Lesið fyrst grein Gabblers- Tvöfaldur sannleikur áður en þið ráðist á þessa.
_____________________________________________________


Einu sinni fyrir langa löngu var lítið land sem hét Dnalsí land.
Íbúarnir þar voru allir ríkir, glaðir og hamingjusamir(enda trúðu allir á það að ríkidæmi færði þeim hamingju - sem og það gerði).
Reyndar voru ekki allir hamingjusamir - sem kom til vegna þess hvað þeir voru fátækari en hinir - þeir nefndust hraðskáld eða öryrkjar vegna þess hvað þeir yrktu ört.

Þetta litla samfélag átti sér trúarstofnun er nefndist LR. Í litlu lagabókinni sem landið átti sér stóð að LR væri þjóðtrúin sem landsmenn tryðu á svo þeir gætu átt sér eitthvað haldreipi ef óþægilegar spurningar vöknuðu upp. Í mörghundruð ár hafði Dnalsí lifað við þessar einföldu reglur, og aldrei hafði komið til kastanna vandamál sem LR gæti ekki leyst.

En skyndilega breyttust tímarnir. Fólk frá öðrum miklu stærri og fjölmennari samfélögum fór að flytja inn í stórum stíl og truflaði Dnalsí fólkið. Því hafði liðið svo vel í sinni einföldu heimsmynd, en núna var komið nýtt fólk með nýjan lífsstíl, nýja matar og fatarmenningu, nýtt tunugmál og síðast en ekki síst: Nýja trú.
Það fór kliður um fólkið er það skrafaði sín á milli um þessa nýju íbúa. Það var stórundarlegt í háttum, vildi bara taka að sér störf sem enginn Dnalsí íbúi liti við nema í neyðarúrræðum. Það var óopinberlega orðið lágstéttarfólk sem talaði enga Dnalsísku, heldur eitthvað hrognamál sem ekki nokkurt kvikindi skildi bofs í.
Stjórnarmennirnir sem stjórnuðu litla landinu fóru að hafa áhyggjur. “Hvað ef þeir fara svo að iðka sína trú, sem stríðir á móti litlu lagabókinni okkar?” spurðu þeir. Þeir ákváðu því að stroka út nokkrar línur í bókinni, og skrifa í staðinn með blekpenna(því auðvitað mátti eki móðga nýja fólkið með því að setja lög sem vörðuðu það með blýanti) nýja klausu þar sem stóð að hver sem er mætti iðka sína trú.
Allir stjórnarmennirnir urðu glaðir aftur.

En þeim hafði yfisést lítillega. Þeir gleymdu að breyta annarri klausu þar sem stóð að LR trúin væri sú eina rétta trú, að hún skyldi vera styrkt af litla ríkissjóðnum þeirra, kennd og innrætt í barnaskólum (og reyndar langt fram eftir litla skólakerfinu á Dnalsí eyju) og að helstu hátíðsdagar LR trúnnar yrði sýnt á ríkisstyrkta sjónvarpinu þeirra svo að LR trúin héldi velli. Reyndar fór óskaplega lítið af Dnalsí íbúum í LR kirkju, en klerkarnir og biskupinn héldu LR trúnni í vitund fólks með því að koma sér í mjúkinn hjá sjónvarpsstöðvunum svo þeir gætu náð til fullt af fólki og minnt það á það að LR trúin væri enn sú eina rétta.

Núna byrjaði þetta nýja fólk að iðka trú sína af miklum móð, þar eð það stóð með blekpenna að það væri fullkomlega löglegt á Dnalsí eyju, en LR trúin hélt áfram að vera sú eina rétta samkvæmt litlu lagabók stjórnarmannanna. Þetta fólk sem kom frá stóru, stóru löndunum hélt líka áfram að tala sitt tungumál innanborðs, og krakkar frá þessum stóru, stóru löndum var útaf fyrir sig í sínum vinahópum. Fólkið sem kom frá þessum löndum skipti sér heldur ekkert af stjórnarmönnunum, um hver þeirra ætti að fá að ráða mest og hvort það ætti að fórna verðmætustu hlutum Dnalsí eyju fyrir gróða sem dygði síðan í mesta lagi 100 ár fram í tímann. Því fjölgaði og fjölgaði sífellt í landinu, trúarbrögðin sem það iðkaði urðu sífellt vinsæll og vinsælli, meðan LR trúnni hnignaði stöðugt og varð smám saman að innantómu prjáli.

En sjónvarpsstöðvarnar héldu samt áfram að sýna frá helstu atburðum og helgidögum LR trúnnar. Bara, svona, til þess að fólkið myndi ekki alveg gleyma því að LR var hin eina rétta trú;

og síðast en ekki síst af því það stóð einu sinni í litlu lagabókinni.