Nú er í gangi hér á Heimspekiáhugamálinu könnunin “Ef tré fellur og enginn er nálægur til að greina hljóð, heyrist þá hljóð yfir höfuð?”. Svarmöguleikarnir eru þrír: a) Nei! Hljóð er ekki til, bara bylgjur, og ef ekkert eyra nemur bylgjurnar þá er ekkert hljóð, b) Já auðvitað… hljóð heyrast alltaf, sama hvort einhver heyrir það eða ekki, og c) Nei af því bara… mér finnst það.

Nú mætti í sjálfu sér setja út á það að ekki sé boðið upp á hlutlausan svarmöguleika fyrir þá sem hafa ekki hugleitt málið nægilega. En ég ætla mér ekki að agnúast út af því eins og sakir standa. Það sem ég er að velta fyrir mér er hvers vegna (14. okt. '01) níu manns hafa valið að svara b) hér að ofan, þ.e.a.s. “Já auðvitað… hljóð heyrast alltaf, sama hvort einhver heyrir það eða ekki”.

Mér finnst þetta bersýnilega vera rangt svar. Rangt vegna þess að það er engin leið til að segja þetta og vera samkvæmur sjálfum sér (engin “coherent” leið til þess að segja þetta). Þetta fólk er í mótsögn við sjálft sig. Hvernig getur hljóð heyrst óháð því hvort það heyrist? Þetta er rugl!

Svar a) hér að ofan - þ.e.a.s. “Nei! Hljóð er ekki til, bara bylgjur, og ef ekkert eyra nemur bylgjurnar þá er ekkert hljóð” - finnst mér aftur á móti bersýnilega vera rétt - þótt það sé ekki nægilega vel og gætilega orðað. ég get hins vegar varla komið orðum að því betur en Eyja Margrét Brynjarsdóttir hefur nú þegar gert. Ég læt því svar hennar við spurningu Garðars Guðjónssonar, “Ef tré fellur í skóginum og það er enginn nálægt, heyrist þá eitthvert hljóð?”, sem birtist á Vísindavefnum þann 28. mars 2000, fylgja með hér að neðan.



“Spurning: ”Ef tré fellur í skóginum og það er enginn nálægt, heyrist þá eitthvert hljóð?“.

Spyrjandi: Garðar Guðjónsson.

Svar: Sé spurningin tekin bókstaflega hlýtur svarið einfaldlega að vera ”nei“. Sé engin heyrandi vera nálægt trénu sem fellur, hvorki manneskja né annað dýr, heyrist ekkert hljóð því merking orðsins ”að heyrast“ virðist fela í sér að einhver heyri. Hins vegar má umorða spurninguna og spyrja hvort eitthvert hljóð myndist við þessar aðstæður og því er erfiðara að svara. Svarið við þessari breyttu útgáfu af spurningunni veltur á því hvað átt er við með orðinu ”hljóð“.

Sé hljóð einfaldlega sami hlutur og hljóðbylgjur verður svarið ”já“ þar sem hljóðbylgjurnar myndast að sjálfsögðu óháð návist heyrandi vera. Stundum er því haldið fram að sá eiginleiki hlutar að gefa frá sér ákveðið hljóð sé það sama og ákveðin tilhneiging eða máttur hlutarins. Samkvæmt því gefur tréð sem fellur frá sér hljóð ef það er satt að einhver heyrandi vera mundi heyra hljóð ef hún væri nálægt. Allt bendir til þess að þetta sé satt í þessu tilviki og svarið verður því aftur ”já“ samkvæmt þessari útgáfu.

Sumir heimspekingar hafna báðum ofangreindu skilgreiningunum á hljóði eða því að gefa frá sér hljóð og segja að hljóð sé eiginleiki okkar eigin skynjana og búi hvergi annars staðar en í hugum þeirra sem heyra það. Hljóðið sé því ekki myndað af trénu sem fellur heldur myndist það í hugum þeirra sem heyra en tréð sem fellur geti samt sem áður verið ein af orsökum þess að heyrandi vera myndi hljóð í huga sínum. Ef engin heyrandi vera er nærstödd myndast því ekkert hljóð samkvæmt kenningum á borð við þessa heldur myndast aðeins eitthvað sem gæti verið orsök hljóðmyndunar ef réttu aðstæðurnar væru fyrir hendi.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir,
stundakennari í heimspeki við HÍ”

af http://www.visindavefur.hi.is, 28.03.00.<br><br>__________________________
Aut tace aut loquere meliora silentio.
___________________________________