Það er í raun ótal margt sem að er skrýtið við heiminn og enn fleira sem er í raun ofar okkar svo mjög takmarkaða skilningi. Það tæki mig eflaust mikið meira ritpláss að gera því öllu skil en það alfurðulegasta og mest spennandi að velta fyrir sér er að sjálfsögðu við sjálf. Við, maðurinn, drottnari jarðarinnar og þar fram eftir götunum. Það sem gerir manninn svona sérstakan er nú ekkert nýtt og áreiðanlega margir búnir að reyna að útskýra allt sem okkur viðkemur á missniðugan hátt. Allskyns kenningar og félagsfræði og mannfræði og líffræði og svo framvegis og svo framvegis, en afhverju komumst við aldrei að sömu niðurstöðu? Afhverju þessi endalausa leit að einum sannleik og vísdóm. Þetta virðist þegar á heildina er litið oft hálfgerður hégómi að reyna alltaf digurbarklega að skella fram einhverju og slá því á fast með rökum. Rök eru mjög snjallt fyrirbæri, það er jú samt galli þeirra að jafnframt sem þeim tekst að sanna eitthvað er alltaf hægt að afsanna það og þvæla því fram og tilbaka. Í lausninni felst ætíð afsönnun hennar og öfugt og uppásnúið. Eini fasti sannleikurinn hlýtur því bara að vera í efninu. Það er allaveganna niðurstaðan sem okkar kæru vísindamenn hafa komist að. Og vísindamennirnir sem alltaf reyna að hugsa fyrir okkur hafa komist að þeirri niðurstöðu að best sé að reyna að útskýra manninn út frá efninu enda sé þar sannleikann að finna. En er það hægt, er þetta lokaniðurstaðan endastöðin. Er hægt að skýra manninn og tilvist hans svona billega, já ég segi billega vegna þess að það er tilfinning mín að við séum búin að keyra í strand hvað okkur varðar. Þessi tilfinning mín sem og fjölmargar aðrar sem ég hef ásamt gífurlegri sköpunargáfu og fróðleiksþorsta er núllstillt, gert að engu, ég hef engar tilfinningar ekkert sjálf, engan anda. Ég er einfaldlega þótt ótrúlegt megi virðast bara samansafn af tilviljanakenndum taugaboðum og hormónum og fleiri skemmtilegum þáttum sem hafa markvisst í tilgangsleysi sínu áhrif á tilgangslaust líf mitt í tilviljanakenndum heiminum sem ég lifi í. Það er engum blöðum um það að fletta að svona er þetta, ekki þarf annað en að glugga í “Lifandi vísindi” og svörin eru fundin. Þetta viðmót virðast flestir hafa kokgleypt og eins og ég sagði áðan eru vísindamennirnir búnir að rekja þetta allt upp fyrir okkur. Hugsun okkar skiptir ekki lengur máli, nema þó til að halda uppi skemmtilegum samræðum í yfirborðslegum kokteilboðum og partýum og svo að sjálfsögðu til að geta unnið vinnuna sem við vinnum. Því er haldið fram að hugsun okkar sé einfaldlega dauð, ekkert liggur þar að baki. Jafnvel þörfin fyrir að skapa kenningarnar um okkur, sem kemur beint úr tilgangslausum heilum vísndamannana er ekkert. Þannig eru þeir búnir að gera að engu vinnu sína og spotta sjálfa sig og sköpunargáfu sína. Hvert er stefnan tekin þegar svona drastískar hugmyndir eru innleiddar í frumspeki og mannspeki. Jú við glötum okkur sjálfum, þeim eiginleikum sem gera okkur að manneskjum. Hvað verður um ást, góðvilja, umburðarlyndi ímyndunaraflið og svo framvegis þegar ekkert er lengur gilt, þetta jú hverfur og viðtekur peninga og efnishyggja. Auðvitað erum við ekki öll algjörlega búin að taka þessa lífssýn upp á okkar arma, en hvað með eftir að margar kynslóðir langt fram í tímannn hafa gegnumsýrst af boðskap þessa afls ef svo má segja. Þjóðfélagsbreytingarnar eru of miklar til að henda reiður á og mannfélagið mun ekki bera þess bætur, spurningin er hvort við séum ekki að stíga inn í eilítið dimman dal.

Mig langar ofboðslega mikið að vita allt um manninn og okkur á jörðinni en ég veit ekki hvort ég sé nógu klár til að geta skilið það og ráðið við slíkt fyrirbæri einn en eitt veit ég, ég er nógu klár til að vita að þessi stefnubreyting er ekki til batnaðar fyrir mannkyn. Það er nú ekki eins og við séum nú nógu slæm fyrir. Allur lífsstíll okkar þegar nánar er athugað er oft á tíðum algjör skítur, hvernig lífsstíll okkar er byggður á lygum, hégóma og almennum skít er alveg markvert og jú eins og stóð á verkefnablaðinu “skrýtið”. Við lifum í stanslausri keppni um fallegasta þetta fallegasta hitt og farsælastu afkomuna en gleymum því að hægt er að koma frá hlutunum öðruvísi en með fullar hendur fjár. Við eltumst við óraunhæfa draumóra og tálmyndir. Við ljúgum, (menn eru einstaklega duglegir við það, við hvaða tækifæri sem er) svíkjum, stelum, sýnum skilnings og miskunnarleysi og fordóma. Ég gæti haldið endalaust áfram. Jafnvel næringin okkar, það sem byggir okkur upp jafnt andlega sem líkamlega, er skítur . Maturinn okkar er samansettur af ofurhreinsuðum og aukaefnatroðnum mat sem kappkostað er við að ljúga að okkur að sé góður fyrir okkur og uppbyggjandi á meðan hann fyllir okkur beinlínis af skít, kollinn á okkur jafnframt sem og líkama okkar. Bara viðhorf okkar til ræktunar á fæðuafurðum er bagalegt. Dýrum er misþyrmt og þeim slátrað, eitur og aftur eitur og vafasöm efni eru notað við ræktun matarins og allt þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á okkur sem menn. Og þegar við losum okkur okkur út í náttúruna, þegar við skítum og þegar við deyjum þá leysist þetta úr læðingi allt það mengaða og skítuga sem við innbyrðum, allt þetta er hrein og klár mengun á jörðinni. (Kirkjugarður er seinasti staðurinn þar sem ég myndi rækta gulrót). Við erum að menga jörðina með sjálfum okkur. Það virðist kannski fásinna að lesa svona en spurðu sjálfan þig lesandi; hefur þú einhvern tíma hugsað um þetta á þennan hátt. Áður fyrr þegar fólk lifði ekki í geggjun nútímans og nærðist á tiltölulega “hreinni” fæðu vorum við í fullum samhljóm við náttúruna. Fólk innbyrti ekki þau ógrynni af öllu sem við gerum nú til dags.

Þetta er engin augljós þekking mættu margir eflaust skjóta á mig en hvað er augljóst þegar allir ljúga og þú mátt varla hugsa lengur upp á eigin spýtur? Er það ekki það sem gerir okkur mannleg, það sem gerir okkur “æðri”, hugur okkar og sköpun. Er ekki kominn tími til að hugsa svolítið í staðinn fyrir að innbyrða bara efni, upplýsingar. Fyllast lífi og þrótti í staðinn fyrir dauðyflislegum og úrkynjuðum hugmyndum sem aðrir fundu upp á, börn síns tíma sem draga okkur bara með sér niður í fortíðarmyrkrið. Maðurinn er ávallt að þróast og enginn tími er samur, eins má engin hugsun vera sú sama. Efumst um orð annarra (án þess þó að hella sér út í einhverja sterílíseraða efahyggju) og hugsum, því það er það sem maðurinn snýst um og það er það sem er okkar bjargræði í dimmum dal.


Póstmódernisminn sökkar!