Hvaða afsökun ætti ég að hafa fyrir að láta orð á pappír? Ég er að reyna að kópera sjálfan mig í orð. Gera mér grafskrift í ótíma. Hvað ætti ég að geta sett í orð? Ég er í raun ekki svona lítillátur. Ég er fullur af rembingi, sem vill út. Þessi texti er til þess ætlaður að liðka um útferðina. Hve hróplega hjákátlegt þetta allt er. Við erum eins og börn sem höfum ekki fundið okkur fleiri leiki til að eyða æsku okkar í. Ég er að leika elsta leikinn, grafskift í lifanda lífi. Eins og Faró að byggja sér stæðsta sandkastala í heimi. Hvílíkt frat og endaleysis adleysis flatneskja. Eru endimörk mannsandans hér með fundin? Er hér ekkert betra að gera en festa andarslitrin á pappír?! Tíðindaleysi og tilbrigði við mannlega tilveru. Allt samviskulega skráð og skrifað. Dæmisögur og uppskriftarsögur um þetta sem við gerum öll, að lifa og deyja. Hugsanir á pappír eins og orð í tímavél, skilaboð úr fortíðinni um það sem þegar hefur hent. Þá vitum við í það minnsta að við erum ekki að gera neitt nýtt. Enda er allt nýjabrum löngu orðið klisja. Það eina sem er nýtt áður en það verður gamalt, er það sem við lærum í dag og gleymum á morgun.

Það eina sem er einhvers virði þykir mér, (annars er ég hræddur við skoðanir, því þær reynast oftast rangar,) er að sitja og hlusta á heiminn, eins og öldur sjávarins. Leyfum heiminum að kenna okkur, og leyfum bókunum að hjálpa okkur að muna og þannig sigrast á takmarkalausri mennsku okkar. En þetta er nú gamall leikur líka. Ég í hugmyndaleysi mínu og ófullkomleika mínum, með öllu mannkyni, get ekki látið mér neitt betra í hug koma. Óttarlega er ég ófrumlegt barn.

Mér er það stundum að hugarefni, hvað verður okkar næsta skref, yfir í það sem okkur er fyrir handan. Hvaða listisemdir færir ofþroski mannsins okkur? Þegar mannkyn fer úr ham sínum, og flýgur burt sem fiðrildi. Hvaða leik mun það leika þá? Þegar hugsanirnar verða holdið sjálft. Orðið verður vín og andvarp mun fæða þjóðir. Hvað liggur þarna fyrir handan mannkyn? Ég í fjötrum mennsku minnar, takmarkaður, sé ekki hvað getur verið meira. Meira en ég. Hvílík endaleysis takmarkalaus heimska eðlis míns og egós.

Af hverju er ég að skrifa þetta hér, núna? Það er erfitt að vera einlægur og sannur. Hvað get ég sagt? Til hvers? Hvað er þess virði? Þarf eitt glitrandi tár og opin augu, sem sjá og skilja? Er þetta kannski sönnun? Er þetta sönnun á því að handan þessara augna er e-r, eins og þú? Er tilfinningin sem hríslast í gengum okkur, fólgin í áþreifanlegri sönnun á tilvist handan augnanna?

Máttleysi mitt er mér áþreyfanlegt. Máttleysi til allra verka. Ekkert geri ég nógu vel, ekkert er nógu gott. Ég er mér harður húsbóndi. Hmmm.. laalaaa laa.. Ég heyri tónlist. Hvað eru öll þessi orð fyrir? Til hvers öll þessi orð? Til hvers að tala þegar við getum bara dansað? Til hvers erum við að reyna að tala saman? Nekt? Grímur? Hvað er þetta allt? Afhjúpuð nekt. Er það sem mestu máli skiptir ekki án orða? Hvað erum við eginlega að reyna?

Kannski eigum við bara að trúa á heiminn? Eins og sæfari trúir á hafið. Við erum öldur hafsins og hugsanir okkar iðustraumar. Undiraldan ber okkur á haf út, þar sem við sökkvum í djúpið, og við rennum saman við djúpan bláman. Smyrjumst á jarðkringluna og glóum bláar. Við erum blátt.

Hér í hinni mestu nekt er sannleikurinn falinn. Þar sem allt hefst og endar. Á milli myrkurs og rétt áður en síðasta ljósögnin er gleypt af dimmunni. Einhverstaðar djúpt í eilífðinni. Þegar ljósið endaði í myrkrinu.

Við þurfum e-ð hreint, e-ð hreinskilið, e-ð ekta. Það mun kenna okkur um heiminn. E-ð nakið?

En ekkert er hreint. Enginn er hreinskilinn. Enginn þorir að horfast í augu við það sem gríman hylur. Djúpt djúpt djúpt, erum við og nekt okkar, samankomin með sjálfum okkur. Hvað þarf til að sjá heiminn í allri sinni nekt? Við hyljum heiminn, allt er hulið. Við lokum augum okkar, við grátum í myrkrinu. Þar sem enginn getur bjargað okkur. Enginn getur bjargað okkur frá sjálfum okkur. Hráskinnaleikur! Við og okkar leikir! Við og okkar viska, við erum bjargarlaus saman.

Hvað er ég að segja? Ég vil ekki að þú segir mér satt. Eða hvað? Vil ég það? Vil ég heyra allt sem þú hugsar um mig? Vil ég ganga nakinn í storminum, og finna frostið bíta mig? Við erum takmarkaðar verur.

Eitt sinn fann ég að allt er fáránlegt í tilvist sinni. Það var fyrir mörgum árum. Hvers vegna er ekki allt tómt? Hvers vegna ég? Hvers vegna þú? Hvers vegna allt? Fáránleikinn svaraði með pósmódernísku: “Hvers vegna ekki?” En að blanda orðum eins og póstmódernisma hér inn er hreint stílbrot, og brýtur tilraun til einlægni upp í forgengilega tilgerð, sem mér er á móti skapi. Nei, mér var ljóst að tilveran er fáránleg. Allt er fáránlegt. Þegar einfaldast væri að þögnin ríkti yfir heiminum, þá er hljóð. Við erum inntakið í orðinu “ER” við “erum”. En einmitt það þykir mér fáránlegt. Hvílík vitleisa! Ég hljóma fáránlega. Hvílík hamingja og gleði. Ég er sannkallaður fláráður. En ég er enn á því að tilveran sé fáránleg. En yndislegt, hjartanlega!

Etv er ég bara drukkin á eigin vessum. Það vill henda. En ég meina samt hvað ég segi. Hvað sem veldur, hef ég nú sett orð á pappír. Óafsakanlega og án leyfis, hef ég sett orð á pappír. Ég yrði án efa rekin úr Eden med dí samme ef ég hefði stigið þangað fæti. Því ég er sannarlega sekur. Það þaf ekki að klípa mig með töngum eða brenna með glóandi járnum. Ég játa góðfúslega og náðarsamlegast að hafa látið hugsanir mínar á blað. Af fullkomlega eigingjörnum hvötum. Ég hef gælt við rauðþrútið og úttútnað egó mitt og fundið til stundlegrar fullnægju. Syndin er drýgð. Ég kann ekki annan leik. Vonandi get ég orðið að gagni.