Ætli litirnir væru fleiri ef maður væri með stærri augu? Ætli kettir mali meðvitað eða eru það ómeðvituð viðbrögð þeirra við hagstæðum ytri aðstæðum? Geymir Seðlabankinn ekkert klink?

Slíkum spurningum er ekki auðveldlega svarað, jú - kannski sumum. En það eru sumir karakterar, við þekkjum öll einhvern, sem eru mun meira tilbúnir að spyrja spurninga en aðrir, sama hversu kjánalegar þær eru. Spurningar eru jú ein leið þróunar, önnur leið er stökkbreyting.

Þar sem mannkynið hefur ekki stökkbreyst lengi má leiða líkur að því að þróun hafi að mestu verið við að spurningum hafi verið svarað.
Þetta er alveg æðislegt umfjöllunarefni, þetta er svo afstætt.

Ég tel að fullkomnun sé þegar engin spurning sé eftir ósvöruð, en það leiðir af sér að „þá sé allt mögulegt hægt“.

En hvað finnst ykkur þá um þetta:

Ef fullkomnun er þegar engin spurning sé eftir ósvöruð. Hvað gerist ef enginn spyr, ef engri spurningu er varpað fram? Hvað gerist þegar það er engin spurning?

Þá á engin þróun sér stað. En er fullkomnun náð?
Já. Ég mundi segja að þetta viðfangsefni sé afstætt að því leiti að hugar þeirra sem spyrja eru mis takmarkaðir. Því hafi verið auðveldara fyrir Neanderdalsmenn að ná fullkomnun en fyrir nútímamanninn. Því þeir gátu spurt færri spurninga.

Þetta er s.s. einstaklingsbundið. Þegar öllum þínum spurningum hefur verið svarað þá hefur þú öll þau svör sem þú þarfnast og því er þín tilvera fullkomin – ekki satt?

Hér er náttúrulega ekki verið að tala um að spyrja upphátt einhverrar spurningar, ég er að tala um allan þinn persónulega efa í lífinu, allar spurningar sem poppa upp í hausnum á manni og ástæður baki allra þinna tilfinninga.

Ég er að tala um ástandið sem skapast ef ekki væri hægt að spyrja að neinu því maður vissi öll svörin, eða einfaldlega velur sér að taka hlutunum eins og þeir eru án þess að vilja vita afhverju þeir eru eða afhverju þeir eru eins og þeir eru.

Er þetta tilgangur lífsins? Að svara þeim spurningum sem maður hefur til að nálgast fullkomnun…