Sælt veri fólkið. Það er langt um liðið síðan ég hef sent hingað grein. Margir ykkar sem stundið huga í dag munið eflaust ekkert eftir mér. Ég vil bara heilsa ykkur öllum og gömlu jálkunum líka.

Ég hef sent inn margar misjafnar greinar inn um tíðina. Þetta er ein af þessum greinum sem ég sendi aldrei inn og en af þeim fáu sem ég skrifaði inn á tölvuna mína sem uppkast. Venjulega hef ég alltaf skrifað greinarnar beint inn og sjaldan hirt um að snurfusa þær sérstaklega. Þessa grein renndi ég í gegn um og leiðrétti lítillega. Orðalagið á henni er óþarflega langlokulegt og óþjált á köfum. Ég læt þessa hnökra fljóta í gegn, þar sem ég nenni hreinlega ekki eyða tíma í að skrifa þessa grein svo vel sé. Slík óþolinmæði hefur fylgt skrifum mínum hér (og yfirleitt) og hún ætti því ekki að hrella gömlu kallana hér. Við óvana vil ég taka það fram að það er engin skylda að lesa þetta raus mitt. Ég vil benda þeim á að lífið bíður upp á margt annað og betra en það að lesa illa skrifaðar greinar um heimspekileg efni.

Líkast til var ástæða þess að ég sendi þessa grein ekki inn á sínum tíma sú að ég vildi hugsa hana betur í gegn. Þar sem það er nokkuð um liðið þarf ég sjálfur að hafa fyrir því að setja mig inn í þanka mína þarna. Ég sé ekki fram á að ég muni á næstunni þaulhugsa þessa pælingu, svo að ég leyfi ykkur bara gera það. Ég held að mig hafi grunað að það leyndist einhver mótsögn í rökleiðslunni. Kannski finnið þið hana fyrir mig.

Niðustaðan sem kemur fram í þessari grein er nú mikilvægur hluti af sýn minni á heiminn. Þó sérstaklega afleiðingar hennar. Hér er ég í raun að smíða brú á milli ytri og innri veruleika og sýna fram á að um sama veruleika er að ræða.

Verði ykkur af því.

————————————————
23.2.2004

Ég vil leggja undir ykkur tillögu. Að sumu leiti er það vegna þess að ég vil koma skipulagi á hana með því að skrifa hana hér, en e.t.v. enn frekar vegna þess að ég er hræddur um að gleyma henni.

Tillagan er í raun einföld. Ég vil breyta spurningunni: “Hvað er sannleikur?” í spurninguna: “Hvað er raunverulegt?”. Eftir stendur að við höfum í raun fært til vandamálið um sannleikann. Ég vil kalla þetta einföldun, í sama skilningi og við einföldum dæmi í stærðfræði, áður en við leysum þau. En hefur þessi einföldun einhverjar afleiðingar? Breytir hún einhverju? Könnum málið.

Ég hef mikla trú á gildi spurninga yfirleitt. Hvernig við spyrjum, lýsir því hvernig við komum að vandamáli, eða heiminum yfir höfuð. Tökum dæmi af spurningum um fjölda. A) “Voru margir á fundinum?” B) “Hve margir voru á fundinum?” Við sjáum að svar við B) svarar einnig spurningu A), en svar við spurningu A) svarar B) ekki. Við sjáum af þessu að það er ekki sama hvernig við spyrjum um sama fyrirbærið. Í þessu tilviki, um fyrirbærið fjöldi. Annað sem við getum séð þegar við berum saman þessar tvær spurnigar. Spurning A) kallar á nýja spurningu, nefnilega: “Hve margir eru ”margir“?”. En spurning B) þarfnast ekki slíkar krufningar. Hún spyr einfaldlega um tölu þeirra sem mættu á umræddan fund. (Við fækjum málin ekki með því að skilgreina hvað felist í því að vera á fundinum, eða hvort síamstvíburar teljist ein manneskja eða tvær, eða vangaveltum í þessa veru.)

En get ég framkallað mótsögn, með því að víxla hugtökunum sannleikur og raunveruleiki? Ég tel svo ekki vera. Raunar tel ég mig hafa breytt spurningu svipaðri A) í spurningu sem svipar til B); þegar ég vildi spyrja: “Hvað er raunverulegt?” stað þess að spyrja: “Hvað er satt?”. Hvers vegna tel ég mig hafa gert það? Jú, skoðum málið. Hugleiðum spurninguna: “Er sannleikur raunverulegur?” Sannleikur gæti vart talist sannur ef hann væri ímyndaður, eða blekking. Sannleikur getur ekki verið sannur, ef hann hljóðar upp á það sem ekki er, eða ef hann segir það satt sem vitað er að ekki er satt (lygi). Því tel ég augljóst að sannleikur þarf að vera raunverulegur. Þetta er engin djúp speki og hugtakið felur skilgreininguna í merkingu sinni. Við sjáum s.s. að “sannleikur -> raunverulegt”. En snúum okkur nú að því að spyrja hvort leiðingin “sannleikur <- raunverulegt” sé gild. Við spyrjum því: “Er raunveruleiki sannleikur?” Hér komum við að þeim hluta sem mestu máli skiptir. Það er héðan sem hugmyndin um þessi hugtakaskipti er sprottin. Ég svara þessari spurningu játandi. En hverning getum við sýnt fram á að það svar sé auljóslega rétt, svo ekki leiki þar vafi um? Vissulega flýr enginn þá brýnu nauðsyn að hugleiða málið hver í sínu eigin höfði. Við skulum samt leitast við að gera þetta augljóst.

Gefum okkur hér, í nafni rökleiðslunnar, að efnisheimurinn sé raunverlegur (eins og við gerum flest í okkar daglega lífi). Þá þýðir það að efnisheimurinn er raunveruleiki (það útilokar ekki annan raunveruleika að auki). Efnisheimurinn er því sannleikur, að því marki sem hann er raunverulegur. Hver einstakur raunverulegur hluti efnisheimsins er því sannur, er sannleikur með raunveruleika sínum. Sandkornin á ströndinni eru hvert og eitt sannleikur, að því marki sem þau eru raunveruleg. Á sama hátt er ströndin í heild sinni sannleikur, að því marki sem hún er raunveruleg. Þannig er allur (efnis)heimurinn sannleiki í hlutum sínum, og í heild sinni, að því marki að hann sé raunverulegur. En við getum orðað þetta með nákvæmari hætti.

Almennt séð segi ég að segja: Öll x í sönnum fullyrðingum, á forminu “x er raunverulegt”, eru sannleikur (Hér þurfum við að nota hugtakið ‘sannleikur’ þó það sé í raun viðfang okkar.) Þar af leiðandi þurfum við í öllum tilvikum, þegar við erum að velta fyrir okkur hvort eitthvað sé satt eða ekki, aðeins að spyrja eftirfarandi spurningar: “Er þetta raunverulegt?” Það tel ég mikilvæga framför umfram spurninguna “Er þetta satt?”.

A) Gefum okkur að fullyrðingin

(1a) Ef x er raunverulegt, þá er x sannleikur.

sé ósönn.

Neitun (1) er því sönn.

(2a) Ef x er raunverulegt, þá er x ekki sannleikur.

En það er klárlega út í hött, raunveruleikinn getur ekki verið “ekki sannleikur”. Ég leyfi mér að draga þá ályktun að eitthvað raunverulegt sé sannleikur, ef einhver sannleikur er til. Því hafna ég því að Neitun (1a) sé sönn.

(1a) er því augljóslega sönn. ( raunverulegt -> sannleikur )


Við getum á sama hátt meðhöndlað fullyrðinguna, að leiðingin sannleikur -> raunverulegt sé sönn.

B) Gefum okkur að fullyrðingin

(1b) Ef x er sannleikur, þá er x raunverulegt.

sé ósönn.

Neitun (1b) er því sönn.

(2b) Ef x er sannleikur, þá er x ekki raunverulegt.

Þetta er auðvitað algerlega út í hött. Því ef (2b) væri sönn væri sannleikur klár ímyndun og uppspuni, sem er algerlega á skjön við merkingu hugtaksins “sannleikur” eins og ég hef skilið hugtakið til þessa.

(1b) er því klárlega sönn fullyrðing.


En nú komum við að spennandi hluta.

Af A) og B) leiðir að hugtökin, eins og þau hafa verið skilgreind og notuð hér, eru jafngild. Það þýðir að ef þið hafið hingað til verið sammála þeim forsendum (ályktunum mínum) sem ég gef mér, þá leiði röklega af þessum forsendum að hugtökin eru jafngild.

3) Raunverulegt <=> Sannleikur.


Ég hef því gert það ljóst, að því marki sem það er mögulegt, að það framkallar ekki mótsögn að leggja spurninguna “Er þetta sannleikur?” að jöfnu við spurninguna “Er þetta raunverulegt?”. En hvers vegna var ég að standa í því? Hvaða afleiðingar hefur þetta? Hverju breytir þetta? Aftur hamra ég á mikilvægi spurningarinnar í því hvernig við skynjum og skiljum heiminn. Að skipta um hugtak sem við notum venjulega í öðru samhengi, þó það sé jafngilt, breytir skilningi og sjónarhorni okkar á viðfanginu. Raunveruleiki er gegnsærra hugtak en sannleikur. Raunveruleiki er umdeilanlegur (eins og sannleiki) en hann virðist vera hér fyrir augum okkar núna og inní höfuðkúpu okkar, að því er virðist. Við setjum því spurninguna “Hvað er raunverulegt?” í annað samhengi, en hina hefðbundnu nálgun sem felst í spurningunni “Hvað er sannleikur?”.

Þessi nálgun gerbreytir því hvernig við persónulega skoðum heiminn. Allt sem við sjáum, getum við litið á sem sannleika, að því marki að það sé raunverulegt. Hendur okkar eru sannleiki, ef þær eru raunveruleiki. Hreifingar efnisins í alheiminum, ef þær eru raunverulega eins og þær eru mældar, eru sannleiki. Við getum þannig litið á hráar mælingar sem sannleika, að því leiti að þær eru raunveruleiki. Einnig getum við litið á þau lögmál og mynstur sem leynast í þessum mælingum, sem sannleika, að því marki sem þau eru raunveruleg. Ekkert af þessu er nýtt, allt þetta er eins og áður, en þetta er skýrara í huga okkar en áður. Eins og það er auðverldara að nota tákn til þess að reikna, en venjulegt tungumál, þá er þetta skýrara orðalag til að nálgast leit okkar af því sem við köllum sannleika. Því við erum ekki að tala um neitt óáþreifanlegt, ef við lítum á það sem við þreifum á sem raunveruleika. En raunveruleikinn er vissulega umdeildur eins og sannleikinn, og á nákvæmlega sama hátt (segi ég og það leiðir af ályktun minni hér að ofan). Því ég segi sannleikur er raunveruleikinn, og raunveruleikinn er sannleikurinn. Næst þegar þið veltið fyrir ykkur hvað sé satt, þá getið þið spurt ykkur hvað sé raunverulegt.

Þegar ég notaðið hugtakið satt í röklegum skilningi áðan, erum við einnig að tala um ákveðinn röklegan raunveruleika. Við getum í það minnsta út frá þessum vangaveltum mínum, sagt að rökleg sannindi séu raunveruleg, og þá alveg á sama hátt og við sjálf ef við erum raunveruleg. Ef við viðurkennum sannleika rökheimsins, og það innra samhengi sem felst í honum, sem sannleika, erum við að viðurkenna raunveruleika hans. Ef við viðurkennum raunveruleika efnisheimsins, sem við lifum og hrærumst í dag frá degi, erum við að viðurkenna sannleika hans. Í rökin eða vettvangur huga okkar, og vettvangur skynjunar okkar og líkama, myndi þannig deila hinum eina og sama raunveruleika og sannleika. Ef við teljum rökheiminn og efnisheiminn, annaðhvort sannan eða raunverulegan. Mér finnst þetta alveg hrikalega falleg hugmynd. Það sem meira er, ég tel þetta vera nákvæmlega svona; vera satt og vera raunverulegt.

Raunveruleiki í efnisheiminum, ef hann er raunverulegur, endurspeglar sama raunveruleika í röklegum sannindum og stærðfræðilegum sannindum einnig. Það er deilt um grunndvöll stærðfræðinnar (það eru til fleiri en ein kenning um grundvöll stærðfræðinnar og þær verða ekki raktar hér) en mér sýnist nokkuð ljóst að raunveruleiki efnisheimsins (sem ég verð að játa að ég trúi á) og raunveruleiki stærðfræðinnar (sem ég trúi einnig á) er einn og hinn sami raunveruleiki og einn og hinn sami sannleiki. Það má kannski líta svo á að við séum með tvo fleti á sama hlut. Efnið hagar sér samkvæmt röklegum raunveruleika, og við kortleggjum hann (meðvituð um upprunann eða ekki) í heimi stærðfræði og rökfræði. En ég held því fram að grunnur stærðfræðinnar hljóti að vera rakin til þeirra röklegu lögmála sem ríkja í efnisheiminum. Þá á ég ekki við eðlisfræðileg lögmál, heldur þau lögmál sem eru svo augljós að við tökum ekki eftir þeim. Til að nefna dæmi, þá þykir okkur ekkert undarlegt að tveir efnislegir hlutir geti ekki verið á sama stað á sama tíma. Okkur þykir líka eðlilegt að tíminn sé einsleitur þannig að tíminn líði ekki hraðar í Frakklandi en t.d. á Íslandi. (Jafnvel þó sú sé raunin í hinum stóra Alheimi.) Þessi og fleiri lögmál, (sem umlykja okkur eins og vatn umlykur fiska og við tökum því ekki eftir þeim frekar en fiskar átta sig seint á því að þeir eru blautir, jafnvel þó þeir hefðu greind til þess), eru grundvöllur og frosendur stærðfræðinnar og röklegra fræða. Án þessara ofurljósu lögmála allt í kringum okkur og í okkur sjálfum, væri stærðfræðinn gagnslaus og óskiljanleg, því að einn og einn þurfa ekki endilega að vera tveir í heimi án þessara frumlögmála. Sá sem hefur skoðað rúmfræði Evklíðs, og séð öll þau lögmál sem má kreista út úr beinum línum og punktum, hlýtur að hafa undrast þann röklega raunveruleika sem býr í þessum einföldu myndum. Raunar tel ég að í rúmfræðinni sé snertiflötur þessara tveggja heima, orðaðra sanninda og sýndra. Línur og punktar, virðast vera einföldun á því sem við sjáum með augum okkar allt í kring um okkur, og úr úr þessum einföldu formum má sía ógrynni af röklegum lögmálum sem gilda um samband þessara forma, og þannig virðist rúmfræðin spretta upp úr hliðstæðum í efnisheiminum.
————————————————-