Fyrir upphaf tímatals manna ráfuðu menn um sléttur meginlandana áttavilltir með spjótin sín. Veður var vont og enga bráð að finna. Allt í einu lýstur eldingu í tré og kveikir í því. Frummennirnir horfa á sjónarspilið í forundran og velta því fyrir sér sín á milli hvað ætli hafi orsakað þetta brennandi ljós frá skýjunum. Eftir vangaveltur fram og til baka ákváðu þeir að kannski væri til einhver vera þarna uppi í skýjunum æðri þeim sem bjó til veður, rigningu, eldingar, og kannski jörðina sem þeir gengu á, dýrin sem þeir veiddu, og þá sjálfa.

Þessi dæmisaga er svona í meginatriðum lík þeirri sem ég henti fram í ritgerð um trúarbrögð í framhaldsskóla. Þessi saga endurspeglar einmitt álit mitt á uppruna trúarbragða og þróun þeirra fram á daginn í dag.

Mannskepnan hefur frá upphafi þróunar sinnar leitast við að fá svör við öllum þeim spurningum sem henni hefur hugkvæmst. Hvað er handan við sjóndeildarhring? Maðurinn athugaði það og til urðu landkönnuðir og fólkið dreifðist um jörðina. Hvernig kemst ég yfir vatnið? Maðurinn smíðaði bát og sigldi um öll heimsins höf. Hversvegna breytist veðrið? Hvaðan kemur eldingin? Hversvegna deyja sumir en aðrir ekki? Hvað er ég að gera hér? Maðurinn leitaði að þessum svörum og fann fæst þeirra, en með því að ímynda sér tilvist einhvers æðra, guðlegs, þá gat hann búið til flest svörin sjálfur.

Flestum þykir nú óþægilegt að hugsa til þess að við byggjum þessa jörð án sérstakrar ástæðu, að engin sé til að halda um tilvist okkar og veita trú þeirra viðtöku.

Trúarbrögð eru gott veganesti í uppeldi manneskju og sannast það sjálfsagt best í boðorðunum tíu í kristinni trú sem útlista í fáum orðum góða hegðun gagnvart náunganum, boðorð sem finnast einnig í öðrum trúarbrögðum.
Trú mann hefur gert viðkomandi að betri manni og verið haldstrá í erfiðleikum.
En trú getur einnig eitrað huga manna og blindað í skoðunum gagnvart og samskiptum við náungann. Stríð hafa geysað vegna trúarbragða og geysa enn. Kyn, Kynþættir, þjóðir, einstaklingar hafa verið látnir afskiptalausir, kúgaðir, drepnir í nafni trúarbókstafsins.

Trúarbrögð er ekki hægt að skipta í flokkana gott eða slæmt, hugtakið er of víðfemt. Sumir gera þó svo og fara jafnvel eins langt í þá átt og þeir komast, slíkir menn kallast í daglegu tali ofstækismenn og blinda sjálfa sig með sannfæringu sinni. En eru trúarbrögð leið til að réttlæta veru okkar hér eða eru þau blekking hvað það varðar? Er guð sá sem skapaði jörðina, heiminn og manninn sem í honum býr á sjö dögum?

Sumum spurningum mun maðurinn aldrei fá svar við. sumum þessara spurninga þykist maðurinn hafa svarað nú þegar, eða búið svör til við. Spurningin er hvort sum þessi svör hafi leitt manninn í ranga átt?

Sjálfur er ég trúlaus. Ég skoða trúarbrögð frá sögulegu sjónarmiði, heillast af sumur þáttum trúar og leggst gegn öðrum. Fyrir mig er trú ekki svar við mínu lífi. Fyrir mér eru trúarbrögð, guð og guðlegar verur uppfinning mannsins.

En mér eins og öllum öðrum í þessum heimi getur skjátlast, ég get ekki svarað þeirri spurningu um það hvort guð sé til með sönnu svari. En ég lít á það sem svo í dag að það góða í manninum samsvari guði eða satan eða öðrum myndum þeirra í fleiri trúarbrögðum, eins og flest trúarbrögð hafa myndgert innræti okkar. Mér gæti auðvitað skjátlast, og mun ég þá viðurkenna það þegar sá tími kemur.

ZOrglu
—–