Sannleikurinn virðist mér vera kaunum stráður lasarus. Slappari og sannnefndari (orðin bregðast mér hér líka) lasarus er vart hægt að hugsa sér. Þar sem veikari er vart hægt að vera án þess að teljast látinn. Raunar læðist að mér sá grunur að sannleikurinn hafi aldrei lifað. Sé upphaflega þjóðsaga, sem stafar af uppvakningi, sem nefndur var sannleikur, og finnst aðeins í röklegum undraheimum stærðfræðinnar. En er þá allajafna sértekning og ósjálfstæður birtingur af einhverju sem myndi teljast vera.
Sannleikurinn virðist mér tilheyra halelúja og amen.
Það er eflaust að bæta gráu ofan á svart að hætta að trúa á sannleikann, þegar maður er hættur að trúa á guð og allt það sem hefur talist heilagt.
En sannleikurinn virðist mér vera lymskuleg trúarbrögð.
Hvað á svo að taka til bragðs þegar við stöndum yfir legsteinum guðs og sannleikans; sem við reistum um þennan hugmyndadauða? Kannski að setjast niður og skæla soldið, það er allaveganna mannlegt og náttúrulegt, ekki satt?! (Orðin, aftur að bregðast mér, en þú veist hvað ég meina.)
Hvernig getum við svo lifað án sannleika?! Hér er ef til vill kjarni málsins. Tilveran, hver svo sem hún er, virðist ekki hafa neitt með sannleika að gera. Hér er þrautasteinninn sem er erfiðast að komast yfir. Þ.e. ekkert er satt.
Tilveran “ER”, en það hefur ekkert með sannleikann að gera. Miðja alheimsins liggur í meðvitund hverrar meðvitaðrar veru. Við erum gersamlega fangin í eigin veruleika. Við getum ekkert “vitað” með “vissu”, um það sem liggur utan við okkur. Þ.e. einhverstaðar á leið hins skynjaða og skynjunar, er ill- eða ó-brúanlegt gil á milli okkar og heimsins.
Hver tilveran “ER”, byggir því ekki á sannleika; þ.e. hugmynd okkar um veruleikann byggir á samhengi. Þ.e. við leggjum á það, sem er skynjað, einhverskonar röklegt yfirlag, eins og mælikvarða sem notaður er við kortagerð, annars myndum við ekki hafa grænan grun um tengsl kortsins við raunverulegt landslagið. Þetta röklega samhengi byggir á frum-forsendum, er í raun framleiðsla þessara forsenda. Þ.e.a.s. við trúum ákveðnum frum-forsendum, sem er ekki hægt að sanna, og byggjum heimsmynd okkar á röklegu framhaldi þessara forsendna. Við getum t.d. ekki “vitað” hvort annað fólk, er okkar eigið hugarfóstur eða verur á sama hátt og við, við getum ekki “vitað” að það sem við skynjum sé í raun skynjað, þ.e. ekki hugarburður einn.
Sannleikurinn er því aðeins til sem uppvakningur eða draugur, þá á ég við að hann hvílir ávallt á ósönnuðum forsendum. Sannleikurinn virðist blómstra best í sérhönnuðum kerfum, eða klæðskerasaumuðum fötum rökfræðinnar, sem byggir þó ávallt á ósönnuðum frumforsendum.
Af þessu leiðir að rök eru ekki annað en tilbúinn sannleikur, sem byggir á lygi frumforsenda. Samhengið, er samhengi lyga, sem myndar heildstætt kerfi. Þ.a.l. er samhengið “satt” en heildin ósönn, eða ósannanleg, og þ.a.l. marklaust röfl.
Við erum dæmd til að deila um keisarans skegg, sannleikurinn er tálsýn og okkar eina huggun er frá okkur tekin.
Ef ekkert er satt, eða sannanlegt og sannleikurinn þ.a.l. tálsýn; erum við þá dæmd til þeirrar auðvirðulegu iðju að trúa?!
Botninn er dottinn úr öllu, við lifum í “sérstæðu”, þar sem ekkert verður vitað, ekkert er satt og allt er lygi.
Af þessu leiði ég að lífið er lygi.
Ég neita að trúa og neyðist því til að lifa í lygi. Ég mun því gera kaldhæðni að vini mínum og hlæja að því sem er ekki fyndið, því lífið er lygi. Svar mitt við heiminum, er að flagga miðfingrinum framan í heiminn, og segja: Lífið er lygi!