Þetta er ritgerð sem ég skrifaði í heimspeki í skólanum, á að vera um heimspeki í samhengi við Matrix, en ég vil ekki nefna hana það, því ritgerðin átti ekki að fara alltof mikið út í myndina, bara þá heimspeki sem henni fylgir.
Það getur vel verið að ég hafi farið langt út fyrir efnið, það verður bara að hafa það.
Lesið þetta bara með það í huga að ég er bara búinn að vera í heimspeki í ca. 2 mánuði.

Þegar ég horfi á tölvuskjáinn sé ég flókið fyrirbæri, afsprengi tæknikunnáttu nútímamannsins. En sé ég það í raun og veru? Hvað er í raun að sjá? Er eitthvað yfir höfuð að sjá? Tölvuskjárinn gæti verið raunverulegur, en verið í alvöru allt öðruvísi. Tölvuskjárinn gæti þess vegna ekki verið til, aðeins blekking sem skilningarvitin mín mata mig á, og eins gæti öll mín tilvera, allt sem ég geri verið blekking.

Vísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu (treysti henni ekki fullkomlega þó) að t.d. augun sjái hlutina, en spili þá ekki fyrir hugann fyrr en hálfri sekúndu eftir að atburðurinn gerðist í raun og veru. Þetta gefur skynfærunum nægan tíma til að gera hvaðeina við upphaflegu skilaboðin. Þau gætu þess vegna verið eins og e-ð sem ég hvísla að næsta manni, og hefur síðan snarbreyst þegar boðin koma aftur til mín, er þau hafa ferðast hringinn kringum borðið.
Líkami okkar er aukinheldur ekki þessi fullkomna náttúrulega smíð sem við viljum vera láta. Ég er t.d. með ilsig. Það er galli á smíðinni. Margir eru með fleiri galla en það. Það gæti þess vegna verið algengur galli á líkamanum að brengla boð á leið til heilans, það gæti þess vegna verið ætlun og markmið skynfæranna, hluti af einhverju enn stærra sem við sjáum ekki því við erum bara við með okkar takmörkuðu og ótryggu vitneskju um heiminn. Þetta gæti þess vegna verið e-ð sem er ekki af þessum heimi sem við búum í.

Ofangreind kenning gæti staðist, en hún er samt sem áður bara jafnlíkleg öllum hinum. Af hverju? Því að mínu mati getum við fátt vitað með fullri vissu. Ég tel mig aldrei getað vitað með fullri vissu hvort tölvuskjárinn sem ég horfi á er í raun tölvuskjár, eða hvort ég get yfirhöfuð skynjað hann, séð hann, eða hvort ég hef yfir höfuð einhver augu í hausnum. Auðvitað getum við vitað ákveðna hluti með mikilli vissu, en þó aldrei 100% vissu. Þegar ég ýti á takka á lyklaborðinu kemur stafur á skjáinn. Það hefur gerst í öll fyrri skiptin. Hinsvegar getur tölvan alltaf klikkað, og kemur óneitanlega til með að gera það, tölvur eru ekki fullkomnar. Allavega, aðalatriðið er að ég get ekki vitað hvenær hún kemur til með að klikka. Ég get bara beðið og vonað. Í samræmi við það gætu tölvur hinsvegar verið fullkomnar, og þær gætu þess vegna stjórnað heiminum í þessum töluðu orðum, en ég get ómögulega vitað það. Ég get aðeins greint úr skynjunum mínum, og rökrætt og ályktað um það sem ekki verður skynjað. En um það sem ekki verður skynjað er aldrei hægt að vita neitt með neinni vissu, en ef einhverri vissu, er hún langtum minni en um þá hluti sem við skynjum, ef þekking og vissa eru þá yfir höfuð til. Líkur benda þó til þess. Hvernig ætti ég að skrifa þessa ritgerð, ef ég hefði enga vissu? Samt má benda á það að kannski er ég sjálfur ekkert að skrifa þessa ritgerð, e-ð annað gæti þess vegna stjórnað öllum mínum hugsunum, mér öllum, án þess að ég viti það, og þetta þarna gæti þess vegna skrifað þessa ritgerð í gegnum mig, og kannski gerir það það, því að sjálfstæður vilji minn er í raun afar takmarkaður.
Kannski er innbyggt í okkur öll e-ð, sem stjórnar því hvað okkur „líkar”. Manneskjan gæti þess vegna verið framleidd eins og dósamatur, og ég sem manneskja verið hannaður sem ákveðin gerð, hannaður til að læra heimspeki, þess vegna. Við vitum það ekki, það er aðalmálið.

Daglegt líf okkar byggist hinsvegar á því að mestar líkur eru á að hlutirnir gerist eins og við búumst við að þeir gerist. En það skiptir kannski ekki máli, því að allt sem við teljum okkur „skynja” gæti þess vegna verið ein stór blekking.
Samt sem áður verður maður að leggja slíkar samsæriskenningar til hliðar, eins freistandi og þær kunna að vera, til að lifa daglegu lífi á eðlilegan hátt. Ef ég ákveð að ekkert geti verið vitað með fullri vissu get ég alveg eins hætt að hugsa, því það er þá tilgangslaust. Ég get þess vegna sleppt því að gera allt sem ég geri, bara því ég veit aldrei með fullri vissu hvernig það fer.

Reyndar gæti ég alveg eins gert það, hver veit nema þetta líf hér á jörðinni sé aðeins aukaatriði, eða forsmekkurinn af því sem koma skal við „dauðann” eða bara yfir höfuð tilgangslaust og einskisvert? Reyndar finnst mér þetta líf ekki geta verið tilgangslaust, það væri of mikil flækja til að vera tilgangslaust. En eins og allt annað get ég ekki vitað það, það er allavega mitt álit á hlutunum. Við manni blasa tveir aðalkostir, ég get annaðhvort lifað þessu lífi eðlilega, til fulls, því þetta er það eina sem er, eða ég get gefið skít í þetta jarðlíf, því það skiptir alls engu máli.

Þá er hinsvegar spurning, get ég vitað að ég get ekkert vitað um hlutina? Veit ég að ég veit ekkert um hlutina með vissu? Er ég viss um það? Slíku verður seint svarað. Svo er auðvitað spurning hvort ég vel að telja að ekkert verði fullvitað.
Hef ég sjálfstæðan vilja? Til að byrja með getum við spurt okkur hvort við ráðum hvað okkur þykir gott. Nei. Ræð ég því hvort ég elska að borða banana vegna bragðsins, en forðast epli því ég kúgast af bragðinu? Nei. Ég ræð því ekkert hvort bragðlaukunum finnst gott bragð af þessu eða hinu. Ég ræð heldur engu um það hvort mér finnst gott að láta nudda á mér axlirnar. Manneskjan er breysk, hún hefur tilhneigingu til að velja það sem hentar henni sjálfri, semsagt hvað henni þykir gott og þægilegt og henni í hag. Enginn með fullu „viti” ef svo má segja velur að borða brauð í dag ef honum þykir það vont nema e-ð sérstakt búi að baki. Hann velur þá að gera það því e-ð betra býðst ef hann leggur það þó á sig að gera e-ð sem er ekki mjög samboðið honum.
Einnig er það þannig að ég ræð því ekki hvaða lög láta vel í eyrum mér. Ég ræð því ekkert ef mér finnst Bítlarnir góðir eða lélegir, ég ákveð ekkert bara si svona að líka vel við tónlistina þeirra.

Hins vegar hlýtur sjálfstæður vilji að vera til í einhverri mynd, t.d. varðandi siðferði. Ég vel að berja ekki börnin mín því það kemur þeim illa. Eða hvað.
Kannski er það bara samkennd sem er innbyggð í okkur flest (ekki eru jú allir á þeirri skoðun að berja ekki börn sín). Þessu samkvæmt gæti það verið að við högum okkur bara eftir tilfinningum okkar, sem segja okkur að það sé ekki gott að berja börnin, og ekki ráðum við tilfinningum okkar. Eða það er bara enn eitt dæmið um að gera e-ð til að öðlast annan hlut sem er okkur enn hagstæðari, í þessu tilviki almenningsálit. Það er þó vafasamt, ekki hlíta allir kalli almenningsálitsins, og gera bara hvað þeim sýnist, óháð viðbrögðum sem þeir fá. Kannski því þeir vita að þess viðbrögð eru ekkert endilega raunveruleikinn, ef raunveruleiki er til.

Það er eins með þetta og margt annað, þegar einni spurningu er svarað vakna 2 eða fleiri í staðinn. Sjálfstæður vilji verður seint klofinn í frumeindir og greindur með vísindalegum aðferðum. Ef sjálfstæður vilji er til, er hann takmarkaður.


Hvað er ég? Er ég manneskja? Er ég hugsandi vera? Hvað er manneskja þá, og hvað er vera? Hvað er að hugsa? Ég gæti þess vegna verið vél, en verið blekktur af skynjunum sem hluta einhvers konar samsæris til að láta mig halda að ég sé manneskja.

Í raun er fátt sem mælir gegn þeim möguleika að við búum kannski í raun í draumaheimi á borð við þann sem Matrixið er. Á móti kemur að fátt mælir með því.
Fyrir efahyggjumann eins og mig verða að teljast jafnmiklar líkur til beggja möguleika, sem eru jafnmiklar öllum hinum sem koma til greina sem útskýringar á tilveru okkar. Auðvitað geta menn sigtað út suma útskýringarmöguleika á tilvist sinni, en í raun ekki. Hvernig á að sanna að við búum (eða ekki) í Matrixi? Það er ekki hægt. Og þangað til maðurinn kemst yfir ofurnáttúrulegar aðferðir verður tilgangslaust að velta því fyrir sér.
Í raun er aldrei hægt að komast að rökrænni niðurstöðu, raunveruleikinn gæti í raun verið fáránlegri en við getum nokkurn tímann ímyndað okkur. Svo getur auðvitað alveg eins verið að einhver hafi komist að þessu öllu, og við hin vitum ekki af því, eða að takmarkaður hópur ræður yfir þekkingu hvað þetta varðar, og vill ekki deila henni með hinum. Hvers vegna ekki? Enginn mundi trúa því sem hópurinn hefði að segja.
Og ef við förum út í enn dýpri og viðameiri samsæriskenningar má jafnvel hugsa sér að ég sé sá eini sem ekki veit sannleikann, maður veit aldrei. Kannski er fólkið í kringum mig ekki einu sinni fólk. Kannski er það e-ð ekki af þessum heimi, kannski vélar, kannski ímyndun, blekking. Hvernig á ég að vita það? Ég get það ekki. Ég get ekki sannreynt það.


Sumir segja reyndar að þegar við deyjum, upplifum við það sem við trúum. Þeir sem trúa ekki á neitt enda þá í engu, hvernig sem það svo sem er, og þeir sem eru kristnir og óttast meira en allt að lenda í helvíti, lenda í nokkurs konar helvíti við andlát, eða í raun brottför frá jarðlífinu, nema þessu öllu hreinlega ljúki við okkar jarðneska dauða. Hver veit.

Sem leiðir að öðru, skynjunum. Verða þær án líkama? Sennilega ekki. Það fer reyndar eftir skilgreiningu okkar á skynjun, sem og hvað skynjun raunverulega er. Ef við gerum ráð fyrir því að skynjun geti ekki orðið án líkama, verðum við að taka undir upprunaefnishyggju, og þar með útiloka að öllu leyti líf eftir þetta líf, nema að við höfum öll gert okkur rangar hugmyndir um dauðann, og skynjanir raunar. En eins og með allt annað þá má efast um þetta. Ef maður tekur allt fyrir gefið gefur það manni eilítið brenglaða sýn á heiminn.

Hvernig sem skynjanir í raun eru, er ljóst að þær geta auðveldlega blekkt, sama hvort það er af eðlilegum ástæðum eða af ástæðum sem eru best settar í samsæriskenningum raunar.
Þar sem engin fruma er eins, ekkert atóm raunar, er vel hægt að segja að engin taugaboð séu eins, en þau eru mikilvægust í hinum líkamlega hluta skynjanna.
Og þar sem mér finnst mikið vera til í óvissulögmálinu (þó margt megi strika út með hreinni skynsemi) er það einfaldlega mjög raunsær möguleiki að þessi taugaboð brenglist á leið sinni milli skynfæra og heila.
Auk þess getur allt í líkamanum auðvitað bilað, við sjáum það strax. Taugaboð eru a.m.k. ekki óbrigðul. Né heldur eru skynfærin okkar það. Heilinn okkar á það til að sigta út „ónauðsynleg” taugaboð um skynjanir, ef við einbeitum okkur nógu mikið að e-u. Ef ég er niðursokkinn í bók hætti ég smám saman að heyra öll lætin sem eru frammi í öllu fólkinu þar.

Skynjanir er svo sannarlega ekki hægt að taka sem gefnar, sama hvaðan á þær er litið. Það er fátt í heiminum tryggt, og ef e-ð er tryggt, þá eru skynjanir ekki meðal þess.