Þróun lífs á jörðinni hefur leitt af sér ótrúlega fjölbreyttar lausnir við vandamálunum sem það kljáist við. Maður þarf ekki að horfa á marga náttúrulífsþætti til að sjá að mannlegt ímyndunarafl á ekki séns í margmilljarða ára handahóf á yfirborði heillar plánetu. Eitt af þessum apparötum er heilinn, sem fyrirfinnst í flestum fjölfruma órótbundnum lífverum. Það er af góðri ástæðu - heilinn er í sinni einföldustu mynd rásaborð sem gefur til kynna hvert og hvernig er skynsamlegast að hreyfa sig. Hversu flókin skynfærin eru ráða því þannig að hluta hve flókinn heilinn er. Heilinn ummyndar svo skynboð í vöðvasamdrætti sem skila sér í skynsamlegri hreyfingu.

Sömu boðin leiða samt ekki alltaf af sér sömu svör. Ástand heilans virðist hafa áhrif á það hvernig lífveran hegðar sér. Svengd er ekki endilega dæmi um þetta, þar sem líta má á svengd sem skynboð, en ótti er aftur á móti líffæralaust hugarástand sem er framkallað efnafræðilega. Heilinn og líkaminn eru baðaðir í hormónum sem virkja vissa starfsemi í vissum frumum sem gera annars vegar líkamann reiðubúinn til átaka eða flótta en hins vegar heilann næmari fyrir skynboðum og breyta ummyndun hans á þeim. Það hvernig heilinn ummyndar skynboðin er háð hans innra ástandi sem aftur ræðst af skynboðunum sem berast í hann, og heilinn reynir að breyta aðstæðum sínum þegar hann er óttasleginn en sækist í að koma sér í ástand hamingju - annars konar hormónabað.

Ummyndun boðanna er misflókin eftir lífverum. Sumar hafa til dæmis flókna líkama sem bjóða upp á ýmiskonar hreyfingar til að ná þeim markmiðum sem eru lífverunni heppileg. Kolkrabbar hafa átta arma og sogblöðkur á þeim og heilar þeirra þurfa að vera flóknari sem því svarar og ummynda skynboð á fjölbreyttari og sérhæfðari hátt til að nýta þá.

Nokkru eftir að þessir heilar komu til sögunnar byrjaði nýtt líffæri að þróast í sumum lífverum sem rétt eins og öll önnur hjálpaði þeim að ná markmiðum sínum, hjálpaði þeim að svara ástandi heilans. Þetta líffæri var viðbót við heilann sjálfan sem ekki svaraði hormónasveiflum af sömu viðkvæmni og gömlu hlutar heilans, heldur var tileinkað söguþráðasmíði. Það hefur síðar meir byrjað að kalla sig rökhugsun eða eitthvað þvílíkt. Þessi rökhugsun keyrir líkön af aðstæðum til að prófa hvernig má komast hjá óhamingju og komast í hamingju (gróflega áætlað og lauslega skilgreint). Síðan er afköstunum skilað til vöðvanna eins og áður. Það má segja að auka lykkja hafi vaxið á rásaborðið.

Þessi lykkja virkaði svo vel í manneskjum að hún óx og dafnaði gríðarlega hratt, svo mjög að hún tekur núna yfir stóran hluta heilabúsins. Hún er meira að segja farin að búa til stór og mikil líkön af sjálfri sér, öðrum lykkjum að gera líkön af sjálfri sér og þar fram eftir götunum. Í öllum þessum líkanahasar vill þó gleymast til hvers hún varð til í upphafi og hverjir raunverulegir hvatar hennar eru. Þegar allt kemur til alls er hún ekkert annað en enn eitt líffærið til að koma tilfinningum okkar - það sem rökhugsunin hefur ákveðið að kalla hormónabaðið sem hún liggur í - á réttan kjöl.

Hindúistar kalla reglurnar sem liggja á veröldinni og samfélagi manna dharma, og segja gjörðir manna, karma, færa þá nær frelsun aðeins ef þeir vinna með dharma. Jafn rangt og þeir gætu hafa haft fyrir sér í öllu mögulegu er vel hugsanlegt að við getum heimfært þetta á tilfinningar okkar.