Guð hvað það er þreytandi að vera stjarfur og illa að sér í veröld þeirri er mestu máli skiptir.

Ég stend í aðalgötu borgar þeirrar er kennir sig við dauða hluti og blinda þegna. Ég horfi í búðarglugga á fallega hluti sem ég á ekki en get ekki verið án, þá sé ég í þeim speglast bernsku mína, vonir & væntingar og ást mína á tilverunni.

Mig dreymir þessa hluti á næturnar,.

Í þessum verslunarleiðangri höfum við öll bakkað út úr einstefnugötum, sumum mjög löngum en öðrum stuttum & skuggalegum.

Svo sitjum við í bláum sjóndeildarhring tilveru okkar, látum okkur leiðast en bíðum samt spennt, einblínum á þau mistök okkar að lifa í borg þessari sem einstaklingar sem hugsa fyrst og fremst um að leiðbeina sjálfum sér.

Örlögin kasta orðið daglega uppá það hvort þau vilji okkur vel, þau óttast það að þau séu komin í okkar hendur.

Við lítum í kringum okkur og aftur á langan veginn sem við höfum lagt að baki, áttum okkur á því að við séum enn á þeim stað er ferðalag okkar hófst á fyrir löngu.

Svo spyr fólk í vafa hvort trúin sem við höfum á okkur sé gamaldags, líkt og okkur sé ekki ætlað að vera mennsk lengur..

Hvað þurfa djöflarnir að leggja mörg okkar að velli áður en við vöknum?