Ég skrifaði þessa grein upprunalega inní umræðuna um tilgang tilgangsins en þar sme sú umræða er orðin svoldið gömul og þreytt ákvað ég að smella henni hérna inn líka, skoðið þetta.

Að mínu mati getur hinn sanni tilgangur ekki verið eitthvað sem einstaklingur finnur sér sjálfur, ef lífið hefur tilgang þá tel ég að sá tilgangur verði að vera til sem slíkur, tilgangurinn verður að vera sannur. Hann(tilgangurinn) ef við kæmumst að honum, myndi þá segja okkur afhverju við lifum og hvað við eigum að gera við lífið. Þá hefðum við fundið tilgang lífsins en ekki búið okkur hann til.

Það er mikill munur á því að hver og einn finni sér eitthvað til að lifa fyrir og búi sér þar af leiðandi til sinn eiginn “tilgang” með lífinu, eða þá það að það sé til einn sannur tilgangur sem myndi gefa lífinu virkilegt gildi. Ef þessi tilgangur myndi finnast (erfitt og ólíklegt), þá myndum við vita hversvegna allt er til, afhverju við erum til og til hvers við lifum. Ég tel að þessar spurningar skipti í raun mestu máli, vegna þess að svarið við þeim myndi gefa okkur svar sem myndi óneitanlega veita okkur sannan tilgang með lífinu. Þar sem enginn hefur svörin við þessum spurningum verðum við að finna þau fyrir sjálf okkur, og þannig erum við búin að búa okkur til “tilgang” úr því sem hefur engan tilgang þegar kemur að stóru spurningunum.

Það er hægt að líkja þessu við trúarbrögðin, mennirnir búa sér til guði vegna þess að þeir þurfa á þeim að halda, en þessir guðir eru samt ekki til eins og hugarheimur mannana hefur lýst þeim, rómversku guðirnir, norrænu guðirnir, Jahve, Guð okkar, Allah, grísku guðirnir, að mínu mati allt barnslegar hugmyndir mannanna um æðri mátt sem hafa breyst í tímanna rás, þróast eins og hugmyndir okkar, alls enginn sannleikur.

Mennirnir þurfa tilgang en finna hann ekki, hann er þessvegna búinn til af hinum og þessum til þess að okkur líði vel, kristnir menn lifa samkvæmt ákveðnum reglum og múslimar eftir einhverjum öðrum, tilgangurinn er samt ekki fundinn, hann er bara búinn til.

Flestir finna sér eitthvað að gera í lífinu og eitthvað til að lifa fyrir, þannig lýður þeim betur, þeir hafa “tilgang” með lífinu, eitthvað sem allir þarfnast ekki satt? En hinn eini sanni stóri tilgangur með lífinu í heild sinni, hversvegna það er, hann er ekki fundinn.
Þessvegna er allur sá tilgangur sem við búum okkur til í okkar lífi aðeins eitthvað til að fylla upp í tómarúm sem býr í hjarta okkar, við þráum tilganginn og búum okkur hann til, þess vegna býr tilgangurinn okkar í tilgangsleysinu.

Ég get fundið mér tilgang með því hjálpa götubörnum í Bólivíu, Bin Laden getur fundið sinn tilgang með því að sprengja Ameríku, þú getur fundið þinn tilgang með því að skrifa þessa grein. Þessi “tilgangur” okkar, minn, Bin ladens og þinn er hvorki réttur né rangur, hann er okkar túlkun á heiminum. hann er ekki sannleikurinn sem við þráum, sannleikurinn sem við þráum er að fá að vita tilganginn með okkar tilvist.

Á tímum frelsis og einstaklingshyggju á fólk það til að skilgreina hlutina þannig að einstaklingurinn geti gert allt sem hann vilji, og hann einn viti hvað sé rétt fyrir hann. En tilgangurinn með öllu þessu, lífinu og heiminum í heild sinni getur aldrei verið ákvarðaður af einstaklingnum, hann hlýtur þessvegna að vera einhver, hann er bara ófundinn, ef ekki þá er hann einfaldlega ekki til og þessvegna allt tilgangslaust í sjálfu sér. Þessi frelsis hugsun er skemmtileg og falleg en hún skilar ekki svarinu sem við öll þráum, afhverju erum við?? Við viljum bara fá sannleikann, ekki lifa fyrir gerfiþarfir okkar, við viljum lifa fyrir sannleikann, við viljum vita hver hann er.

Þetta er spurningin um tilgang og tilgangsleysi, á meðan við höfum ekki svörin á tæru við spurningunum sem skipta öllu máli þá lifum við í tómarúmi, við lifum í tilgangsleysi en á meðan við bíðum þá búum við okkur til tilgang og við búum okkur til guði vegna þess að það veitir okkur öryggi.