Sókrates: Segðu mér Þeætetos, þekkir þú nokkuð hann Ekkekrates?
Þeætetos: Nei, Sókrates, ég hef aldrei heyrt minnst á hann.
Sókrates: Gott og vel! En geturðu þá sagt mér í staðinn hvaðan hann kemur?
Þeætetos: Vitaskuld ekki, Sókrates, því ég veit ekki hver maðurinn er.
Sókrates: Áttu við að þú getir ekki sagt mér hvaðan hann Ekkekrates er nema þú vitir fyrst hver hann er?
Þeætetos: Já, Sókrates, það er einmitt það sem ég á við.
Sókrates: Og ég býst við að þú segðir það sama um alla aðra hluti, að þekki maður ekki hlutina er manni ómögulegt að segja til um uppruna þeirra. Eða er ekki svo?
Þeætetos: Það veit Seifur!
Sókrates: En er því ekki eins háttað með skylduna sem þú talar um?
Þeætetos: Hvernig þá?
Sókrates: Ég á aðeins við það eitt, Þeætetos minn, að líkt og þú getur ekki sagt mér hvaðan hann Ekkekrates kemur þar eð þú veist ekki hver maðurinn er, geturðu heldur ekki vitað hvaðan skyldan er upprunnin fyrst þú veist ekki hver þessi skylda er.
Þeætetos: Já, svo virðist vera.

Eitthvað á þessa leið get ég ímyndað mér að ein andmælin frá Platoni hefðu hljómað hefði honum verið skýrt frá markmiði Christine Korsgaard með kenningu sinni um siðferðilega skyldu.(1) Korsgaard, sem er siðfræðingur af kantísku hefðinni, er það hugleikið að réttlæta siðferðið og setja fram sannfærandi greinargerð fyrir uppruna siðferðilegrar skyldu. Það er ekki takmark hennar að telja upp hverjar skyldur okkar eru, heldur sýna fram á það að við höfum raunverulegar skilyrðislausar, siðferðilegar skyldur. Þessum andmælum hér að ofan, sem ég hef klætt búningi platonskrar samræðu, er auðsvarað (þótt ég láti það ógert) en með því er ekki sagt að kenning Korsgaard sé laus við allan vanda. En kenning hennar er þrautfáguð og virðist við fyrstu sýn nokkuð sannfærandi. Það eru í það minnsta ekki augljósir gallar á henni. Hér verður leitast við að gera grein fyrir helstu atriðum þessarar kenningar með sérstöku tilliti til hugmyndarinnar um hlutverk, sem eru helsta og langsamlega athyglisverðasta nýmæli Korsgaard í kantískri siðfræði. Þá verður hugað að nokkrum vandkvæðum við þá viðbót og hvort tilgangi Korsgaard sé í raun náð með henni.


I.
Áður en lengra er haldið verður að segja nokkur orð um þann vanda sem Korsgaard hyggst leysa. Annars vegar ræðir hún um þann vanda sem allar siðfræðikenningar verða að kljást við. Þennan vanda nefnir hún “the normative question”; forskriftarvandann gætum við ef til vill sagt á íslensku. Siðferðið er nefnilega í einhverjum skilningi forskrift að hegðun. Og það krefst þess af okkur að við breytum í samræmi við þá forskrift. En með hvaða rétti er þess krafist? Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að fara eftir þessum reglum þegar það kemur sér vel fyrir mig að gera það ekki? Hér nægir ekki, að mati Korsgaard, að útskýra hvers vegna fólk fer eftir reglunum sem siðferðið setur þeim, t.d. með tilvísun til einhverra sálfræðilegra þátta.(2) Það nægir ekki að segja: “Ástæðan fyrir því að þú átt að segja sannleikann er sú að það samræmist siðferðishugmyndum þínum”, því sá sem spyr hver vegna hann ætti að segja satt er einmitt að draga siðferðishugmyndir sínar í efa. Það sem þarf er réttlæting á siðferðinu, þ.e. svar sem nægir til að fullvissa þann sem efast um hvort hann þurfi í raun og veru að breyta rétt, um að hann þurfi í raun og veru að breyta rétt. Forskriftarvandinn er því spurning um réttlætingu. Þennan vanda vill Korsgaard leysa með siðfræði í anda Kants.

Þá er komið að öðrum vanda sem Korsgaard er að reyna að leysa. Hún telur að siðfræði Kants, þó svo að hún sé í mörgum meginatriðum rétt, sé ábótavant. Hana þarf að lagfæra ef vel á að vera. En hver er nákvæmlega vandinn við siðfræði Kants? Korsgaard telur að rök Kants dugi ekki til að réttlæta siðferðið, þau nái einungis að sýna fram á að skilyrðislausa skylduboðið bindi vilja manns en ekki að manni beri að líta á sig sem þegn í ríki markmiðanna.(3) Og til þess að laga þetta kynnir hún til sögunnar hugmyndina um hlutverk (practical identity, role).(4)


II.
Greinum seinni vandann örlítið betur. Útgangspunktur Korsgaard er mannleg meðvitund. Við erum meðvitaðar verur, ekki bara um heiminn heldur einnig um okkur sjálf. Við erum meðvituð um að við höfum meðvitund. Þetta þýðir að þegar langanir og hvatir verða til hjá okkur getum við hafið okkur yfir þær, ef svo má að orði komast, og spurt okkur hvort þessi ákveðna hvöt eða löngun sé raunverulega ástæða til breytni eða ekki. Á sama hátt getum við spurt um ákveðnar skynjanir hvort þær séu raunverulega ástæða til að trúa. Og eftir íhugun föllumst við annað hvort á að gera hvatir okkar og langanir að ástæðum til breytni eða ekki. Þetta kallar Korsgaard að veita ígrundaðan stuðning (reflective endorsment). En við þurfum að velja og viljinn getur ekki valið án ástæðu. Og það er rót vandans.

Næst segir Korsgaard að viljinn sé frjáls vegna þess að við getum ekki hugsað okkur hann á annan hátt.(5) Jafnvel þótt löghyggja sé sönn er viljinn samt frjáls. Ef allt sem við gerum er fyrirfram ákvarðað gætum við alveg eins staðið kyrr og beðið eftir því að það komi í ljós hvað við gerum næst. Og við gætum beðið til eilífðarnóns án þess að nokkuð gerðist, nema þá að við ákvæðum að gera eitthvað. En þá værum við að ákveða að gera eitthvað (jafnvel þótt sú ákvörðun væri líka fyrirfram ákvörðuð).

Viljinn er því frjáls og ekkert utanaðkomandi getur haft áhrif á hann. Hvatir og langanir eru utanaðkomandi og mega því ekki hafa áhrif á viljann. En viljinn er orsök athafna og verður því að samræmast einhverjum lögum.(6) Hann þarf ástæður til breytni. Ástæður eiga rætur að rekja til reglna. En utanaðkomandi reglur og lög er ekki hægt að þvinga upp á viljann svo Kant ályktaði að viljinn yrði að hafa sína eigin reglu, sín eigin lög.(7) Og það vill svo til að þetta er einmitt það sem skilyrðislausa skylduboðið segir: Breyttu einungis eftir þeirri viljareglu sem þú getur viljað að verði almenn lög. Í raun segir skilyrðislausa skylduboðið samt afar lítið því það segir aðeins það eitt að maður skuli breyta eftir lögum. En það er það eina sem viljinn þarf til að vera vilji, lög. Og því hlýtur skilyrðislausa skylduboðið að vera lög frjáls vilja. “Það lýsir því”, segir Korsgaard, “sem frjáls vilji verður að gera til að vera það sem hann er”.(8)

En þar sem skilyrðislausa skylduboðið segir ekkert meira en þetta telur Korsgaard ótímabært að hætta. Enn er eftir að sýna fram á að menn hafi siðferðilegar skyldur.


III.
Það að meðvitund okkar er eins og hún er veldur því að við höfum ákveðna sjálfsmynd. En sjálfsmynd okkar er ekki ein heilsteypt mynd heldur margþætt; hvern þátt sjálfsmyndar okkar má líta á sem hlutverk. Það veltur margt á því hvernig við lítum á sjálf okkur því í öll þessi hlutverk eru innbyggðar mismunandi skyldur. Ég er t.d. íslenskur ríkisborgari, námsmaður, sonur, bróðir, vinur og þar fram eftir götunum. Auðvitað hef ég aðrar skyldur sem íslenskur ríkisborgari en ég hef sem nemandi. Sem nemandi hef ég þá skyldu að fara eftir reglum skólans, hvort sem þær kveða á um að mér beri að sækja fyrirlestra, ljúka námskeiðum með prófum eða neyta ekki matvæla í kennslustofum. Sem íslenskur ríkisborgari ber mér að sjálfsögðu ekki að fara eftir reglum Háskóla Íslands heldur landslögum. Og sem bróðir hef ég vitaskuld þá skyldu að stríða systur minni reglulega en vera góður við hana þess á milli. Mér rennur blóð til þeirrar skyldu. Aðalatriðið er það að hlutverkum fylgja skyldur. Meira að segja jólasveinninn hefur þá skyldu að gefa börnunum í skóinn, að minnsta kosti góðu börnunum. Óþekktarormarnir skilst mér að fái reyndar eitthvað líka. En það mun vera úldin kartafla og annað ekki.

Sum þessara hlutverka veljum við okkur en um önnur fáum við engu ráðið. Ég hef valið að gerast nemandi en ég er fæddur Íslendingur og get lítið í því gert. Þetta er reyndar slæmt dæmi því ég gæti flutt til Noregs og gerst norskur ríkisborgari. Og þar sem ég hef ekki gert það ennþá hef ég í raun réttri valið að vera Íslendingur áfram. Ég fæddist líka drengur og ég efast um að ég geti breytt því, þrátt fyrir allar aðgerðir sem hægt er að gera. Í fréttum Skjás eins var nýlega sagt frá stúlku einni í Suður-Ameríku sem hafði ákveðið að láta breyta sér í kú. Hún hafði látið húðflúra sig alla og beið spennt eftir næstu aðgerð. Ég skal kalla hana Kusu ef það gleður hana. En hún er stúlka og ekki kýr. En hvað um það. Sum hlutverk fáum við engu um ráðið.

Þegar við bregðumst þessum skyldum sem fylgja hlutverkum okkar stofnum við hlutverkunum í hættu. Ef ég svindla á prófi get ég átt það á hættu að fá ekki lengur að stunda nám við skólann. Það er svo sem ekkert tiltökumál ef ég hef ekki lengur áhuga á náminu. Svo stangast skyldur oft á og þá getum við þurft að velja hvoru hlutverkinu við viljum falla frá. Eitthvert hlutverk verðum við þó að hafa því annars gætum við ekki haft neina ástæðu til athafna.(9)

Þá er stóra spurningin sú hvort eitthvert eitt hlutverk sé þannig að við getum ekki hafnað því. Við þörfnumst hlutverka til að geta haft ástæður til athafna og til að lifa yfirleitt. En þessa einu ástæðu, ástæðuna fyrir því að við þurfum að taka að okkur einhver hlutverk, er ekki hægt að rekja til neins hlutverks af því tagi sem ég hef rætt um; hún verður aðeins rakin beint til þeirrar staðreyndar að við erum mannskjur.(10) Hún stafar af því að við erum hugsandi verur sem þarfnast ástæðna. Þess vegna segir Korsgaard að til þess að geta haft mætur á nokkrum sköpuðum hlut verðum við að hafa mætur á mannkyninu, mannúðinni. Án þess að gefa mannúðinni gildi gætum við ekki viðurkennt tilvist verklegrar skynsemi (practical reason) og hefðum engar ástæður til athafna.(11) Svo að til þess að geta yfirhöfuð haft mætur á einhverju neyðumst við til að hafa mætur á mannúðinni. En mannúð hvers? Okkar sjálfra? Já. En annarra?

Ein mótbáran gegn Korsgaard á þessu stigi málsins er í anda Hobbes. Hann hélt því fram einstaklingar væru í sínu innsta eðli eigingjarnir og að hvaðeina sem menn gerðu gerðu þeir í eigin þágu. Homo homini lupus á hann að hafa sagt.(12) Nú er auðvelt að hafna Hobbes þegar hann segir að hvaðeina sem maður geri geri maður í eigin þágu. Því hann gefur sér það sem hann ætlar að sanna. En Korsgaard fer nokkra krókaleið að því að hafna honum. Í leiðinni rökstyður hún, með hjálp frá Wittgenstein, að ástæður séu ekki einstaklingsbundnar. Með öðrum orðum hefur maður ekki sínar eigin einkaástæður til athafna frekar en hægt er að hafa sitt eigið einkatungumál sem ekki er hægt að tjá öðrum, sem er ómiðlanlegt. Þannig slær hún tvær flugur í einu höggi því hún vill líka andmæla öðrum ný-kantistum sem reyna á þessum forsendum að sýna fram á að maður sé knúinn til að viðurkenna gildi annarra einstaklinga. Maður gæti haft sínar einkaástæður og játað að aðrir hefðu á sama hátt sínar ástæður án þess að neyðast til að taka þær til greina. En Korsgaard fullyrðir á hinn bóginn að ástæður séu almennar en ekki einstaklingsbundnar.(13) Þetta verður til þess að við neyðumst til að taka aðra til greina. Ástæður þeirra öðlast svipaðan sess og okkar eigin hvatir og langanir.(14)

Nú hefur Korsgaard sýnt að við erum knúin til að viðurkenna að aðrir eru líka menn eins og við sjálf. Þar með hefur hún gefið okkur ástæðu til að hafna ýmsum hlutverkum, það er að segja þeim sem stangast á við hlutverk okkar sem manneskjur - ekki bara okkar eigin heldur okkar allra. Árekstrar hlutverkanna eru af tvennu tagi.(15) Sum hlutverk stangast í grundvallaratriðum á við hlutverk okkar sem manneskjur. Öllum slíkum hlutverkum verður að hafna. Dæmi um slíkt hlutverk er leigumorðingi. Önnur hlutverk stangast á við hlutverk okkar sem manneskjur af og til en grafa undan því. Þeim þarf ekki að hafna. Eitt slíkt hlutverk gæti verið hlutverk læknis. Það stangast ekki á við hlutverk okkar sem manneskjur, þvert á móti. En í heilbrigðisgeiranum er sægur af siðfræðilegum vandamálum og ekki erfitt að ímynda sér að skyldur læknisins geti í einhverjum tilfellum rekist á við skyldur hans sem manneskju.


IV.
Í stuttu máli felst það í kenningunni að mannleg meðvitund er þannig gerð að hún vekur upp forskriftarvandann, vandann um réttlætingu siðferðisins. Menn hafa frjálsan vilja en sjálfræði viljans er uppspretta skyldunnar. Skilyrðislausa skylduboðið er lög hin frjálsa vilja en það segir þó aðeins það eitt að hann verði að fara eftir einhverjum lögum. Meira segir það ekki. Sjálfsmynd okkar samanstendur af ýmsum hlutverkum sem gera okkur kleift að hafa ástæður til athafna og viðurkenna að ýmislegt hefur gildi. Öll þessi hlutverk hvíla hins vegar á hlutverki okkar sem manneskjur. Ef við ætlum að hafa ástæður til athafna og til að lifa yfirleitt þá verðum við að viðurkenna gildi mannúðar, okkar eigin og annarra.


V.
Þess má geta að hugmyndin um hlutverk er ekki ný af nálinni í siðfræði. Hún þekkist m.a. úr dygðafræði þó ekkert mikið sé gert úr henni þar. En hana er eigi að síður að finna þar og má rekja allt aftur í klassíska fornöld. Þegar það á að útskýra hvað dygð er, t.d. fyrir nýnemum í heimspeki, er sígilt að taka dæmi um hníf. Dygð hnífs (eða ágæti hans) er gott bit. Það er það sem gerir hann að góðum hníf. Gott bit er hins vegar ekki dygð hamars, enda er hlutverk hamarsins ekki það sama og hnífsins. Þetta eru afar einföld dæmi en þau sýna svo ekki verði um villst að hlutverkum geta fylgt dygðir rétt eins og skyldur. Lítum á hlutverk í skilningi Korsgaard, hlutverk sem við mennirnir tökum að okkur. Að vera kennari er eitt hlutverk. Því fylgja ákveðnar dygðir, rétt eins og skyldur, sem eru frábrugðnar dygðum og skyldum annarra hlutverka. Dygðir kennarans geta t.d. verið réttlæti sem birtist í því að kennarinn gefur nemendum einkunnir eftir því hvernig þeir hafa staðið sig og fer ekki í manngreinarálit; og umhyggjusemi sem gæti birst í því að kennarinn hækkaði nemanda upp sem verðskuldar hærri einkunn en hann náði á prófi. Skyldur kennarans eru allt aðrar. Kannski er þeirra á meðal sú skylda að sitja leiðinlega fundi í leiðinlegum nefndum. Að vera slökkviliðsmaður er annað hlutverk og því fylgja aðrar skyldur en kennarahlutverkinu. Ég veit ekki betur en að slökkviliðsmenn séu lausir við kennsluskyldu. En það fylgja líka aðrar dygðir. Hugrekki er dygð slökkviliðsmanns, ekki kennara. Ég er alls ekki að halda því fram að kennarar geti ekki verið hugrakkir, heldur aðeins það að starf þeirra væntir þess ekki af þeim.

Það er umhugsunarvert hvort ef til vill séu til hlutverk sem fylgja dygðir en engar skyldur. Hvað með hlutverk rakara? Hefur hann skyldur sem eru sérstakar fyrir hans hlutverk? Hann getur ekki verið sagður hafa þá skyldu að raka menn; það er bara hlutverk hans. Auk þess gæti rakari hæglega vísað kúnna frá. Og hann hefur svo sannarlega ekki þá skyldu að raka alla mennina í þorpinu sem raka sig ekki sjálfir.

Nú væri hægt að mótmæla mér og segja að ég legði meiri áherslu á að hlutverk hafi skyldur sem eru sérstakar fyrir það en að hlutverk hafi sérstakar dygðir. Mörg önnur hlutverk hafa t.d. sömu dygðir og kennarahlutverkið, í það minnsta einhverjar þeirra eins og t.d. umhyggjusemi sem gæti einnig verið dygð hjúkrunarfræðings eða fóstru eða réttlæti sem gæti verið dygð héraðsdómara eða dómara í knattspyrnuleik; og hvers vegna ætti þá ekki rakari að geta haft skyldur sem eru sameiginlegar öðrum hlutverkum, eins og hlutverki nuddara eða hvers sem vera skal. Það er engin ástæða fyrir því en spyrja má eftir sem áður, hversu vel reiðir okkur af án þess að flækja málið með skyldum, en með dygðirnar einar að vopni? Ég verð að kannast við að efasemdir læðast að mér í ljósi þess að til grundvallar liggur kantísk spurning og það gefur augaleið að við henni er svar kantista besta svarið.

Hugleiðum samt í þessu sambandi greinarmun Kants á takmörkuðum og ótakmörkuðum skyldum.(16) Ótakmarkaðar skyldur hjá Kant eru skyldur sem eru nauðsynlegar og leyfa engar undantekningar. Brot gegn slíkum skyldum felur í sér röklega mótsögn. Það er því ekki hægt að hugsa sér viljareglu sem felst í því að brjóta gegn slíkri skyldu frekar en það er hægt að hugsa sér ferhyrndan þríhyrning. Kant tekur sem dæmi að það sé ótakmörkuð skylda sérhvers manns gagnvart sjálfum sér að svipta sig ekki lífi en gagnvart öðrum að halda loforð. Takmarkaðar skyldur leyfa hins vegar undantekningar. Það felst ekki rökleg mótsögn í því að brjóta gegn takmarkaðri skyldu þó það feli í sér viljamótsögn. Hér eru dæmin að rækta hæfileika sína, sem Kant segir vera takmarkaða skyldu manns gagnvart sjálfum sér; og að vera hjálplegur sem er takmörkuð skylda okkar gagnvart öðrum.

Hversu mikið skilur á milli dygðar og takmarkaðrar skyldu? Báðar leyfa þær undantekningar í einstökum tilvikum. Bíðum við, ég er að gefa mér að hér sé stigsmunur en ekki eðlismunur. En er raunverulega hægt að segja að það sé eðlismunur á hjálpsemi sem dygð og hjálpsemi sem takmarkaðri skyldu? Í hverju ætti sá munur svo sem að vera fólginn?

Sagnaritarinn Lívíus (59 f. Kr. - 17 e. Kr.), sem ritaði um sögu Rómar frá stofnun borgarinnar, segir skemmtilega sögu af Hóratíusi Koklesi sem stóð fastur fyrir á lítilli hengibrú og varðist áhlaupi etrúrska hersins, og varði þannig einu leiðina inn fyrir borgararmúrana, á meðan félagar hans tveir hömuðust við að skera á festingar brúarinnar svo að óvinurinn kæmist ekki yfir.(17) Hann gerði skyldu sína og varði borgina; aðrir tóku til fótanna. Hvort er nú Hóratíusi betur lýst sem skylduræknum hermanni eða hugrökkum (dygðugum)?

Dygðir og skyldur eru ólíkar; það er ekki ætlun mín að halda því fram að á þeim sé enginn munur. Ég vildi aðeins láta í ljós örlítinn efa um það að munurinn sé jafn skýr og greinilegur og hann virðist við fyrstu sín.

En snúum okkur aftur að hlutverkum. Sub sola nihil novi est. Hugmyndin um hlutverk er ekki aðeins til í dygðafræðinni heldur einnig hjá Kant sjálfum. Raymond Geuss fer mörgum orðum um það að Kant hafi ekki rætt um nein hlutverk í siðfræði sinni.(18) En hann hefur samt hugmyndina um hlutverk (þótt hann noti ekki orðið). Hana er bara ekki að finna í skrifum hans um siðfræði og því hefur Geuss að nokkru leyti rétt fyrir sér. En hana er engu að síður að finna hjá honum, t.d. í greininni “Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?”(19) Þar ræðir Kant m.a. um upplýsta þjóðfélagsumræðu. Hann tekur dæmi af presti sem skrifar um málefni kirkjunnar í blöðin. Presturinn gagnrýnir stefnu kirkjunnar opinberlega. Og það er ekkert að því. En í messunni er ætlast til þess af prestinum að hann tali í nafni kirkjunnar og stefnu hennar. Það líðst ekki að hann grafi undan kirkjunni í messu. Það mætti segja að það sé innbyggt í hlutverk presta að þeir prediki í samræmi við stefnu kirkjunnar. Kant notar ekki sjálfur orðið “hlutverk” en það er sama. Sú er hugsunin.


VI.
Hvort sem hugmyndina um hlutverk er að finna hjá Kant eða ekki er alveg ljóst að hún gegnir mikilvægara hlutverki hjá Korsgaard. Hún gegnir reyndar alls engu hlutverki hjá Kant (kenningar hans velta á engan hátt á henni) en hún gerir það hjá Korsgaard. Þá er tímabært að spyrja hvort tilganginum sé náð með viðbótinni. Við fyrstu sýn virðist kenning Korsgaard nokkuð sannfærandi. Það eru engir augljósir gallar á henni. Þó er eitt og annað sem orkar tvímælis.

Til þess að geta metið gildi nokkurs skapaðs hlutar þarf maður að kunna að meta gildi mannúðarinnar sjálfrar. Hún er uppspretta allra ástæðna til athafna og allra gilda. En hvað gerist ef við breytum á þann hátt sem grefur undan mannúð okkar, sem brýtur gegn skyldum okkar sem manneskjur? Við hættum þá að hafa ástæðu til að gefa okkar eigin lífi gildi. En er ómögulegt að maður nái sér eftir eitthvert ódæðisverk? Hvað með leigumorðingja sem hættir í starfi og sest í helgan stein? Hann er nú orðinn gamall maður og íhugar hvernig hann hefur lifað lífinu. Hann kemst að því að hann hafi valið sér ranga starfsgrein og sér eftir öllu saman. Er ekki mögulegt að maðurinn nái sér, læri að meta gildi lífsins eða öllu heldur gildi mannúðarinnar? En ef það er mögulegt, hvers vegna ættum við þá að gera eins og skyldan býður okkur þegar það hentar okkur að gera eitthvað annað? Við vitum að við munum jafna okkur. Þessu verður Korsgaard helst að geta svarað því út á þetta ganga aðal rökin hennar. Ef við breytum ósiðlega hættum við að vera þær manneskjur sem við erum. Við töpum sjálfum okkur.

Korsgaard segir á einum stað:
When an impulse - say a desire - presents itself to us, we ask whether it could be a reason. We answer that question by seeing whether the maxim of acting on it can be willed as a law by a being with the identity in question. If it can be willed as a law it is a reason, for it has an intrinsically normative structure. If it cannot be willed as a law, we must reject it, and in that case we get obligation.(20)

Með öðrum orðum getur löngun verið ástæða til athafna ef hægt er að vilja að viljareglan sem felst í því að breyta samkvæmt henni verði almennt lögmál. Ef ekki höfnum við lönguninni og þá fáum við skyldu, þá skyldu að breyta ekki eftir lönguninni. Þetta er aðhaldsskylda. En ef allar skyldur eru af þessum toga, eru þá engar verknaðarskyldur?

Korsgaard gæti svarað þessu svona: Ímyndaðu þér mann sem er að drukkna. Spurðu sjálfan þig hvort þú getir viljað að það yrði almenn lög að koma honum ekki til hjálpar. Ef ekki verður að hafna þeirri löngun að neita manninum um hjálp og sú skylda hvílir á þér að gera það ekki. Það er að segja þú hefur þá skyldu að neita honum ekki um hjálp. Þess vegna verður þú að hjálpa manngreyinu. Og þetta er verknaðarskylda.

Það er ekki alveg ljóst hvers vegna viljinn verður að samræmast einhverjum lögum einungis vegna þess að hann er orsök athafna, eða til þess að vera yfirhöfuð vilji. Thomas Nagel bendir á þetta og spyr hvers vegna sjálfráður vilji ætti ekki alveg eins að geta ákveðið sig með einstökum ákvörðunum eins og með hliðsjón af lögum.(21)

Svar Korsgaard er á þá leið að við þurfum ástæður til athafna og þegar við veljum að framkvæma einhverja ákveðna athöfn, undir einhverjum ákveðnum kringumstæðum, gerum við það því af einhverri ástæðu. Þegar við lendum seinna í svipuðum aðstæðum síðar getum við notað sömu ástæður. Þannig felur hver athöfn á vissan hátt í sér reglu um breytni. En þá má spyrja áfram hvort við þurfum endilega að nota sömu ástæður aftur? Korsgaard sýnir að við getum það og þar með að við getum myndað okkur reglur og sett okkur sjálfum lög. En hefur hún sýnt að við þurfum að gera það?


VII.
Nú hafa verið reifuð nokkur þeirra andmæla sem komið hafa fram við kenningu Korsgaard, þó ekki öll. Sumum þeirra er auðsvarað en önnur kunna að reynast Korsgaard mun erfiðari viðfangs. Einkum þó þau andmæli að Korsgaard hafi ekki náð að sýna fram á að nauðsynlegt sé fyrir viljann að setja sér lög. Þetta er grundvallaratriði í kenningunni. Þá skiptir það einnig höfuðmáli fyrir Korsgaard að fallist sé á að ef við breytum ósiðlega töpum við sjálfum okkur og hættum í einhverjum skilningi að vera þær manneskjur sem við vorum.

Ég reyndi að ýja að því hér að ofan að hugmyndina um hlutverk væri að finna þegar hjá Kant. Hann nýtti sér hana þó ekki í siðfræði sinni líkt og Korsgaard gerir. Ætli Kant hefði sjálfur gert slíkt hið sama hefði það hvarflað að honum? Ætli hann hefði tekið þessari nýjung fagnandi? Því er ómögulegt að svara. En eitt er víst, tilraun Korsgaard er stórgóð hvort sem menn sannfærast af henni eða ekki.

_______________________________________________________
(1) Sbr. Korsgaard, Christine, The Sources of Normativity, (Camebridge: Camebridge UP, 1996) bls. 92.
(2) Sbr. Korsgaard, sama rit, bls. 13.
(3) Korsgaard, sama rit, bls. 98-100.
(4) Ég þýði hvort tveggja “practical identity” og “role” með “hlutverk”. Ástæðan er sú að ég hef enga betri þýðingu fundið á “practical identity”. Hugtakið er nokkurn veginn á milli hlutverks og sjálfsmyndar en ekki er hægt að þýða það með “sjálfsmynd” til að forðast að gera orðið “hlutverk” tvírætt. Menn hafa mörg practical idntity, en ekki er hægt að tala um margar sjálfsmyndir. Svo talar Korsgaard líka stundum um sjálfsmynd (self-conception). Þá er mögulegt að tala um siðgervi (moral identity) og raungervi (practical identity) (sbr. orðið “atgervi”) en “raungervi” er of ljótt orð til að ég kæri mig um að nota það. Annars ætti tvíræðni orðsins “hlutverk” ekki að skipta nokkru máli.
(5) Sbr. Korsgaard, sama rit, bls. 94 o.áfr.
(6) “Yet, because the will is a causality, it must act according to some law or other.”, Korsgaard, sama rit, bls. 97.
(7) Korsgaard, sama rit, bls. 98.
(8) Korsgaard, sama rit, sami staður.
(9) Korsgaard, sama rit, bls. 120.
(10) Korsgaard, sama rit, bls. 121. Það er athyglisvert að Korsgaard talar um mannúð (humanity) en ekki mannslíf. Ég neyðist til að nota hér orðið “mannúð” á örlítið sérkennilegan hátt.
(11) Korsgaard, sama rit, 125.
(12) Maður er manni úlfur. Hobbes mun hafa verið að vitna í Plátus sem sagði lupus est homo homini (sama merking), Plaut. Asin. 495. Mér hefur ekki tekist að finna tilvitnuninni í Hobbes stað í ritum hans. Kenning Hobbes er nefnd sálfræðileg sérhyggja (psychological egoism).
(13) Korsgaard, sama rit, bls. 135.
(14) Korsgaard, sama rit, bls. 140.
(15) Korsgaard, sama rit, bls. 126.
(16) Sjá Kant, Immanuel, Grounding for the Metaphysics of the Morals, James W. Ellington (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1993 (3. útg.)) bls. 30 o.áfr. (= Grundl. 422 o.áfr.)
(17) Sjá Liv. II. 10.
(18) Sjá Geuss, Raymond, “Morality and Identity”, Korsgaard (1996) bls. 191-192.
(19) Sjá Kant, Immanuel, “Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing”, Elna Katrín Jónsdóttir og Anna Þorsteinsdóttir (þýð.), Skírnir, 167 (1993) bls. 379-386.
(20) Korsgaard, sama rit, bls. 113.
(21) Nagel, Thomas, “Universality and the reflective self”, Korsgaard (1996) bls. 201-202.
___________________________________