Það er búið að vera hálf dauft hér á heimspekinni þannig að ég læt vaða.

——————————————————————-

H ver er framtíð heimspekinnar? Ég veit það auðvitað ekki.

Eitt sýnist mér augljóst..
Að það mun vera heimspeki, meðan það verða spurningar.
Fyrst mótaðist spurningin í huga mannsins og svo kom svarið; sem var og er og mun vera heimspeki.

En hvert erum við að fara í hugleiðingum okkar og heimspeki?

Eina leiðin til að áætla framtíðina er að þekkja fortíðina, og þá VEIT maður svo sem ekki neitt. Þrátt fyrir brennandi viðleitni.

Kannski er vænlegasti lærdómur sem maður getur dregið af fortíðinni; lærdómurinn sem við drögum af mistökum þeirra sem hafa vermt fletið á undan okkur.

Af því litla sem ég veit; sýnist mér algengustu mistök felast í “byggingu”. Þá á ég við tilraunir til að búa til eitthvað úr litlu sem engu eða bara hreinlega engu. Þó ætla ég ekki að segja að það sé útilokað eða að við ættum að útiloka neitt. Þetta er bara formáli að tillögu minni. Sumum leiðist formálar en mér þykja þeir mikilvægir.

Það eru eflaust margar hugmyndir í hugum fólks um mannkyn, tilgang, stefnu, fortíð og framtíð. Þe tilhvers; hvað erum við; hvert erum við að fara og er það nokkurs viðri; hvað er virði einhvers? Besta svar mitt hingað til, er “þekking”. Svör eru kannski í eðli sínu ófullkomin; þar sem efinn lifir ágætu lífi með öllum svörum heimsins.

Ef “þekking” er svar mitt við spurningunni; hvað skiptir mannkyn mestu; og “bygging” algengustu mistökin. Þá skulum við velta fyrir okkur leiðinni “fram á við”.

(Ég tek það fram að ég þekki ekki kenningar Derrida um afbyggingu. Þó ég viti að það gangi út á krufningu máls og merkingar eða eitthvað í þá áttina. En það er hugsanlega eitthvað sameiginlegt stef í þessu. Þannig að kannski er það sem ég legg til það sama og hann hefur verið að gera og er að gera í dag. Ég býst við að gthth geti frætt mig um það, og mér þætti vænt um það.)


Hugtakið “skapandi eyðing” er mér ofarlega í huga þegar ég hugsa mér “leiðina fram á við”. Mér er einnig ofarlega í huga “Forleikur að heimspeki framtíðar. eða Handan góðs og ills. Þeas hugmyndir Nietzsche um heimspeki framtíðar; og kannski sérstaklega um heimspeking framtíðar.

Hvort þið hugsið ykkur: harðan hlut eyða hinum mýrkri, eins og meitill sem skapar; mjúkan hlut eyða hinum harða, eins og dropinn sem holar steininn; eins og mynd fengin með ”ætingu“. Hvað þið hafið í huga þegar ég segi ”skapandi eyðing“, gildir einu. Niðurstaðan er sköpun, fengin með eyðingu.

Já, einmitt! Leiðin fram á við, felst í ”skapandi eyðingu“. Afkvæmi alin af heimspekinni eru nú vaxin og uppkomin. Ég er að hugsa um raunvísindi. Þessi afkvæmi eru orðin fullburða og sjálfstæð, þeirra hlutverk er að notast við ”skapandi byggingu“, þó að hér séu engin raunveruleg fastmótuð hlutverk. Niðurstaðan réttlætir aðferðina! (Ekki flækja ”siðfræði“ inní það.) Raunar skv minni reynslu beita áðurnefnd afkvæmi heimspekinnar, raunvísindin, eyðingu. Þeas þau eru oft mun gagnrýnni á upprennandi hugmyndir. Það er blessun þeirra. Það sem upprennandi vísindamaður lærir, ef hann lærir þá nokkuð, er ma að ráðast gegn eigin hugmyndum af mikilli grimmd ”hins rökumprídda morðinga“. Þeas að ráðast á allar sínar hugmyndir, sem eru komnar úr vöggu, með öllu sínu hjarta og af eins mikilli grimmd og honum er auðið. Niðurstaðan verður sú að vísindarmaður með sjálfsvirðingu lætur ekkert útúr sér nema það sem hann álítur pottþétt. Á þessu eru þó sorglegar undantekningar. En þær eru færri í heimi raunvísinda en í heimi heimspekinnar, til dæmis.

Heimspekingur framtíðar, er tortímandi. Heimspekin hreinsunareldur. Eins og myndhöggvari eða vatnsdropi holum við steininn. Eftir liggur merking. Meitill okkar eða vopn, eru rök og/eða rökfræði. Við verðum að ráðast á heiminn og rífa hann í okkur; eftir að hafa sigrað sjálf okkur.

Descartes byrjaði ágætlega, með því að brjóta allt niður. En endaði í aumkunarverðri byggingu.

Lykillinn framá við er að sigra sjálf okkur. Þe að fara í gegn um allt það sem við þykjumst ”vita“, allt sem gerir okkur sjálf, allt allt. Við verðum að brjóta þetta allt niður. Við verðum að sjá heiminn fyrir það sem hann er, okkur sjálf einnig. Það er engin auðveld lausn hér, þetta eru persónuleg átök við sjálf okkur og mennsku okkar; þe eðli okkar sem menn, veikleika okkar, og tilhneiginar. Þetta getur enginn gert fyrir okkur. Eina leiðin er sjáfstæð gagnrýnin hugsun, ss RÖK. Úr höfði Seifs brýst svo ”hinn rökumpríddi morðingi“. Rándýr með rök í stað tanna. ”Hinn rökumpríddi morðingi“ mun rífa í sig rökvillur heimsins, og það sem eftir stendur mun verða grunnur ”þekkingar“, þeirra sem eftir koma.

Heimspeki framtíðarinnar mun taka á sig form ”catharsis“ hreinsunar, með röklegri eyðingu. Við leggjum heiminn í sýrubað. Það sem eftir stendur, er grunnur sem verður kannski þess virði að byggt sé á honum.

Kannski skilst greinin mín ”Ég veit hvað ég vil.“ betur núna. Ég læt textan fljóta með hér fyrir neðan, til hægðar auka.

”Ég veit hvað ég vil.

Ég vil hlaða mér altari,
mér og mannkyni til dýrðar,
það skal samsett úr rökum og “þekkingu”,
þetta verður ekki altari tilbeiðslu,
ekki neinum guði til dýrðar,
þetta verður altari til mannfórna.

Ég er böðullinn,
hinn rökumpríddi morðingi,
ég stend í byggingum og brýni hníf til fórna.

Fórnin skal blæða fljótum af blóði,
hún skal engjast og kippast af kvölum.

Fórnin hefst á sönnun,
sönnun á frjarvist sálar,
sönnun með beittum hníf.

Í blóðmóðu sársauka skal rökhugsunin skýrast,
en mesta kvölin verður fólgin í fáránleikanum,
þegar allt sem mig gerði,
verður aðeins efni í holan hlátur.

En nú syngur stálið á brýninu,
nú er tíminn til að hlaða sér altari.

Að lokum er tími til að deyja,
þegar ég leggst á altari böðulsins,
þegar ég munda beittasta hnífinn,
sem böðull og fórnarlamb,
þegar ég gleðst yfir tækifærinu sem mér er gefið,
brosi við spegilmynd úr stáli hnífsins,
í andartakinu áður hann er ataður blóði,
en það sem fylgir verður fullkomnað í kvalalosta.

Mannkyn skal nærast á holdi mínu,
drekka blóð mitt,
og það sem eftir stendur,
verður varðan til framtíðar.

Ég veit hvað ég vil!“


Þetta hefst ss allt á því að brýna hnífinn. Þessi nálgun er það róttæk að við verðum að fórna stórum hluta af okkur sjálfum. Eftir stendur ”hinn rökumpríddi morðingi“, og tilgangur hans.

Ég sjálfur er enn ekki búinn að ákveða hvort ég sé tilbúinn eða þess verður að færa þessa fórn. Ég er enn bara að brýna hnífinn. En ég veit samt hvað ég vil.

Heimspeki framtíðar þarf ss að taka stakkaskiptum. Hún þarf að gera eins og við sjálf. Að snúast gegn sjálfri sér, áður en hún snýst gegn heiminum. Þá mun hún kannski gert eilítið gagn. Komandi kynslóðum til góða.

Ég vil þó vara fólk við, því að langvarandi sjálfsgagnrýni er varasöm, og mjög þreytandi. Henni fylgir lífsleiði, sem hefur tilganginn aðeins sem móteitur.

Ég vil líka benda á hugsanlega undantekningu frá gagnrýni. Að það þjónar ekki tilgangi að gagnrýna það sem er ”í fæðingu", það sem hefur ekki tekið form. Þess vegna verðum við að vita hvenær er tími til að beita hnífnum. Við verðum að hugsa áður en við tökum í gikkinn.

Ég veit ekki hve margir skilja hvað ég er að fara. Ég nenni ekki að lesa þennan texta í gegn til að reyna að gera þetta skiljanlegra, þar sem hér finnst mér mikilvægara að láta bara vaða. To make philosophy, by shooting from the hip. Ef mér leifist að sletta. Það kann kannski að hljóma eins og mótsögn við það sem ég var að enda við að segja. En hér finnst mér ákveðin frjósemi mikilvægari, svona suðupottur hugmynda, sem síðar eru fullmótaðar í eitthvað sem við getum brotið niður. Ég hef eflaust gleymt einhverju og ýmislegt mætti vera betur skýrt hér. En já enn og aftur ég læt þetta bara vaða.

Takk fyrir
VeryMuch