Kant og hinn góði vilji

Í daglegu tali þegar talað er um að eitthvað álitaefni sé siðferðilegt er oftast átt við að ómögulegt sé að skera úr um það nema með því að taka tilfinningalega afstöðu. Hvort finnst þér þetta rétt eða rangt? Gott eða vont? Misjafnt er hvort menn halda að til sé algildur mannlegur skali á það hverslags tilfinningar ættu að kvikna í heilbrigðum manni við ákveðin tilefni eða hvort það sé afstætt og fari eftir þeim reynsluheimi sem hver og einn býr yfir.

Fyrir flestum leikur engin vafi á því að þegar átt er við að tilfinningar ráði þá er í raun og veru verið að spyrja: Hvað fær þig til að líða vel eða illa? Hvað gerir þig hamingjusaman? Tilfinningar eru eins og mælikvarði á það hversu vel þarfir einstaklings eru uppfylltar. Þannig miða margir siðferðið við sínar innri hvatir og langanir. Það sem lætur þér líða vel, það er gott, það sem lætur þér líða illa, það er vont.

Það var gegn þessari hugsun sem heimspekingurinn Immanuel Kant (1724-1804) var að ráðast í bók sinni Grundvöllur að frumspeki siðferðarlegrar breytni. Hamingjan er ekki góð í sjálfu sér. Hinar allskyns dyggðir, svo sem hugrekki eða hófsemi eru heldur ekki sjálfkrafa góðar. Sálargáfur mannsandans er hægt að nota bæði til ills og góðs.

Tökum dæmi af manni sem er mjög hugrakkur. Sá eiginleiki hans gæti verið mjög til góðs fyrir hann persónulega í þeim skilningi að það gæti verið bæði fullnægjandi tilfinning og veraldlega ábatasamt fyrir hann. Nú er tungumálið tæki til að lýsa heiminum, ég get ef ég vil kallað þennan eiginleika mannsins sem góðan í sjálfu sér. En það finndist Kant vera hálfgert svindl. Hann trúði að hið góða væri eitthvað sem ætti sér sjálfstæða tilvist, væri hlutlægt. Það þyrfti frekar sönnunar við til þess að kalla þessa eiginleika góða, því annars væri þetta eins og að kalla svín hest, vegna þess að þau eru með fjóra fætur, óaðvitandi að það eru til dýr í raun og veru sem heita hestar.

Þegar sanna á hlutina þarf að gera það almennt, en ef það á að afsanna eitthvað dugar að taka eitt dæmi. Maður sem er mjög hugrakkur og er hamingjusamur þess vegna gæti á sama tíma verið að nota hugrekki sitt til þess að vinna skaða gegn fólki sem ekkert hafði til þess unnið. Af þessu er augljóst að þó hugrekki sé að hluta til gott, þá getur það verið að hluta til illt líka. Sama má segja um gáfur, þær þykja góðar, en geta valdið miklum skaða. Það er eitthvert skilgreiningarvald sem dregur mörkin þarna, eitthvað æðra en bara persónumiðuð fullnæging langana.

Kant kemst að þeirri niðurstöðu, eins og fram kemur strax í fyrstu málsgrein bókar hans, að það sem sker úr um hvort að einhverjir eftirsóttir eiginleikar séu í raun góðir eða vondir, er viljinn sem stendur á bakvið. Fólk ruglar oft saman því að vilja og að langa, en hér á hann ekki við neinn hefðbundin vilja, heldur hreinan vilja, yfir allar tilfinningar hafinn, vilji sem ræðst af skynseminni.

Viljinn á bakvið gerðir okkar geta verið margskonar. Það sem gerir hugrekki eða sálargáfur góðar er að þær séu gerðar með góðum vilja. En hvað þýðir það? Áður en farið verður nánar í svör Kants verður aðeins betur rýnt í það. Þar sem góður vilji ræðst af skynseminni hefur hann ekkert að gera með okkur sem persónur, óbrengluð skynsemi hvers manns ætti alltaf að nálgast sömu niðurstöðu, óháð hvernig honum líður um það, hvaða skoðun hann hefur á því eða úr hvaða umhverfi hann kemur. Hér verðum við því að hugsa okkur hvað er gott eða vont óháð tilfinningum okkar. Gæðin á niðurstöðu skynseminar geta verið mismunandi, þeim mun almennari skírskotun sem niðurstaðan hefur, þeim betri er hún en ef hún tæki ekki tillit til nema fáeinna atriða. Þannig að góð niðurstaða skynsemi (þ.e. góður vilji) væri sú sem myndi virka sama hver það væri sem myndi hugsa hana.

Þannig að ef t.d. eiginleikar þínir eins og hugrekki eða sálargáfur hefðu þannig afleiðingar að þú hefðir haft annan vilja hefðirðu verið í sporum einhvers annars þá væri niðurstaðan skynsemi þinnar gölluð, og viljinn ekki góður. Þannig myndi nasisti sem gerir eins og hann heldur að sé best ekki gera það sem hann væri að gera hefði hann verið gyðingur eða einhver honum nákominn.

Þetta kallar Kant skilyrðislausa skylduboðið. Maður á einungis að breyta eftir þeirri lífsreglu sem maður getur hugsað sér að verði að almennu lögmáli. Það er megininntak þess sem hann kallar góður vilji. Það kallast skylduboðið því þar sem það miðast ekki við okkar persónulegu tilfinningar þá er eini siðræni hvatinn á bakvið það skyldan, þ.e.a.s. virðingin við það sem er æðra í okkur.

Það er sá hluti af okkur sem greinir okkur frá dýrunum, þessi skrítna skylduhugsjón að að skilja að eðlishvatir okkar sé ekki það eina sem skiptir máli.

En er þessi skilgreining Kants á hvað er gott réttlætanleg? Hvaða ástæðu hefur hann til þess að ætla að góður vilji sé til? Svo ég noti sömu líkingu og áður; getur verið að góður vilji eigi sér ekki tilvist eins og hestur, heldur sé bara eiginleiki, eins og það að vera fjórfættur. Það er hægt að hneykslast á manni sem segir að svín séu hestar, en er hægt að hneykslast á manni sem segir að svín séu fjórfætt?

En ef engin dýr með útlimi væru til? Þá hefði það enga merkingu að tala um að eitthvað sé fjórfætt. Á hinn bóginn, ef engin mannskepna væri til, þá væri hinn góði vilji engu að síður til. Því hann er afrakstur hreinnar skynsemi, og það sem ræður gæði niðurstöðurnar er almenn skírkotun hennar. Þannig að ef engin maður væri til en fyrir tilviljun myndi raðast saman hinir allskyns hlutar sem mynda hreina turingvél á borð við tölvu þá myndi hún skila sömu niðurstöðu. Samkvæmt því hefur hinn góði vilji því sjálfstæða tilveru og lýtur lögmálum sem eru óháð mannlegu sálarlífi.

Þetta er býsna frumspekileg útlegging á siðferði og snertir þá aldagömlu spurningu, hvert er eðli tilverunnar? Ef góður vilji er afrakstur skynseminnar og er best lýst með lögmálum rökfræðinnar þá hef ég mestan áhuga á hinu stærðfræðilegu sjónarhorni á þessa hugmynd. Síðan á tímum Kants hafa átt sér stað miklar framfarir í rökfræði, í ófullkomleikakenningu sinni sannar Gödels t.d. að í hverri rökfræðilegri kenningu séu óendalega margar forsendur sem ekki hægt sé að sanna út frá öðrum forsendum innan kerfisins. Þetta þýðir að eitthvað kerfi getur verið rökfræðilega rétt og búið yfir að því er virðist himnesku samræmi en á sama tíma verið á allan hátt undir því komið hvaða mannlega hugsun valdi forsendur upphaflega. Skynsemin er eiginleiki hugsunar, eins konar tilfinning í sjálfu sér.

Þannig mætti hugsanlega skipta út forsendum Kants um hinn góða vilja og fá út siðferðikerfi sem væri alveg jafn skynsamlegt. Það sem ég á við að það skiptir engu máli hversu skynsamlegt heimspekingur óskar sér að siðferðislegt kerfi eigi að vera, það væri aldrei fullkomlega skynsamlegt. Það væri alltaf einhverstaðar byggt á tilfinningu þess sem er að reyna að búa það til eða uppgötva það.

Í tilfelli Kants er það innbyggð tvíhyggja hans, sem hann fær í arf frá Platoni og jafnvel kristninni, sem er sú forsenda sem allt kerfi hans stendur og fellur með. Hægt væri að fá algerlega rökfræðilega jafngilt kerfi þar sem forsendan væri fullkomin einhyggja. Það væri jafn skynsamlegt þótt það byði manni upp á allt annað siðferðismat.

Ef siðferðismat væri algerlega tilfinningalegt og afstætt þá væru til jafnmörg siðferði og manneskjur á jörðinni hverju sinni. Á hinn bóginn ef siðferðismat er algerlega rökfræðilegt og skynsamlegt þá leysist það vandamál ekki. Það hefði aðeins þá þýðingu að til væru óendalega mörg siðferðiskerfi, eða jafn mörg og ímyndunarafl sérhvers manns leyfir. Þess vegna hallast ég að því að í raun sé siðferði breytilegt og blanda af þessum báðu, samfélagslegt samkomulag á sérhverjum tíma. Það þýðir ekki að það sé verra.


Heimildir:
Immanuel Kant. 2003. Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni. Þýðing: Guðmundur Heiðar Frímannsson. Lærdómsritaröð Hins Íslenska Bókmenntafélags. Reykjavík.