Núna fyrir um það bil 10 sekúndum sat ég uppí rúminu mínu og datt ekki rassgat í hug sem ég gæti skrifað um. Síðan varð mér litið á fjarstýringuna að forlátu Pioneer græjunum mínum og fór að velta einu fyrir mér: “Til hvers í andskotanum er “eject” takki á fjarstýringum?!” Þetta meikar bara alls ekkert sens. Ég meina, fjarstýring er tæki sem var fundið upp til að geta stýrt hinum ýmsu hlutum úr fjarlægð. Það gerir ekkert gagn að geta ejectað disknum úr græjunum því að þú þarft hvort sem er að standa upp til að skipta um helvítis disk! Nú hugsar þú kannski: “Jah, kannski er hann ekkert langt í burtu, kannski er hann bara rétt hjá græjunum.” Þá spyr ég: “Til hvers í andskotanum er hann þá að nota fjarstýringuna?”

Við getum náttúrulega líka litið á tímasparnaðar-hliðina á þessu. Þeim hvimleiðu sekúndum sem líða milli þess að þú ýtir á “eject” takkann á græjunum og þangað til að diskurinn er að fullu kominn út gæti kannski verið betur varið, þú gætir losnað við þessa bið. Þú einfaldlega skipuleggur ferðina yfir herbergið með því að smella á takkann á fjarstýringunni áður en þú stendur upp, labba svo yfir herbergið og viti menn, þegar þú kemur á leiðarenda bíður diskurinn eftir þér, heitur og ilmandi úr spilaranum. Þrátt fyrir að vera gríðarlegur tímasparnaður efast ég samt um að þetta réttlæti það að bæta við einum (jafnvel tveimur ef minidisc spilari er fyrir hendi) tökkum á nú þegar takkafullar fjarstýringarnar.

Niðurstaða: Það er enginn tilgangur með þessu, bölvaður sé þessi takki.

- grein sem ég skrifaði á Webbinn (www.webburinn.cjb.com), blessuð sé minning hans. Vissi ekkert hvert ætti að setja þetta svo ég setti það á heimspeki, enda er þetta að vissu leyti heimspeki :)

Zedlic