Hér kemur loðin saga, sem eins og loðnir hlutir, getur staðið í fólki. Besta ráðið við því er að fá sér glas af vatni, og skola því niður með öllum hinum loðnu hlutunum. ;)

——————————————————————-

Í öðrum heimi, í annarri vídd tímans, eru til spörfuglar. Þeir hoppa um greinar trjánna og borða myndir, sem hanga í klösum. Haustið er komið og heimurinn er að hrynja.

Engin þessara mynda eru eins, hver er einstök. Til samans geta þær þó myndað samhengi.

Óttinn er raunveruleikinn, því þeir vita að tíminn nálgast. En óttinn víkur furðu fljótt fyrir tilfinningum sem einkennast af ofsa og þrá.

Smáfuglarnir vilja sjá heiminn í samhengi og hoppa því á milli greina og rífa í sig myndirnar hverja eftir annarri.

Veturinn nálgast og þónokkrir eru farnir að sjá útlínur samhengis, í innibyrgðum myndum. Ofsi þeirra er orðinn augljós, ekkert skiptir máli nema markmiðið, eðli þeirra. Ekkert nema myndir skipta máli. Tilveran eru myndir!

Þeir muna fyrstu daga vorsins, þegar allt var nýtt. En dagar hinna fyrstu mynda, eru nú bara stök mynd, í fjöllum mynda. Þeir læra að taka stakar myndir ekki alvarlega, ekkert er alvarlegt! Markmiðið er aðeins innibyrðing mynda, ein af annari. Stakar myndir eru hlægilegar og hjákátlegar. En sakleysið dó með sumrinu og nú er þetta orðið upp á líf og dauða.

Fuglarnir hættu að syngja fyrir löngu. Þeir hafa ekki tíma til að syngja. Þeir fara snemma á fætur og sofna aldrei fyrir miðnætti.

Svo fór að smáfuglarnir hættu að sofa því markmiðið var í húfi; markmiðið er eðli þeirra.

Þeir hoppuðu um greinar trjánna og borðuðu myndir, sem héngu í klösum.

Og veturinn kom og heimurinn hrundi.

——————————————————————-