Mér finnst yfirleitt óstjórnanlega leiðinlegt að fylgjast með eða hlusta á umræður um tilgang lífsins. Það er, að ég held, vegna þess hve sú umræða einkennist mikið af samhengislausum orðasennum, þessi segir þetta og hinn segir hitt, án allra raka. Þrátt fyrir minn illa bifur á téðu tema, ætla ég nú að brjóta odd af oflæti mínu og láta í ljós mína skoðun á málinu.

Svo er nefnilega mál um vaxtarvexti að mín skynsemi; mín rökhugsun komst að þeirri niðurstöðu sem iðulega hafði farið mest í taugarnar á mér þegar ég álpaðist til að reka augun í tilgangspælingar einhvers. Mér varð eiginlega hálf bilt við. Ég fékk, að því er virðist, lendingu á þeirri margtuggðu klisju að hver og einn skapi sér sinn tilgang – tja eða ekki. Þótt þú ákveðir það eða ekki þá er það, sem þú gerir með lífið (í lúkunum), sá tilgangur sem þú gæðir því. Og nú ætla ég að freista þess að láta þig, kæri lesandi, ganga í gengum sömu atburðarás og varð þess valdandi að ég skrifa þessi orð, nei, þetta!

Það byrjaði með því að ég fór að hugsa um hvort hægt væri að skilja þetta tvennt að með einhverjum hætti; lífið frá því sem lifir, dansinn frá dansaranum. Ég gerði mér þó fljótt grein fyrir því að án dansarans verður aldrei stiginn dans og án dansins verður aldrei til neinn dansari. Þetta er allt nokkuð augljóst, en þó umhugsunarvert því hér verða til gagnvirk vensl á milli lífs og lifandi, og þessi tengsl þurfa að hafa þetta bæði á sama tíma og á sama stað til að geta orðið að veruleika. En um þetta læt ég nú gott heita af minni hálfu, hin hálfan verður vonandi ykkar.

Nú fór ég að hugsa hver gæti mögulega verið tilgangur (fyrirlít þetta viðurstyggilega orð!) þess að lifa. Þá má geta þess að nánast allar okkar aðgerðir (takið eftir, ekki allar) hafa þann tilgang, yfirlýstan eða duldan, að geta lifað. Við vinnum til þess að fá peninga -> fáum peninga til þess að geta keypt á okkur og í -> sem er ein af grunnþörfum lífs. Einn félagi minn skrifaði einhversstaðar að tilgangur lífsins væri að fjölga sér, en hvernig getur það staðist? Fjölgun er ein af grunnþörfum lífs, við fjölgum okkur til þessi eins(?) að lifa; hvernig getum við þá lifað, til þess eins að fjölga okkur? Auðvitað getur það samt sem áður verið tilgangur einhvers sem setur sér þann tilgang, jafnvel ásamt öðru. En núna erum við að komast að mergi málsins. Ég ákvað að taka eitthvað skýrt og afmarkað sem getur haft tilgang í sjálfu sér, en tilgangur þess er í raun að leyfa okkur að lifa. Hugsum okkur fyrirbrigðið vinna og setjum það í hásæti lífsins, spyrjum svo um tilgang vinnunnar. En við skulum bara skoða vinnuna, í sjálfu sér: þar verður hún frábrugðin lífinu – við skoðuðum það í sambandi við allt sem lífið inniheldur; allt sem í raun er. Hvers vegna þurfum við alltaf að skoða lífið, eða tilgang lífsins, í sambandi við það sem við gerum í lífinu? Ég var ekki að skjóta mig í fótinn með þessu held ég, því hægt er að gera hvað sem er að tilgangi lífsins. Ok, vinna, hún getur haft þann tilgang að afla fjár, að mennta, að vera tómstund, nánast hvað sem er. Er það þá ekki eins með lífið ef við skoðum það eitt og sér og finnum tilganginn innan þess? Getur tilgangurinn þá ekki verið hvað sem við viljum að hann sé, bæði ólýsanlegt og lýsanlegt?

Ég sá, held ég, reyndar þegar ég skrifaði þetta niður að ég gæti hafa verið að gefa mér ýmislegt; ýmislegt sem ég ætlaði að sanna. En ég hef samt ákveðið að leyfa textanum að standa einsog hann varð eftir fyrstu tilraun. Því það er oft skemmtilegt að rýna í svona skyndilegan hugarburð, og leyfi ég þér hér með að afbyggja, flækja eða eyðileggja textann að vild… best væri samt að hann gæti fellt nokkur tré og/eða gróðursett ný í hugafylgsnum þínum…