Löngum hafa menn leitað sannleika. Þetta atferli mannkindar hefur stofnað um sig margar glæstar hallir og félög merkra manna. Í gegn um aldirnar hafa hlaðist upp kynstur bóka, eins og sandur í tímaglasi, í himinháar hæðir. Inni í landslagi orða eru fjöll og dalir, vindar og regn. Hér hafa ungir menn orðið gamlir, og mun það verða um eilífð. Hér hafa margir týnt lífi sínu og viti. Allt þetta er ekkert nýtt og allt saman gott og blessað.
En hver nennir að pæla í þessum rykugu flösuspekingum, sem arka án enda. Þeir hafa aldrei fundið neitt annað en lyktina af sjálfum sér. Þeir elta allajafna skottið á sjálfum sér. Sá er merkastur meðal jafningja sem sest niður og efast. Þeir standa svo upp og rölta lítinn spöl, en setjast svo niður aftur á meðan restin rýkur hjá eins og hundar eftir spýtu. Þetta hefur löngum verið svona, og ekki spyrja mig hvers vegna. Predikarinn vissi þetta forðum, en nú er hans von dauður líka. Raunar er það svo að stofnanir helgaðar þessari endaleysu andans, fyllast af mönnum með stöðu, sem gegna hlutverki húsgangna í auðu herbergi. Það þarf eitthvað til að fylla upp í tómið. Þessir menn hafa löngum hlaupið móðir og másandi eftir spýtum sem samtíminn kastaði á víð og dreif. Laun erfiðisins, þegar kraftinn hefur þrotið, að fá að prýða tómar stofnanir. Þar fá þeir að safna gráu skeggi og ryki, með hinum mublunum.
Kannski er þetta bara mín eigin væmni og viðkvæmni. Ég er einn af þessum sem lætur smæstu smáatriði pirra mig. Ég er auðvirðilegur gagnrýnandi. Ég er sá sem spillir og skemmir fyrir hinum. Sumir segja mér að vera ekki að stressa á mér heilann. Það er alveg rétt. Hvað hef ég með það að vera með þessa steypu. “Sit” og “heal” og vertu svo þægur, það er rétt, svo satt. Að þjóna viðmiðum tímans er mér eflaust hollast, uppá að tóra lengur, kransæðarnar og þess háttar. Já ég er skrítinn, ég veit það og ég mun vera það áfram.
Kjarninn er ef til vill sá, að við erum að fylgja einhverju eðli, ekki neinu sem við getum kallað skynsemi. Við erum eins og heimiliskettir sem fara út að veiða. Okkar bíður að kanna tómið. Mér dettur svo sem ekkert betra í hug.
Við leitum að betra gripi á handfangi verkfærisins, sem gaf okkur yfirburðina. Verkfærið sem drap dýrið, eða rotaði það öllu heldur. Við erum enn að veiða bráðina. Við erum enn að glíma við okkur sjálf.
En ég ætla að setjast niður á ný. Ég er farinn að elta skottið á sjálfum mér.