Ég byrjaði að skrifa þetta í korkinn vegna þess að þetta er nú ekki merkilegt “málefni” að mér finnst, en þetta varð bara svo langt:)

Viljinn hefur verið notaður sem efniviður í heimsmynd hjá nokkurum heimspekingum, þá helst hjá Scopenhauer og Nietzsche. En ég ætla mér nú ekki að fara að rekja kenningar þeirra og gefa mitt álit, eða eitthvað þannig.

Frekar ætla ég að segja ykkur frá nokkru sem ég hef leyft mér að kalla vítahring viljans. Það átti sér stað í sumar þegar ég var einn að vinna (við að helluleggja) í heilan dag. Og þegar ég er svona lengi einn, fer ég að velta mér uppúr ýmsu. ég spurði sjálfan mig:

Hvað er það sem ég vil?

Satt best að segja þá hefði ég átt auðveldara með að velta mér uppúr sinnepi. Því við þessarri spurningu hafði ég ekkert svar. Það var komið fram yfir kaffitíma (10 tíma vinnudagar) og mér hafði enn ekki hugkvæmst nokkuð skynsamlegt. En þá datt mér snjallræði í hug, svolítið sem þið ættuð kannski að fatta ef þið gæfuð því nógu mikinn gaum.

Ég vil vita hvað það er sem ég vil.

Jæja… þetta gæti samt sem áður verið skrumskæling á: ég vil það sem ég vil. En mig grunar að það þurfi ekki að skipta máli. Núna vissi ég hvað ég vildi!

Þetta er ekki búið. Ég og einn vinur minn fundum upp skemmtilegan leik í kjölfar þessarrar uppgötvunar minnar. Við völdum fórnarkindur og spurðum:

Veistu hvað þú vilt?

Við fengum oftast nei, en þegar við fengum já spurðum við einstaklingin í þaula þangað til hann áttaði sig á því að hann vissi það í raun ekki. Og þá spurðum við:

En viltu vita hvað það er sem þú vilt?

Við leiddum fólkið í gildruna með því að gefa í skyn að við myndum segja þeim það. Og allir sögðu já. Þá sögðum við: Þú ert sprunginn og gengum brott, því það er kenning okkar að þegar einhver er búinn að viðurkenna að hann viti ekki hvað hann vilji, en vilji samt vita hvað það er, þá annaðhvort deyr eitthvað eður springur í hugsunum hans. Kannski veldur þetta dauða, við vitum það ekki, en vegna þeirrar óvissu höfum við stundum sagst vera fjöldamorðingjar, drepum hina veikgeðja! Göngum útum allt og spyrjum fólk til dauða, dágóð skrumskæling á Sókratesi það!

Það er svolítið skemmtilegt að gera sér grein fyrir því að í raun myndast einnig mótsögn ef fórnarlambið segir nei við seinni spurningunni. Sjáðu til, þetta er einsog að segja: nei ég vil það ekki, þá er það það sem hann vill. Viljinn segir honum að hann vilji ekki vita hvað hann vill, en þá er það það sem hann vill.

Eina leiðin til að sleppa, held ég, er að segjast ekki vita það (hvort þú viljir það).

Jæja, veistu hvað þú vilt???