Er synd að vera ánægður með líf sitt? Er það synd að vera hamingjusamur? Ljóst er að það sem langflestir vilja fá út úr lífinu er hamingja en því miður gefst ekki öllum tækifæri á því að öðlast hana. Ástæðurnar eru margar, oft eru það aðstæður sem fólk lendir í án þess að ráða nokkru um það, svo sem búseta, uppeldi, veikindi, félagslegar ástæður o.fl. Önnur algeng ástæða er líka viðhorf. Lífsviðhorf. Hvaða augum fólk horfir á lífið. Það er bara eins og að margir hreinlega skammist sín fyrir að vera hamingjusamir, og svo sem er það ekki skrítið sé horft á allar þær hörmungar sem dynja yfir sumt fólk án þess að það hafi nokkuð gert af sér. Þetta fólk þarf kannski að horfa upp á ástvini sína skotna í stríði, hefur hvorki í sig né á, neyðist til að leita sér að mat í ruslafötum og svona mætti lengi telja.

Á meðan lifir annað fólk í vellystingum, er heilbrigt, á góða að, hefur nóg að borða og efni á því að leyfa sér ýmislegt skemmtilegt. En… Þrátt fyrir öll þessi þægindi er ekki þar með sagt að fólk geti ekki verið óhamingjusamt. Fyrir því eru ótal ástæður en ég tel stærstu ástæðuna vera “brenglað lífsviðhorf.”

Lífið er náttúrulega ekkert sanngjarnt þannig að auðvitað langar fólk stundum bara til að leggjast undir sæng og breiða upp fyrir haus. Margir láta það eftir sér. Enda er mjög auðvelt að leggjast í sjálfsvorkunn í staðinn fyrir að rífa sig upp og gera eitthvað við líf sitt. Það að loka bara augunum og ráfa í myrkri í gegnum lífið án þess að vita neitt í sinn haus er það sem kallast á ensku “to take the easy way out”.

En fólk uppsker eins og það sáir. Þeir sem fara auðveldu leiðina eru sífellt leitandi að hamingju og telja sig gjarnan finna hana í peningum, flottu húsi og jeppa, fötum o.s.frv. Það er að mörgu leyti rétt, að neita því væri hræsni, en þessi hamingja varir aðeins stundarkorn. Svo missir fólk kannski húsið og peningana og þá er hamingjan fokin út í veður og vind. Margir koma ekki auga á að til að finna sanna hamingju þarf að leita inn á við. Leitast eftir því að horfa á björtu hliðarnar, vera sáttur við sjálfan sig og aðra í kringum sig og síðast en ekki síst vita hvað maður vill gera við líf sitt. Það er allavega lífsviðhorf og skoðun margra.

En segjum sem svo að einhver telji sig vera búinn að finna þessa “sönnu hamingju”, er það þá eitthvað sem hann eða hún á að skammast sín fyrir? Það virðist nefnilega vera til ákveðinn hópur fólks sem er stöðugt að jagast yfir öllu, hefur ekkert betra við óviðburðarríkt líf sitt að gera en að búa til “leiðarljóss-senu” úr öllu sem hendir það og ganga þannig á og eyðileggja hamingjuleit annarra sem eru svo óheppnir að verða á vegi þessa fólks. Því þetta er einmitt fólkið sem heldur að það sé bannað að vera hamingjusamur.

En er hamingja glæpur?