Þegar ég bjó við þjóðveg 711 var sjónvarpsskilyrðum þannig háttað á mínu heimili að maður sá allt þrefalt.
Var þetta kallaður draugagangur sem hægt var að sætta sig við ef verið var að sýna frá fegurðarsamkeppni eða suðuramerískum dönsum af því að kvenfólkið í þessum keppnum var svo dæmalaust fáklætt að pjötlurnar minntu helst á gaddavír.
Hann verndar eignina án þess að skemma útsýnið.
Á hinn bóginn var þetta ekki eins skemmtilegt þegar verið var að sjónvarpa frá setningu Alþingis enda fékk maður sér í staupinu í tilefni dagsins og horfði síðan á þingmennina sína þramma í sexfaldri röð frá Dómkirkjunni að þinghúsinu til að hrópa húrra.
Á þessum dögum kipptu menn sér sem sagt ekkert sérstaklega upp við sjónvarpsdrauga en það var stundum bölvað í sveitinni þegar hörkuspennandi mynd hrökk allt í einu af skjánum vegna bilunar í sendi en hann bilaði alltaf meðan á útsendingu stóð.
Á öðrum tímum var hann í góðu lagi.

En nú hefur þetta víst breyst til batnaðar vegna þess að dreifikerfi útvarpa og sjónvarpa er orðið svo gott. Þetta er að minnsta kosti alltaf verið að tilkynna okkur.
En það er ekki fyrr búið að segja manni það þrisvar að þessi og hin stöðin náist um allt land en það slokknar á henni.
Sumar ná upp í Hvalfjörð en þar þagna þær allar sjálfkrafa nema Ríkisútvarpið.
Konan mín slekkur á því.
Ekki dettur mér í hug að kvarta yfir þögulum útvarpsstöðvum almennt en það getur komið sér illa ef maður ætlar að hlusta á tiltekinn þátt að þá heyrist ekkert í útvarpinu manns nema skruðningar. Þótt þeir séu út af fyrir sig skömminni skárri en margt tónlistarefni sem baunað er í höfuð okkar daginn út og inn.
Allt er þetta víst Pósti og síma að kenna sem setur upp endurvarpsstöðvar þar sem fólk er flest og selur okkur farsíma á tugi þúsunda sem eru annaðhvort utan þjónustusvæðis eða það er slökkt á þeim.
Þar sem þörfin er mest fyrir þessi rándýru undratæki er sem sagt minnst hægt að nota þau.
Lokaðan farsíma nota menn til dæmis hvergi.

Eins og ég gat um í upphafi greinar gerðum við ekki miklar kröfur við þjóðveg 711 forðum daga.
En nú er öldin önnur.
Tæknin er komin á það stig að menn eru farnir að kanna grjótið á plánetunni Mars og sambandið er fínt. Og ekkert er þar utan þjónustusvæðis. Mér datt í hug á ferð minni upp í Húsafell um daginn að það væri eins gott að mennirnir í Ameríku væru ekki að kanna grjótið í Hvalfirðinum. Þar er nefnilega þetta fína sambandsleysi á öllum mögulegum sviðum. GSM-símaræfillinn var álíka gagnlegur og straujárn til að ná sambandi við umheiminn.
En hins vegar brakaði hrikilega í útvarpinu í beinni útsendingu.
Og þá er það vegagerðin.
Vegurinn upp að Ferstiklu er góður enda er hann hluti af hringveginum
sem Vegagerð ríkisins hefur verið að malbika með höppum og glöppum undanfarna áratugi og tekist það sem hún ætlaði sér.
Að klára hann ekki.
Eins og allir vita eru menn fjóra klukkutíma að aka upp í Húsafell á gömlum Skóda í kolniðamyrkri ef spyrja þarf til vegar tíu sinnum á leiðinni. Konan mín taldi að við yrðum svona þrjá tíma af því að það var bjart, við höfðum skipt um bíl og hún rataði. Þar að auki var svo mikið af leiðinni malbikað.
Þessi ósköp af malbiki voru fáeinir kílómetrar nálægt Reykholti.
Aðrir kaflar leiðarinnar voru nánast ófærir. Og ef blessaður farsíminn hefði ekki verið utan þjónustusvæðis hefði ég hringt í vegagerðina og þakkað henni fyrir vegina sína vondu því að þeir rifu undan bílnum hljóðkútinn og upp frá því skiptu útvörp og farsímar engu máli.
Frá Ferstiklu og í bæinn var eins og maður væri kominn á tónleika með frægustu rokkhljómsveitum heims og það kostaði eiginlega ekki neitt.