Parmenídes var fæddur í Eleu á Sikiley (515? – 450? f.Kr.). Hann var sonur Pýresar. Hann var fæddur á jónísku málsvæði, þó ekki í Jóníu sjálfri. Af heimildum má ráða að hann er yngri en Herakleitos og hefur lesið efni eftir hann. Díogenes Laertíos segir Parmenídes hafa verið pýþagoring um skeið. Hann er sagður hafa verið nemandi og fylgismaður Xenofanesar þó skoðanir þeirra séu afar frábrugðnar. Hann er einnig sagður hafa tekið þátt í löggjöf í Eleu.

Parmenídes ritaði a.m.k. eina bók. Hún skiptist í formála, Veg sannleikans og Veg sýndarinnar. Varðveitt eru á að giska 9/10 hlutar Vegs snnleikans en aðeins um 1/10 hluti Vegs sýndarinnar. Bók þessi er í bundnu máli, undir hexametri (hetjulagi eins og Hómerskviður).

Það hefur verið sagt að Aristóteles sé faðir rökfræðinar, en þá má einnig með sanni nefna Parmenídes afa hennar. Parmenídes terystir rökum sýnum, þó svo þau leiði til niðurstöðu sem flestum þætti fráleit. Nefnilega: Öll breyting er óskiljanleg og því um leið óraunveruleg, þ.e.a.s. hún á sér ekki stað. Þó er til skv. Parmenídesi veruleiki sem er óbreytanlegur og hægt er að skilja hann með hreina hugsun að vopni.

Parmenídes og Zenon voru einhyggjumenn (monoism). Þeir töldu að einn og óskiptur veruleiki væri til. Rök Parmenídesar fyrir einhyggju og gegn hreyfingu: (orðalag Þorsteins Gylfasonar)

(1) Það eru til tveir og aðeins tveir hugsanahættir: er og er-ekki. Allt sem við staðhæfum er annað hvort játanir eða neitanir.
(2) Allir hlutir og þeir hlutir einir sem við höfum skýra hugmynd um er veruleiki. (Ef hugmynd er ekki skýr getur hún ekki verið raunveruleg; sömuleiðis ef hugmynd felur í sér mótsögn, því þá getur hún ekki verið skýr) Einnig er hugsanlegt að setja rökin fram sem svo: Einungis það sem er hugsanlegt getur verið til (þó það sé ekki nauðsynlega allt til sem er hugsanlegt - en alla vega bara það sem er hugsanlegt getur verið til)
(3) Annar hugsanahátturinn í forsendu (1), nefnilega er-ekki, er óskiljanlegur.

Niðurstaðan er þá að er-ekki hugsunarhátturinn er út í bláinn og allt sem “er-ekki” er bara bull (þegar við segjum að e-ð sé ekki þá bullum við).

Hliðarrökin (rökin fyrir forsendu 3):

“x er ekki til”

Ef x er ekki neitt verður staðhæfingin að ofan orðin tóm:

“ekki neitt er ekki (til)” => orðin tóm.

Ef x er eittvhað (sem er þá til), verður staðhæfingin að ofan að mótsögn:

“eitthvað (sem er til), er ekki til” => mótsögn.

Parmenídes stillir upp andstæðunum heimurinn-eins-og-hann-er og heimurinn-eins-og-hann-virðist-vera. Þetta er ákveðin tvíhyggja hjá honum (þótt hann sé einhyggjumaður í frumspekilegum skilningi). Þetta þýðir, segir Parmenídes, að mismunur sé ekki til, og breyting og hreyfing séu ekki heldur til. Í breytingu og hreyfingu er fólgið er-ekki að svo miklu leyti að það sem breytist, eða hreyfist er-ekki það, eða þar, sem það var áður. Þessi heimspeki varð endanlega til þess að útrýma hugmyndum náttúruspekinganna frá Míletos um eitthvað eitt frumefni eða einhvern frumþátt, úr hverju allir aðrir hlutir væru komnir.

Parmenídes hafði gífurleg áhrif á alla gríska heimspeki eftir hans dag. Hann hafði einnig töluverð áhrif á fjölhyggjumennina sem fylgdu í kjölfar hans, Empedókles, Anaxagóras og Demókrítos. Allir reyna þeir ad taka tillit til raka Parmenidesar á einhvern hátt. Hjá Demókrítosi eru atómin nokkurs konar parmenidískar verundir, eilíf og óforgengileg. Hjá Empedóklesi eru frumefnin fjögur slíkar verundir. Og hin fjölmörgu frumefni Anaxagórasar eru það líka. En hann hafði einnig áhrif á Platon sem smíðaði frummyndakenninguna en frummyndir Platons eru einmitt í einhverjum skilningi parmenidískar verundir, eilífar og óbreytanlegar.

Bestu rökin gegn þessu er að benda á að Parmenídes gerir ekki greinarmun á mismunandi merkingu sagnarinnar “að vera”. Þetta bendir Platon á í Fræðaranum (Sófistanum). Sögnin að vera getur gefið til kynna tilvist (existential use) - og þannig einmitt skilur Parmenídes hana (í öllum tilfellum). En hún getur einnig eignað hlutum eiginleika (predicative use) og ennfremur gefið til kynna samsemd (identificational use).

Ef ég segi: “Ég vil að þessi drengur sé ekki vitlaus lengur” gæti einhver svarað: “Hvað áttu við með að þú viljir ekki að hann sé lengur? Viltu að hann deyji?” En drengurinn deyr ekki þótt hann hætti að vera vitlaus eða m.ö.o. hann hættir ekki að vera (til) þótt hann hætti að vera eitthvað (eins og t.d. vitlaus). Þetta er dæmi Platons úr Fræðaranum (Sófistanum). Og dæmi um samsemd væri m.a. að segja: “Clark Kent er Superman” eða “Steinn Steinarr er Aðalsteinn Kristmundsson”. Hvorugur er til núna og sá fyrri hefur meira að segja aldrei verið til! Þessi rök taka á hliðarrökunum svonefndu sem spretta út frá (3) (sjá betur Pl. Soph. 237B-238C en gagnrýni á þau í Pl. Soph. 258C-259D). Þau gera út um rök Parmenídesar.

Parmenídes kann að virðast alger andstæða Herakleitosar, en í raun eiga þeir eitthvað sameiginlegt. Báðir telja þeir heiminn (sem annar telur stöðugt breytast en hinn telur algerlega óbreytilegan) geta verið skilinn af okkur mönnunum, með notkun skynseminnar. Parmenídes sem afneitar breytingum telur skynjun óáræðanlega, en Herakleitos sem telur skynjanir áræðanlegar, gerir þó ekki meir úr þeim en svo að einar og sér, og án hjálpar skynseminnar, gagnist þær manni lítt.

Þetta ágæta dæmi um rökgreiningu úr fornöld sýnir vel hvernig heimspekileg vandamál geta leynst í tungumálinu. Er ef til vill mögulegt að meirihluti heimspekilegra “vandamála” stafi af því hvernig við erum vön að taka til orða?
___________________________________