Hvað eru gæði?

Í fyrri grein minni, “huglægur heimur”, snerti ég aðeins á því hvers vegna
þetta hugtak, “gæði”, getur reynst ansi vafasamt.

Þetta er nefnilega eitt af því sem verður útundan við skiptingu milli
“huglægra” og “hlutbundna”.

Ég býst nú við að raunhyggjumennirnir eigi ekki eftir að gleypa þetta hrátt,
kannski eru það líka þeir sem eiga best eftir að höndla þetta.

Fyrsta vandamál gæða er að það er hvorki “huglægt” né “hlutbundið”. Það má
líka líta á það sem huglægan eiginleika hlutbundinna hluta. Sem ætti með réttu
ekki að vera mögulegt, þar sem gæði “ættu” bara að vera gildismat okkar
sjálfra.

En þarna er það: breiðnefur í flokkunarkerfi hughyggjunnar.

En hvað ER það?

Byrjum á litlu dæmi. Einhverra hluta vegna er ég voðalega hrifinn af því að
taka glös sem dæmi:

Tvö glös nákvæmlega eins (að því er virðist) glös eru látin detta úr sömu hæð.
Annað brotnar, hitt ekki. Glasið sem brotnaði ekki hefur meiri gæði en hitt.

Núna munu líklega margir þegar hafa myndað sínar skoðanir. Sumir munu líklega
halda því fram að gæði séu hlutbundin, þar sem aðeins hlutir búi yfir þeim.
Þessari útskýringu neita ég, þar sem ég ætla gæðum miklu meira.
Aðrir munu líklega kalla gæði huglæg, þar sem við sjálf ÁKVEÐUM hvaða
eiginleiki hlutur þarf að búa yfir til að hafa gæði.
Þessu neita ég líka, þó við ÁKVEÐUM (ó)afvitandi hvað gæði eru, getur hlutur
raunverulega búið yfir þeim.

Eru þið ennþá efins? Ég efast ekki um það.

Þar sem gæði eru hvergi mælanleg eiga þau varla heima nema í kollinum á okkur?
Við sjáum þau ekki, né skynjum þau með neinu skilningarvita okkar? Eða hvað?
Góður hlutur býr yfir gæðum, slæmur hlutur ekki. Gæði eru einnig í beinum
tengslum við “gott” og “slæmt” í öllum skilningum þeirra orða.

Við að finna bragð af mat getum við strax fundið gæði matarins. Þó að sumir
séu ósammála um hvað er “gott” eða “vont” gildir það að við “finnum” hvort
okkur finnst matur búa yfir gæðum.

Á sama hátt getum við SÉÐ hvort málverk er fallegt (og býr þarafleiðandi yfir
gæðum).

(Er ég kannski kominn á hálan ís hérna?)

Nú hef ég gert grein fyrir vandamáli hughyggjunnar. En hvers vegna ekki bara
að líta á gæði sem huglæg, hef ég svarað því eða finnst ykkur svarið enn
ófullnægjandi?

Þegar við finnum bragð af mat er það heilinn sem túlkar skynjunina svo að við
metum (gildismat) hvort maturinn er vondur eða góður.

Bragðið er bara í huga mér… en er ekki bragðskyn “skynjun”?
Gerist “skunjunin” sjálf bara í huga mér?

Málið er að heilinn þarf alltaf að túlka upplýsingarnar sem skynfærin bera
okkur svo að eitthvað skiljanlegt fáist út úr þeim. Við höfum ENGA leið til að
finna út hvað er huglægt og hvað er hlutbundið.

Til að geta haldið áfram þurfum við því að hafa þetta í huga.

Við eigum enn eftir að finna út HVAÐ gæði nákvæmlega eru.
Hvað er Gott? Hvað er Slæmt? Hingað til hefur tilfinninguin ein, siðferðið,
skorið út um það.

Og hvers virði er siðfræðin, sem getur ekki einu sinni skilgreint sínar eigin
frumsetningar. Ólíkt rúmfræðinni, sem skilgreinir línu sem safn óendanlegra
punkta, og punkt sem óendanlega lítinn hluta línu, eða hnit í hnitakerfi,
staðsetningu. Þegar stærðfræðingur er spurður: “hvað er lína?” getur hann
svarað því með einfaldri skilgreiningu. Skilgreiningin skilgreinir síðan aðra
hluti sem endar á hugtökum sem sjálf eru utan stærðfræðinnar.

Ekki eru “gott” og “slæmt” utan siðfræðinnar?
Hvað er “gott”, vill einhver segja mér það?
Og af hverju eru óskilgreind hugtök svo mikið notuð, án þess að nokkurntíma
valda misskilningi milli fólks?

Nú, augljóslega vitum við hvað “gæði” er án þess að geta almennilega áttað okkur
á því.

Gott og slæmt eru líka gildismöt, hvað segir það okkur?

Þar sem gæði eru gildismat og jafnan má finna þau út um allt í vorri veröld,
hlýtur veröldin okkar sjálf að vera full af gildismötum. Skiljið þið hvað ég
á við? Við getum ekki fyrir okkar litla líf SÉÐ veröldina án þessa að dæma
hana. Veröldin <I>er eitt stórt gildismat</I>. Veröldin er gerð úr <I>gæðum</I>!

Nú erum við komin á slóð heimspekingins Robert M. Pirsig. Hann hafnaði
hughyggjunni og bjó til sitt eigið frumspekilega flokkunarkerfi. Í því kerfi
eru gæði eins konar frumefni. Allt er sett saman úr gæðum.

En hvernig stenst það? Jú, okkar mynd af heiminum er samansett úr gildisdómum.
Þannig að til að vita hvað gott og slæmt eru, já, til að vita hvað GÆÐI eru,
þarf sá hinn sami að þekkja sjálfan sig til hlítar. Hingað til hefur ekki
nokkrum manni tekist það.

Þar með er öll siðfræði farinn í vaskinn, þar sem enginn siðfræðingur veit
raunverulega hvað hann er að tala um.

“Gott”, “slæmt” og “gæði” vantar enn skilgreiningu.

nú, kæru lesendur, er komið að ykkur!