stefnu nema að trúa ekki á óhrekjanlega tilvist einhvers hugarburðar, siðferði þeirra og lífsskoðanir geta verið allar mögulegar fyrir því.
Rökin sem hann færir fyrir máli sínu eru að íslenska samfélagið sé svo hákristið að miðað við margblessaðan og heittrúaðan almúgann sé trúleysi hreinustu öfgar. Hann segir óbeint að trúleysi rýri samfélagið.
Hann segir að kröfur trúleysingja um afnám trúboðs gegn skólaskyldum börnum sé hreinasta frekja þar sem meirihluti Íslendinga sé kristinn og þar af leiðandi sé lýðræðislegt að halda kristni í hávegum, s.s. gera alla kristna.
Gallinn við málflutnings hans er að inntak trúleysis og kristni er allt annað, fyrsta boðorðið segir allt sem segja þarf, því leyfi ég mér að kalla kristni freka í sjálfu sér. Trúleysingjar berjast fyrir almennri kynningu á siðfræði í stað kristnifræði, eðlileg krafa að mínu mati. Þeir krefjast ekki að það sé hamrað í börnin að guð sé ekki til, ég efast stórlega um að í bígerð séu sumarbúðir trúleysingja þar sem farið verði með and-faðirvorið fimm sinnum á dag og sungnir and-trúaðir söngvar, þá væri þetta jafnfrekar stefnur sem stangast á, en svo er ekki.