Mér finnst sorglegt að vita til þess hve fáir trúa á guð af einlægni nú til dags. Flestir eru jú samt í þjóðkirkjunni og hafa við fermingu heitið því að gera Jesú Krist að ljósi lífs síns og fylgja boðskap kristinnar trúar eftir fremsta megni. Nóg um það, því eftir að fermingarveislan er búin og allar fermingargjafirnar hafa verið tættar upp (og fermingarbörnin búin að sjá að þær voru ekkert annað en ómerkilegt drasl frá nískum ættingjum) fara flestir út af sporinu. Biblían og sögurnar af Jesú, guði og “þeim öllum”, eru allt í einu ekkert annað en ævintýri skrifuð af einmana, hebreskum gyðingi sem vildi reyna finna svör við gátum lífsins. Eða eitthvað…

En ekki meir um það, ég ætla mér alls ekki að vera með neinar predikanir, ég er bara að velta fyrir mér af hverju þessi þróun hefur orðið. Af hverju guð skipar ekki eins stóran sess í lífi manna og áður fyrr. Áður fyrr hættu menn sér varla út fyrir dyrnar á moldarkofunum sínum, til dæmis á hvítasunnunni eða á föstudeginum langa sökum guðsótta! En núna er öldin önnur og gengin er í garð “öld einstaklingsins”. Einstaklingar hafa óbilandi trú á sjálfum sér og virðast ekki lengur þurfa á trúnni að halda, allt þetta þvaður um guð, sem enginn veit einu sinni hvort sé í rauninni til, finnst flestum allt að því óþolandi. Mér finnst þetta skrítin þróun og vil meina að hún stafi af aukinni velmegun og auknum efnahag manna. Staðreyndin er sú að flestir fæðast með silfurskeiðina í kjaftinum, fá allt upp í hendurnar og þurfa aldrei að hafa fyrir nokkrum sköpuðum hlut, ja nema bara að pota sjálfum sér áfram í lífsgæðakapphlaupinu. Skilur einhver hvert ég er að fara? Ég er náttla frekar harðorð en ég held að því miður sé þetta raunin. Þið megið ekki heldur misskilja mig, ég er engin ofsatrúarmanneskja eða neitt þannig…. ég fer ekki í kirkju né er meðlimur í einhverjum söfnuði, er alls ekki bitur, guðhrædd, ung stúlka haldin tilvistarangist og í mikilli sálarkreppu, jú nó vott æ mín…?? :)

Spurningin er ekki hvort að guð sé til, heldur AF HVERJU ÞAÐ TRÚIR ENGIN LENGUR Á GUÐ!!!??