Hagspekingar hafa löngum velt fyrir sér hvaða mannlegu eiginleikar séu hvatinn að auðlegð þjóða. Klassísk skoðun heldur því fram að vinnusemin sé einn af hvötum efnahagslegra framfara. Þessi skoðun felur í sér að við fáum fullnægju úr athöfninni sjálfri, að vinna. Einfaldlega, að vinnan í sjálfri sér er nægjanleg umbun þess að við erum yfir höfuð nennum og viljum vinna hana.

Önnur skoðun getur verið að við séum að sækjast eftir afrakstri vinnunnar og við fáum okkar umbun við verklok þegar afurðin blasir við. Hér er það bein afurð vinnunnar sem er fullnægja og umbun þess að við erum yfir höfuð að vinna. Þetta getur verið peysa sem við erum að prjóna okkur. Okkur getur fundist sjálfur prjónaskapurinn drepleiðinlegur og pínum okkur áfram til að ljúka við peysuna. Það er ekki fyrr en peysan er tilbúin að við fáum umbunina að vera í fallegri flík sem við gerðum sjálf. Í fyrra dæminu hefði það verið prjónaskapurinn sem væri upphaf og endir vinnugleðinnar. Ánægjan felst þá í að prjóna, þegar peysunni er lokið og við höfum ekkert lengur til að prjóna hverfur ánægjan, þar sem flíkin (afurðin) veitir enga sérstaka umbun.

Þriðji möguleikinn er afleiddur af öðrum, nema í þessu tilviki er það ekki umbun af afurð vinnunnar sjálfra, heldur umbun fjármuna sem við fáum í hendur fyrir vinnuna. Í þessu tilviki getur okkur hundleiðst vinnan og hatast við afurðina, bara svo lengi sem við fáum greitt fyrir það sem við erum að gera. Sé þetta hvati vinnuseminnar veljum við okkur ekki lengur störf útfrá áhugu á starfinu eða afurðinni, heldur hvað gefur vel í aðra hönd. Mín skoðun er að ef þetta hvati vinnuseminnar, þá sé undirliggjandi annar enn sterkari hvati sem heitir græðgi. Það er græðgin í peninga sem hvetur fólk áfram til starfa sem fellur undir þennan flokk.

Það er síðan nokkuð athyglivert að margir fræðimenn telja drifkrafturinn á bakvið hið svokallaða gamla hagkerfi vera vinnusemi. Afar okkar og ömmur, langafar og langömmur þótti einfaldlega bara gaman að vinna.

Spurningin sem ég varpa fram er því hvort hið svokallaða nýja hagkerfi, sé fyrst og fremst drifið áfram af græðgi. Í þessu sambandi vil ég t.d. benda á lögfræðiþátt á Stöð2 (man ekki hvað hann heitir) þar sem stöðugt er að poppa upp þetta sjónarmið að vera gráðugur og grimmur og þá gengur manni vel. Einnig heyrðist það sagt í opinberri umræðu þegar mál þingsmanns kom upp að það væri nú einu sinni græðgin sem drífur hagkerfi okkar áfram. Er það svo?