Hvað meinum við með að “skilja” hluti? Af hverju fatta sumir en aðrir ekki?

Þegar við erum nýfædd smábörn höfum við bara meðfædda tjáningarmáta; hlátur, grátur og svipbrigði. En við höfum líka minni sem tengir reynslu frá tveimur eða fleiri skynfærum í einu. Það leyfir okkur að tengja eld við sársauka, bragð við mat og hljóð við hluti. Það síðasta er náttúrulega grundvöllurinn fyrir talmál, og upp frá vissum aldri vex orðaforði barna gífurlega hratt. Það er vel skiljanlegt þegar maður hugleiðir hernig orðaforði verður til. Orð má nota til að skilgreina ný orð, og færni til að læra fleiri eykst því með hverju lærðu orði. Þessi eiginleiki tungumáls gerir það gífurlega sveigjanlegt. Hvert orð má skilja út frá öðrum orðum, og orð má smíða óháð öllum öðrum með táknmáli og bendingum. Það að einstaklingar tengi upp til hópa sömu orðin við sömu hlutina er svo augljós forsenda þess að við getum talað saman, og ég geti verið viss um að þegar ég segi “bolli” birtist meira eða minna sama mynd í haus flestra áheyrenda. Engar tvær manneskjur ímynda sér nákvæmlega eins bolla, en það sem þeir eiga allir sameiginlegt er það sem við eigum við með “bolli”.

Þegar við skilgreinum ný orð með gömlum, þá köllum við fram þessar myndir í öðrum og reynum að tengja þær saman á þann hátt sem við höfum gert sjálf. Stundum er skilgreiningin byggð í orðið sjálft, sem gerir það “sjálflýsandi”. Orðið sjálflýsandi, í þeirri merkingu sem ég nota það hér og í almennri merkingu þess, er einmitt sjálflýsandi. “Hjólastóll”, “bókasafn” og “rennibraut” sömuleiðis. Þegar þau komast í almenna notkun verða þau svo töm okkur að við tengjum þau betur við myndir af hlutunum sem þau standa fyrir en samsetninguna sem þau fela í sér. Orðatiltæki eins og “að fela í sér” er líka dæmi um hugtak sem við ímyndum (annað sjálflýsandi orð) okkur ekki meðvitað þegar við notum það. En þegar við notum svoleiðis orðatiltæki, sem ekki standa fyrir neinn ákveðinn hlut heldur samhengi þeirra, hljótum við í öftustu hugskotum okkar að eiga myndir sem lýsa hvernig þau virka. Þær myndir segja okkur hvað er leyfilegt að gera við hugtökin og hvernig þau bregðast við óvæntum aðstæðum. Til dæmis get ég prófað að skrifa “skápur felur í sér bækur”. Flest hafa líklega ímyndað sér lokaðan skáp með bókum, þótt kannski hafi undirtónar orðsins “fela” borið með sér tilfinningu laumulegs prakkaraskapar í einhverjum. Tengingar orðsins, hvernig við höfum oft notað það og heyrt það notað, ráða því hvaða hugtök það dregur með sér þegar það er kallað fram.

Að því athuguðu hve nauðsynleg ímyndun er hugsun okkar fer kannski að verða ljósara hvað við meinum með að skilja hluti. Að ná að gera sér mynd í huganum; að í-mynda sér eitthvað, er mikilvægasta skrefið í skilningi. Það sem helst stendur í vegi fyrir því er ef útskýringin byggir á hugtökum sem maður skilur ekki, eða ef þau virka öðruvísi í eigin huga en í huga útskýrandans. Orð eins og “plebbi” geta til dæmis haft nokkuð mismunandi merkingar. Orðið var upphaflega notað um verkamenn í Rómarveldi, en er nú líka notað um vitleysinga og fátæklinga. Misskilningur er þegar ólíkar myndir í hugum tveggja eru tengdar sama orðinu, og hvor fyrir sig sér þannig mismunandi möguleg samhengi fyrir sína mynd. Í skilningi felst líka að prófa hugtakið í mismunandi samhengjum og sjá þannig þá möguleika og þau takmörk sem það hefur. Því betur sem maður gerir þetta, því betur skilur maður hugtakið, og því betur er maður varinn gegn misskilningi um það. Þegar maður hefur nálgast hugtak úr öllum hugsanlegum áttum sér maður fljótt hvernig því er misbeitt og hvernig má beita því best. Í þessari grein nálgast ég til dæmis hugtakið “ímyndun” úr nokkrum áttum og lýsi sem flestum eiginleikum þess svo ég geri mína sýn á það sem skiljanlegasta.

Því ætti nú að vera nokkuð skýrt hvers vegna sumir fatta hluti og aðrir ekki. Ef maður er búinn réttu hugtökunum og hefur ímyndað sér rétta eiginleika þess eru “innstungurnar” fyrir ný hugtök reiðubúnar. Það sést kannski að “hugtak” er mjög sveigjanlegt hugtak, þar sem það getur verið bolli, ímyndun og jafnvel manneskja, eða kannski hegðun manneskja almennt eða heimurinn sem inniheldur þetta allt. Þegar maður hefur fylgst vel með atferli fólks í svolítinn tíma og sér ekki nein augljós mynstur í því, en les svo í sálfræðibók um tilraunir Pavlovs og Milgram, um hópþrýsting og um lært bjargarleysi, tengjast mörg áður óskyld hugtök óvæntum og spennandi böndum. Að velta sér upp úr þessum nýfengnu samböndum gefur manni skilning á atferli fólks sem leyfir manni ekki bara að útskýra alls kyns aðstæður, heldur líka að búast og bregðast við þeim. Það hefur því sína kosti að vera með fálmarana til reiðu, til að gera leiðina greiða fyrir fatt og skilning.

Að gera sig meðvitaða um ímyndun og gagnsemi skýrra mynda af hugtökum leyfir vandaðri hugsun og er gott verkfæri til að skilja ný hugtök. Að gera sér skýra mynd af því sem fyrir manni er útskýrt, hvort sem það eru markgildi í stærðfræði, framboð og eftirspurn í hagfræði eða líðan náungans í daglegu lífi, er lykillinn að skilningi.

En takmarkalaus skilningur er gagnslaus ef hann endurspeglar ekki raunveruleikann. Maður getur skilið sinn eigin bullheim ágætlega, en það er lítið vit í því nema maður geti notað hann á einhvern veg, og fátt getur maður notað betur en góðan skilning á raunheiminum og öllu(m) sem í honum er(u). Þar birtist annar kostur þess að velta fyrir sér (ímyndið ykkur: velta fyrir sér) hugtökunum sínum og bera þau saman við raunveruleikann. Standast þau samanburðinn? Með því að meitla hugtök þannig má láta þau endurspegla heiminn sem nákvæmlegast, og öðlast skýran, nákvæman og gagnlegan skilning á honum.