Hér á eftir kemur gömul ritgerð, sem ég var skyldaður til að semja, á sínum tíma. Ég sendi hana inn sem mitt framlag í lýðræðisumræðuna. Mér finnst hálf lélegt að senda gamalt efni inn, en skoðun mín á lýðræði kemur hér sæmilega fram og stendur vonandi fyrir sínu á þessu formi. Þetta er ekki nein snilldar ritgerð, bara 1stk ritgerð. (Hún er kannski eilítið barn síns tíma, jafnvel soldið úrelt í dag, en þó ekki.)

Ég vil afsaka fyrirfram uppsetningu á henni, þar sem hún var ekki sett upp með þennan vef í huga.

Hún ber yfirskriftina (sem komst ekki fyrir í titli): “Hvað er hnattvæðing og með hvaða hætti getur lýðræði stafað ógn af henni?” Þessi ritgerð var samin með hliðsjón af efni sem kemur fram í bókaröðinni Atvik, 4.bók, “Framtíð lýðræðis á tímum hnattvæðingar.”

——————————————————————-

Hnattvæðing er eitt hugtak um marga hluti. Eftir nokkra umhugsun greini ég þrjá grunnþætti eða svið sem einkenna hnattvæðingu. Í fyrsta lagi felur hnattvæðing í sér „styttri“ fjarlægðir, þ.e. auðvelt eða mögulegt er að fara lengstu hugsanlegu fjarlægðir á hnettinum, á innan við 24 klukkustundum. Það þýðir að auðvelt er, með tilkomu samstarfssamninga ríkja, að keppa um vinnuafl á alþjóðlegum vettvangi. Það verður að öllum líkindum keppt um menntað vinnuafl, sem og ómenntað verkafólk, á alþjóðlegum grunni, í hnattvæddum heimi. Fólksflutningar um hnöttinn er nánast smámál í dag, ef litið er til fortíðar. Veiðimannasamfélög fortíðar eltu hjarðir, sem þeir veiddu, hvert á land sem er; nú getur vinnuafl í hnattvæddum heimi elt hagstæð vinnutilboð, hratt og örugglega. Í öðru lagi, hreyfing fjármagns um hnöttinn, á nokkrum andartökum, er raunveruleiki í dag, sem og einkenni hnattvæðingar. Mér kemur í hug að kalla þessa yfirþjóðlegu hreyfingu fjármagns „efnahagslega veðurfræði”, og sé fyrir mér einskonar efnahagslegar „veðurstofur“, sem spá fyrir um hreyfingu þessara „veðurkerfa”. Í þriðja lagi, samskipti þar sem fjarlægðir virðast ekki vera hindrun, er orðinn raunveruleiki. Þá á ég við þróun á símamarkaði og í þráðlausum samskiptum, Netið virðist vera ágætis heiti yfir þessa alþjóðlegu fjarskiptabyltingu. Ég sé fyrir mér að menning hverskonar eigi eftir að njóta góðs af þessari byltingu, sérstaklega hverskyns jaðarmenning og menning sem áður hefur verið landfræðilega einangruð. Það hefur einnig verið bent á að hnattvæðingin stuðli að vexti alþjóðlegrar „meðalmennsku“-menningar, venjulega í formi amerískrar sjónvarps- og kvikmynda-menningar. Ég held að meðalmennsku-menning muni vaxa og dafna áfram, en hún mun eflaust þróast eitthvað og breytast. Henni er heldur ekki alls varnað og er ágætis sameiginlegur grunnur skilnings á milli þjóða og menningarheima, sem er jákvætt. Alþjóðlegt tungumál sé ég einnig handan við hornið, og ég væri ekki hissa ef það yrði einhverskonar enska, jafnvel töluð með amerískum hreim. Enska mun líklega einnig taka sér stöðu sem fræðamál, svipaða stöðu og latína hafði áður.

Forsendur hnattvæðingar vil ég einnig greina í þrennt. Í fyrsta lagi, þekking, tækni og vísindi. Hér vil ég t.d. nefna uppfinningu flugvélarinnar, símatækni hverskonar, tölvutækni, bankastarfsemi og viðskiptatengd þekking eða fyrirkomulag, reynsla eða hefðir í því sambandi. Raunar er ekki skynsamlegt að undanskilja neina þekkingu, þegar hugsað er um undirstöður hnattvæðingar, þekking mannkyns er svo samofin að það er ekki hlaupið að því að flokka hana í aðal- eða auka-atriði með tilliti til hnattvæðingar. Þess vegna tel ég alla þekkingu, tækni og vísindi, mikilvægar undirstöður hnattvæðingar. Í öðru lagi, skiptir staða alþjóðastjórnmála miklu máli ef hnattvæðing á að geta átt sér stað. Ég held reyndar að grundvöllur hnattvæðingar sé tilvist stórveldis. Stórveldis sem hefur næga yfirburði í efnahagslegu tilliti sem og hernaðarlegu tilliti, til að þvinga hnöttinn, með góðu eða illu, til að lúta alþjóðlegum reglum, skrifuðum eða óskrifuðum, s.s. þvinga önnur ríki undir sinn vilja. Í þeim heimi sem við hrærumst í er tilvist Bandaríkjanna, sem stórveldis, því mikilvægur grunnur fyrir hnattvæðingu. En hernaðalegir yfirburðir eru kjölfesta og/eða trygging tilvistar stórveldis á okkar tímum, jafnvel þó að til stríðsátaka muni aldrei koma. Raunar er þónokkur gerjun í þessum málum í dag, þ.e. í hernaðartækni, með tilliti til Bandaríkjanna. Ekki er þess langt að bíða að mögulegt verður að skjóta öllum eldflaugum, svipuðum þeim sem notaðar voru í Persaflóa, frá Bandaríkjunum. Auk þessa er tækni vígvallarins orðin enn nákvæmari og „sterílli”, síðan henni var beitt í Írak. En nóg um það. Í þriðja lagi er efnahagur og félagslegar aðstæður mikilvægur grunnur fyrir fyrri tvö atriðin, sem voru nefnd hér að ofan: Þekkingu, tækni og vísindi; og yfirburði stórveldis. Auk þess að vera einnig mikilvægur grunnur fyrir öll ríki sem eitthvað ætla að láta til sín taka í hnattvæddu samfélagi ríkja. Þar sem ríki munu eflaust þurfa að keppa um fyrirtæki, eins og fyrirtækin þurfa að keppa um vinnuafl, þ.e. ríki munu vilja laða stór sem smá fyrirtæki inn í efnahagskerfi sín. Fyrirtæki koma með fjármagn inn í efnahagskerfið, minnka atvinnuleysi og auðga einfaldlega ríkin sem þau starfa í. Kannski er gott dæmi um þetta, hernám Íslands á stríðsárunum, og sú uppbygging sem herinn kom af stað, en kannski eigum við Marshall-aðstoðinni meira að þakka. Til þess að vera aðlaðandi kostur fyrir fyrirtæki, til að stunda staðbundna starfsemi í ríki, þarf ríkið að vera hagkvæmur kostur fyrir fyrirtækið. Hagkvæmni þessi myndi þá velta á því hvaða starfsemi fyrirtækið stundar. Dæmi um kosti fyrir fyrirtæki: Almenn skattfríðindi hverskonar, framboð hráefnis, samgöngur, hnattræn staða, mikið framboð vel menntaðs vinnuafls, félagslegur stöðugleiki, og hvað annað sem kann að vera jákvætt fyrir staðbundinn rekstur fyrirtækis. Þ.a.l. verður markmið ríkis að „halda sig til“ fyrir fyrirtæki; efnahagslegar og félagslegar aðstæður ríkis, sem og aðrar aðstæður sem gera ríki, munu verða aðal hugðarefni ráðandi afla ríkis. Ég vil raunar kalla þessa þætti eitthvað eins og „ríkisbygging”, til að undirstrika að efnahagur og félagsmál eru í raun samofin. Stjórnarfar og lagafyrirkomulag, tilheyra einnig hugtakinu ríkisbygging, sem og allir þeir þættir sem gera ríki. Byggingareiningar ríkis eru í raun einstaklingarnir, sem það mynda, auk staðbundinna þátta svo sem samgöngukerfi og þ.h. (infrastructure), en áhersla á einstaklinga ætti að verða ofarlega á lista ráðandi afla ríkis í hnattvæddum heimi. Einstaklingurinn er að verða mikilvægari fyrir ríkisbyggingu framtíðar, fleiri einstaklinga þarf að mennta, þar sem störfum sem þarfnast menntunar mun fjölga. Einnig held ég að einstaklinga þurfi að mennta enn meira í náinni framtíð en nú er. Mig grunar að störf sem þarfnist menntunar í dag, muni þarfnast enn meiri menntunar á morgun. Þetta orsakast bæði af samkeppni milli menntaðra um vinnu, sem og af flóknari störfum og auknum kröfum sem verða gerðar til vinnubragða í starfi. Ég sé einnig fyrir mér (fleiri) ofur-menntaða einstaklinga, þar sem aukin áhersla mun verða lögð á þenslu þekkingar, þ.e myndun nýrrar þekkingar. Fleiri munu sjá sér hag í að styrkja nýmyndun þekkingar eða uppgvötvanir hverskonar, þar sem rekstur fyrirtækja veltur enn frekar á þekkingu. Þekking er þ.a.l. frekar tengd við gróðavon, í hugum rekstraraðila. Einnig verður þörf fyrir ofur-menntaða einstaklinga til að halda yfirsýn yfir heildarferlið. Menntun mun skipta jarðarbúum í nýjar stéttir, þ.e.a.s. ný stéttaskipting mun verða til og byggja á menntun. Almennt menntunarstig ríkis mun ráða úrslitum í samkeppni um fyrirtæki, þar sem menntað vinnuafl verður takmarkandi þáttur í þenslu og vaxtarhraða fyrirtækja, ef marka má eftirspurn fyrirtækja í dag. Menntakerfi ríkis mun þ.a.l. verða mikilvækt í ríkisbyggingu. Einstaklingar og menntun þeirra eða þekking, mun raunar verða svo mikilvæg í framtíð, kenndri við hnattvæðingu, að ríki munu sjá sér hag í því að laða til sín nýja ríkisborgara með eftirsótta menntun, til að styrkja samkeppnisstöðu sína um fyrirtæki. Hnattvæðingin mun þ.a.l. breyta hugmyndum okkar um ríkisfang og þjóðerni, snúa því í samning ríkis við einstakling. Þjóðerni verður því ekki eins „heilagt“ í hugum heimsborgara hnattvæðingarinnar. Ríki munu s.s. vilja vera góður kostur til búsetu fyrir menntað vinnuafl. Heilbrigðisþjónusta, almannatryggingar og hinn félagslegi þáttur ríkisbyggingarinnar mun því verða mikilvægur til að laða að vel menntaða tilvonandi ríkisborgara. Löggæsla verður einnig mikilvæg til að styrkja félagslegt öryggi og stöðugleika ríkisbyggingarinnar, m.a. í ljósi félagslegrar upplausnar, sem er að færast í aukana. Félagsleg upplausn virðist vera fylgifiskur þeirrar þróunar sem á sér stað í ríkisbyggingu almennt í heiminum í dag. Ég ætla, að með aukinni athygli, sem beinist að einstaklingnum, muni mikilvægi þess að hlúa að borgurunum og stuðla að hamingju þeirra, verða valdhöfum augljóst. Lög þarf að einfalda og þeim að fækka, svo þeim verði framfylgt sem skyldi. Lög ættu ekki að þrengja að borgurunum, þau ættu að vera augljós og vera augljóslega hagstæð borgurunum. Það er auðvelt að fylgja góðum lögum að mínu viti, þannig ætti að vera auðvelt að vera fyrirmyndarborgari, ekki meinlætaleg þrautaganga. Valdhafar ættu því að stuðla að vexti, hamingju og þroska borgara sinna; með því að skapa þeim hagstæðar aðstæður til vaxtar, hamingju og þroska. Valdhafar þyrftu því að líta á sig sem garðyrkjumeistara í stað valdboðara eða kúgara, og skapa jarðveg fyrir borgara sína með það í huga. Ég held að þróun til hnattvæðingar ætti að ýta undir þessa þróun. Aukin áherla á ríkisbyggingu, lágmarks styrkleiki hennar, lágmarks lífsskilyrði og tækifæri einstaklinganna til að blómstra, er s.s. þriðja forsenda hnattvæðingar.

Það má auðveldlega líta á einkenni og forsendur hnattvæðingar, sem yfir- og undirbyggingu hnattvæðingar. Einkenni hnattvæðingar væru s.s. yfirbyggingin; forsendur hennar væru undirbyggingin og væru þeir þættir sem væru mótandi og segðu til um stöðu og þróun yfirbyggingarinnar.

Yfirbyggingin eða staða mála, er fremur einföld og ljósari en undirbyggingin. Þættir yfirbyggingarinnar eru sjálfstæð einkenni, niðurstaða undirbyggingarinnar. Með sjálfstæðum eiginleikum á ég við að eiginleikarnir eru ekki í gagnvirku sambandi, þeir haldast samir þó aðrir eiginleikar breytist.

Undirbyggingin er aftur á móti ekki eins augljós og þarfnast innsæis, tilfinningar fyrir eðli og samhengi margra mismunandi þátta, er s.s. gagnvirkt kerfi. Þá á ég við að ef einn þáttur undirbyggingarinnar breytist, mun það hafa áhrif á aðra þætti í undirbyggingunni.

Ég vil undirstrika að forsendur hnattvæðingarinnar, sem ég greindi í þrjá grunnþætti, eru í stöðugu gagnvirku sambandi innbyrðis. Einnig vil ég leggja áherslu á að þessar forsendur eru enn virkar, þ.e. ekki kyrrstæðar og munu halda áfram að þróast og hafa áhrif á alheimsástandið, hvaða nöfnum sem ástandið mun nefnast. Ég greindi forsendurnar til að þjóna umfjöllunarefni mínu, hnattvæðingunni, þessi þrískipting þessara þátta er engan vegin algild. Allar ályktanir um þróun hnattvæðingarinnar byggja á til-leiðslurökum, eru þ.a.l. aðeins ágiskanir með rökum.

Ógnar þessi þróun, til hnattvæðingar, lýðræði?

Lýðræði virðist mér vera nokkuð rúmt hugtak (eftir að hafa blaðað í Concise Routledge encyclopedia of philosophy, undir orðinu democracy), of rúmt til að skilgreina í stuttu máli. En í grófum dráttum gengur lýðræði út á að, lýðurinn, fólkið, geti einhverju ráðið um stjórn ríkis þess sem það tilheyrir. Vald lýðsins hefur venjulega verið virkjað með atkvæðagreiðslum varðandi hin ýmsu mál sem snertir hann. Vilji meirihluta fólksins er s.s. látinn ráða og ýtir þ.a.l. vilja minnihlutans til hliðar. Lýðræði hentar því ágætlega til að halda meirihluta borgaranna ánægðum. Algengt er að lýðræði sé beitt á þann hátt, að lýðurinn kýs sér fulltrúa, sem það treystir eða telur þess verða að fara með völd í ríkinu fyrir þeirra hönd. Þessháttar lýðræði er nefnt fulltrúa-lýðræði, af augljósum ástæðum. Lýðræði hefur stundum verið gagnrýnt fyrir þá tilhneigingu að taka ekki endilega bestu ákvarðanirnar, heldur þær vinsælu. Þar sem ákvarðanir fjöldans eru ef til vill ekki teknar af gildum, skynsamlegum, eða nægilega upplýstum ástæðum. Hvað sem því líður, hefur lýðræði verið talið gagnast vel, og er vinsælt stjórnarform, í einu eða öðru formi.

F. Fukuyama talar um sjónarhorn, þegar hann talar um framgang lýðræðis, horfir á það innan og utan frá. Mér líkar þessi nálgun vel og nota hana hér.

Horfum á framgang lýðræðis utanfrá. Ég talaði að ofan um Bandaríkin sem stórveldi okkar tíma. Það liggur ljóst fyrir, bæði ef litið er til fortíðar og nútíðar, að Bandaríkin reyna að útbreiða einhverskonar útgáfu af eigin stjórnarfari, eins víða og kostur er. Kannski er þetta „trúboð” aðallega tilkomið til að sporna við því að „óæskilegar“ stjórnarstefnur, svo sem kommúnismi, eða aðrar „andstæðar” stefnur, við stefnu Bandaríkjanna, nái að festa sig í sessi. „Vinaþjóðir“ Bandaríkjanna hafa einnig stutt þessa tilburði með einum eða öðrum hætti. Bandaríkin hafa „viljann til valda”, áhrif þeirra og ítök gætir víða, oft í formi leppríkja hverskonar á víð og dreif um hnöttinn. Ég minni á Monroe-kenninguna, sem kveður á um „einkarétt“ Bandaríkjanna til að hafa áhrif í S-Ameríku. Frelsi í viðskiptum, í út-og inn-flutningi, hagnast Bandaríkjunum því þau eiga stærstan hlut í heimsviðskiptum. Þannig að Bandaríkin munu einnig reyna að örva milliríkjaviðskipti og fá þannig tak á fleiri mörkuðum í fleiri ríkjum, og munu þ.a.l geta haft áhrif á stjórnvöld í ríkjum sem eru háð þeim um viðskipti. Þegar horft er á framgang lýðræðis utanfrá, bendir flest til þess að lýðræði, sem þóknast áhrifavöldum í heiminum, muni sækja á jafnt og þétt.

Horfum á framgang lýðræðis innanfrá. Blikur hafa verið á lofti þegar kemur að þróun lýðræðis sem stjórnkerfis. Svo virðist sem fjármagn og áhrif fyrirtækja séu að „spilla” framgangi lýðræðis. Frambjóðendur, til kosninga hverskonar, hafa þurft að standa undir gífurlegum kostnaði við kostningabaráttur sínar, til að eiga von um kjör. Fyrirtæki hafa beitt fjármagni sínu til að styrkja hina ýmsu frambjóðendur, leynt og/eða ljóst til að efla ítök sín í samfélaginu, með því að gera frambjóðendur háða sér um völd, og styrkja þannig samkeppnisstöðu sína. Einnig er sennilegt að ítök fyrirtækja séu enn djúpstæðari, þ.e. að þau hafi töluverð áhrif innan heilla stjórnmálahreyfinga, í krafti fjármagns síns. Það er því skiljanlegt að fólk velti fyrir sér hverjir hafi raunverulega völdin. Hvort stjórnkerfi þar sem fyrirtæki hafa slík áhrif séu lýðræðisleg, og þá hve lengi ef svo er. Mig grunar að fólk sé smám saman að gera sér grein fyrir hvert eðli lýðræðis er í raun, þ.e. í framkvæmd.

Í mínum huga er lýðræði einskonar akkeri eða kjölfesta, sem hindrar hverskonar u-beygjur í stjórmálum, a.m.k ekki þvert á vilja meirihluta borgaranna. Hástemmdar lofræður um lýðræði hljóma því fremur kjánalega í mínum eyrum. Eðli lýðræðis er e.t.v. frekast fólgið í því að veita vilja fólksins upp á við, t.d. ef rík óánægja er fyrir hendi hjá borgurunum er lýðræði farvegur fyrir þ.h. spennu, til að hún geti komið einföldum breytingum til leiðar, án byltingar. Hrun stjórnkerfisins er þannig hindrað, sem er einkar hentugt. Lýðræði svipar því til suðuketils, sem fer að flauta þegar vatnið fer að sjóða. Lýðræði er því einskonar öryggisventill, sem var fundinn upp í Frakklandi/Englandi, nokkurnveginn í núverandi mynd.

Lýðræði í hlutverki öryggisventils sýnist mér eiga bjarta framtíð. Enda ágætis uppfinning, sem þjónar hlutverki sínu vel. Ég sé s.s. ekki að neitt bendi til þess að þessu hlutverki lýðræðis sé ógnað.

Fólk mun aftur á móti eiga erfiðara með að sannfæra sig um mikilvægi eigin atkvæðis, eða eigin þátttöku í stjórn ríkisins. Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum eru tilvalið dæmi um þetta. Það munaði nokkur hundruð töldum atkvæðum á frambjóðendunum, en þónokkur atkvæði voru ótalin vegna vanskila og annars klúðurs (Hve mörg óskila-atkvæðin voru veit ég ekki, en nógu mörg til að gera mig tortrygginn.) Lítill munur talinna atkvæða, er ekki góð ástæða til að sannfærast um „að hvert athvæði skipti máli“. Öllu heldur er það verðugt umhugsunarefni um eðli lýðræðis sem stjórnkerfis, og hversu skilvirkt það er í framkvæmd. Áhugaleysi upprennandi kynslóða um stjórnmál almennt, má þakka glöggskyggni þeirra fremur en fávisku þeirra. Raunveruleg völd virðast fremur felast í fjármagni, en í skrípaleik sem kallast stjórnmál í daglegu tali.

Mig grunar að lýðræði hafi aldrei verið annað en akkeri og kjölfesta, með „slikju” af frómleika og hátíðleika. Hnattvæðingin ógnar ekki lýðræðinu, hún afhjúpar það öllu heldur. Vöxtur fyrirtækja og aukin áhrif þeirra innan lýðræðislegra samfélaga, má öllu heldur þessa „slikju“ af, og nú glittir í ryðgaðar tennur gangverksins, sem knýr innviði lýðræðisins. Í mínum augum eru stjórnmálamenn trúðar, sem eru hættir að vera fyndnir. Það sem máli skiptir, er að lýðræði sé varðveitt í hlutverki öryggisventils.

Aukin áhrif fyrirtækja þurfa ekki endilega að vera af hinu slæma, þó að ég telji að tilvist stjórnar sem einbeitir sér að ríkisbyggingunni, sé nauðsynleg. Samstarf fyrirtækja við stjórnvöld geta þ.a.l. verið af hinu góða, til gagns fyrir ríkisbygginguna, sem og borgarana. Velferð borgaranna er hagur staðbundinna fyrirtækja, sem og ríkisins í heild. Rökin fyrir því koma fram að ofan, í umfjöllun minni um þriðju forsendu hnattvæðingarinnar.

Hnattvæðingin mun s.s. aðallega rýra trú fólks á lýðræðið, enda hafa hugmyndir um lýðræðið verið full uppskrúfaðar og óraunhæfar, til þessa. (Í Bandaríkjunum hefur lýðræðið nánast verið gert að helgispjalli, auk trúarinnar á „ameríska drauminn”og ágæti hinnar amerísku eplaköku.) Þessi afhjúpun lýðræðisins mun eflaust kalla á ýtarlega naflaskoðun og endurskoðun á lýðræðinu og stjórntækni almennt. Von mín er sú, að lýðræðið haldi hlutverki sínu sem öryggisventill, en að stjórnmálin verði markvissari og „aðferðafræðilegri". Aðferðafræðilegri, með skýrum markmiðum og skýrum leiðum til að ná markmiðunum; stjórnmálageirinn gæti eflaust lært sitthvað í stefnumótun af fyrirtækjunum. Aðferðafræðilegri, með því að beita fyrstu forsendu hnattvæðingar (þekkingu, vísindum og tækni) í auknum mæli.