Nýlega hefur farið af stað umræða um rétt samkynhneigðra karlmanna til þess að gefa blóð. Ég ætla í þessari grein að færa fyrir því rök að sá réttur geti ekki verið til. Þessi grein er heimspekilegs eðlis. Ég bið því um það að lesendur sem vilja svara henni haldi sig við umræðu um réttindi og skyldur almennt en ekki um ákveðna þjóðfélagshópa eins og samkynhneigða. Hún fjallar um það hvort samkynhneigðir karlmenn geti haft rétt til þess að gefa blóð - ekki um það hvort þeir ættu að fá að gera það eða ekki.

Hugtökin réttur og réttindi eru að einhverju leyti heimspekileg hugtök; um þau er m.a. fjallað í greinum heimspekinnar eins og siðfræði, stjórnmálaheimspeki og réttarheimspeki (heimspeki laga og lögræði). Við greiningu þessara hugtaka kemur margt athyglisvert í ljós. Margir halda því fram að öll réttindi séu mannasetningar. Aðrir halda því fram að ákveðin grundvallarréttindi séu það ekki, það er að segja þeir halda því fram að til séu réttindi sem við höfum ekki komið okkur saman um heldur hafi maður þau réttindi frá náttúrunnar hendi. Og enginn getur tekið þau réttindi frá manni (þótt auðvitað sé hægt að brjóta á rétti manns). Slík réttindi köllum við mannréttindi. Við segjum að við höfum þau í krafti þess að við erum menn.

Nú hafa hommar á Íslandi lýst yfir óánægju sinni með það að brotið sé á rétti þeirra til að gefa blóð, sumir segja á mannréttindum þeirra. Nú er það ekki markmið mitt í þessari grein að fjalla um homma sérstaklega, heldur aðeins það sem þeir segja um réttindi sín. Ég held nefnilega að þeir geti ekki með nokkru móti haft þau réttindi sem þeir segja aðra vera að brjóta.

Svo að segja allir eru sammála um það að réttindum fylgja skyldur. Það væri vægast sagt undarleg réttarheimspeki sem gerði grein fyrir réttindum án þess að gera grein fyrir skyldum. Ef einhver hefur ákveðin réttindi hvílir til dæmis sú skylda á öðrum að virða þau réttindi. Ef sú skylda fylgdi ekki væri vart hægt að segja að maðurinn hefði nokkur réttindi. Til þess að hafa réttindi verður að vera hægt að brjóta þau. En ef enginn hefur þá skyldu að virða réttindin er ekki hægt að brjóta þau.

Tökum dæmi: Jón hefur réttindin x. Hef ég þá skyldu til þess að virða þau réttindi? Ef ég hef ekki þá skyldu að virða x, þá get ég ekki brotið á Jóni með því að virða ekki x. Jón gæti ekki sagt við mig: “Þú hefur brotið á réttindum mínum”, þegar ég lít framhjá x nema þá aðeins ef ég hefði þá skyldu að virða réttindin.

Gott og vel, réttindum fylgja skyldur. En hvers vegna er ég að minnast á það? Jú, hvaða skyldur fylgja þeim rétti að fá að gefa? Er hægt að skylda nokkurn mann til að virða þau réttindi? Er hægt að skylda mann til að þiggja? Þetta er lykilspurning. Ef einhver hefur rétt til að gefa hlýtur sú skylda að hvíla á öðrum að virða þau réttindi. Og það er einungis hægt að gera með því að þiggja. Því virðist vera að einhver hljóti að hafa þá skyldu að þiggja gjöfina. En ég tel nokkuð augljóst að menn hafi ekki þá skyldu og þess vegna er ekki til neinn réttur til þess að gefa.

Annars mætti alveg eins tína til réttinn til að afþakka og segja að hann vegi upp á móti réttinum til þess að gefa. Ef það eru líka réttindi sem menn hafa þá eru þau sterkari, ef eitthvað er. Við getum hugsað okkur að einhver gefi mér dýra afmælisgjöf en ég afþakki hana. Síðan hefst rifrildi á milli mín og þess sem vill gefa mér gjöfina um það hvort mér beri að þiggja hana. Hvor skyldi nú hafa rétt fyrir sér?

Sem sagt: Ég tel að skyldan til þess að þiggja sé ekki til. Í það minnsta neita ég að ég sé skyldugur til þess að þiggja nokkra gjöf. Og því sýnist mér að rétturinn til þess að gefa sé ekki - og geti varla - verið til. Þar með er ekki brotið á hommum þegar blóðgjafir þeirra eru afþakkaðar. Það er svo annað mál hvort einhver praktísk ástæða er til þess að afþakka blóðgjafir þeirra. En um það ætla ég ekki að ræða hér.
___________________________________