Þetta hér fyrir neðan, lítið loðdýr, sem skal skolast niður með vatni, ef það stendur í fólki.

——————————————————————-

Ég hef stundum furðað mig á því hve fáar hugsanir hafa komist á sporbraut sögunnar. Allt þetta fólk, og þal allur þessi aragrúi hugsana! En ég furða mig svo sem lítið lengur. Þær hugsanir sem hafa reynst fleygar, virðast að sama skapi lágfleygar, hinar hafa annað hvort yfirgefið þennan heim og fundið hljómgrunn fyrir handan; hinar villtust af leið og dóu soltnar og hraktar í ókunnum löndum. Þessar hugsanir og hugmyndir má kannski sjá fyrir sér eins og flugdreka í vindi. Fyrir neðan þá eru litlar viðkvæmar mannverur, sem horfa hugfangnir á hreyfingar þeirra og hvernig þeir blakta í vindinum. Það sem mér fannst skrítið var hve fáir flugdrekar fljúga enn. Nóg er fólkið til að halda í spottana.

Það hafa raunar margir orðið til að benda á, að örlög flugdreka þessara er annað hvort að fljúga burt eða lenda á ný. Það er kannski stæðsti sannleikurinn. Eins og blóm hljótum við að seilast í átt að sólinni. Ekki af neinu meðvituðu, nema kannski meðvitaðri réttlætingu eftirá, seilumst við í átt að einhverju fyrir handan.

Einhverri tegund mölflugna er það áskapað, að fljúga í ávkveðna stefnu miðað við sólu eða tungl. Það er víst í eðli þeirra að láta stefnu sína mynda sama horn við ljósið, sem er bjartast hverju sinni. Það er víst af þessum sökum sem hvers kyns vængjuð kvikindi safnast við luktir og ljós eftir að myrkur skellur á. Þar sem ljósgjafinn er svo nærri, þufa þessi vængjuðu skorkvikindi sífellt að leiðrétta stefnu sína til að mynda sama hornið við ljósið. Fyrir mölflugu er ekkert eðlilegra og sannara, og ef til vill ekkert fallegra, en að fylgja þessari stefnu sem býr í eðli þeirra.

Það er athyglisvert hve spíralar eru algengir í náttúrunni. Þetta er dæmi um einn slíkann. Frá okkar sjónarhóli sjáum við mölfluguna fljúga í spíral um lukt eða kerti. Því fleiri hringi sem hún flýgur, því nær færist hún loganum. Þannig hringar mölflugan sig í átt að endalokum sínum og við furðum okkur á þessu fyrirbæri náttúrunnar.

Kannski er það bara ég en mér hefur stundum fundist kaldhæðni spila rullu í grunnstefi tilverunnar. Eins og margir vita þá myndar Vertrarbrautinn spíral. En nú hefur það komið úr kafinu, að í Vetrarbrautinni miðri er ógnarstórt svarthol. Þannig að þegar allt kemur til alls, þá erum við ekki svo frábrugðin mölflugum.

Á endanum endum við öll í gini svartholsins, með öllum blómunum og mölflugunum. Munu flugdrekarnir vera enn á lofti þá? En ég ætla ekki að þykjast vita svarið.

En hvað verður um þær viðkvæmu sálir sem hugsa svona?

Við byrjuðum öll sem flugdrekasmiðir. Ekkert var sannara eða fegurra en þessar ójarðnesku verur sem bylgjuðust yfir höfðum okkar. Hvar fórum við útaf sporinu, hvar hvarf tilgangurinn. Voru það öll brotnu meistaraverkin, sem hröpuðu eins og loftsteinar. Endalaus vinna og alúð, kemur brennandi niður úr gufuhvolfinu. Var það fall þess fegursta sem snerti okkur dýpst? Eða var það köld rökhugsun?

Hvað var það sem dró flugdreka okkar til jarðar?

Í Aldingarðinum var það snákur sem færði okkur eplið; nú fellur það á höfuð okkar fyrir nauðsyn þyngdarafls.

Tapað sakleysi, fallnir draumar eru ekki lengur geymdir til skrauts. Nú sendum við það beint í endurvinnslu. Ekkert hefur gildi lengur og öll meðul helgast af tilgangi. Ekkert hefur tilgang í sjálfu sér lengur. Við lifum af því að okkur dettur ekkert betra í hug. Líf okkar er nútíma list, það er frjálst frá hverskonar dómum og viðmiðum. Við sitjum uppi með tilgangslausan óskapnað. Við erum verk okkar sjálfra.

Flugdrekar eru ekki legur gerðir til flugs. Flugdrekar á flugi eru gamaldags og lágkúrulegir. Aðeins fyrir börn, andlega skerta draumhuga og aðra bjána. Flugdrekar eru nú hugsaðir sem óhlutbundin fyrirbæri. Að láta þá fljúga er hlægilegt, gróft og hjákátlegt.

Við sitjum á ruslahaugi fortíðarinnar. Því að allt gamla draslið er ónýtt í hinum nýja heimi. Allt er breytt og viðmiðin fallin úr gildi.

Við föllnu sálir, sem trúum ekki á sál, skulum því hefjast handa við að skrúfa allt í sundur og hluta allt niður í frumeindir sínar. Við skulum svo sitja ein eftir í tóminu og hefjast handa við að brjóta sjálf okkur niður.

Þannig endum við líklega líf okkar í kertaloga.