Að vera trúr sjálfum sér er það sem mér finnst skipta mestu máli, ef maður hefur það ekki þá hefur maður ekki neitt og þess vegna ætla ég líklega að hætta á Huga. Þetta er að einhverju leiti svona lokapuntkur á bak við allt sem ég hef sagt á Huga.

Hvers vegna finnst mér það ekki vera samræmanlegt lífsskoðununm mínum að vera á Huga? Vegna þess að yfirvöld hér á Huga hafa ekki brugðist á neinn raunverulegan hátt við þeim gríðarlega rasistaáróðri sem hefur verið í gangi hér síðasta mánuð, ef það er ekki hægt að banna notendur sem koma hingað inn með það eitt að markmiði að æla út úr sér rasistaáróðri þá get ég ekki tengt mig við þetta samfélag. Það eina sem hefur verið gert í þessum málum er að einstaklingurinn hefur verið beðinn um að minnka munnræpuna aðeins. Hvað gerist næst þegar eitthvað svona kemur upp á? Ætli það gerist ekki nákvæmlega það sama, rasistinn fær að vera í friði í langann tíma og þar með að dreifa sínum áróðri og síðan er ekkert annað gert en að slá laust á fingurna á honum. Halda stjórnendur Huga að þetta sé til þess fallið að koma í veg fyrir frekari áróður seinna meir? Svona áróður og ærumeiðingar eru bannaðar með lögum á Íslandi og byggja þau lög á samþykktum og sáttmálum Sameinuðu Þjóðanna og því ætti þetta ekki vera leyft hérna á Huga. Þegar það kom upp svartamarkðsbrask á miðum á Rammsteintónleika þá fannst stjórnendum Huga það nauðsynlegt að eyða öllum póstum varðandi það en ég spyr: Hvort er alvarlegra að reyna að græða á einhverjum tónleikamiðum eða að ljúga til þess að ala á hatri og fordómum?

Núna er fólk hrætt við ritskoðun án þess að gera sér grein fyrir því hversu nauðsynlegt það er, við eigum ekki að ritskoða stjórnmálaskoðanir eða neitt slíkt af augljósum ástæðum en við verðum að koma í veg fyrir að hatur, lygar, ærumeiðingar og fordómar séu puntaðar upp og kallaðar stjórnmálaskoðanir í þeim tilgangi ekki sé hægt að banna það. Til eru þeir sem segjast vilja deyja fyrir rétt fólks til að tjá skoðanir sínar en þessir einstaklingar eru yfirleitt það vel settir að þeir geta treyst því að standa aldrei við stóru orðin, það eru aðrir sem deyja vegna þessa “málfrelsis”. Innflytjendum, frumbyggjum, samkynhneigðum, geðveiku fólki, ýmsum trúarhópum og fleirum er fórnað á altari “málfrelsis”. Nú hafa margir málsvarar “málfrelsis” oft sagt að áróður rasista og “þjóðernissinna” sé svo fáránlegur að hann sé ekki svara verður, þetta fólk virðist ekki gera sér grein fyrir því að þarna úti er fólk sem er tilbúið að líta framhjá augljósum staðreyndum til þess að geta litið stærra á sjálft sig. Sumt fólk sem er illa statt vill geta kennt öðrum en sjálfum sér um, gyðingar hafa í gegnum tíðina verið þeir sem Evrópubúar hafa oftast viljað koma sökinni á og það endaði með gríðarlegum hörmungum. Fólk vill trúa að núna þá séum við það langt á veg komin að við munum ekki lenda í slíku aftur. Erum við í alvörunni svo vel sett? Hve langur tími þarf að líða þar til fordómar verða nægilega algengir til að slíkt komi fyrir aftur? Hve langt er í það að fordómar verði það algengir að fólk deyji vegna þeirra hér á landi? Við búum þegar við það að ráðist er á innflytjendur, er það ásættanlegt? Er það bara verð frelsisins? Er ekki gott að vita að á meðan þið sitjið í makindum þá er fólk að þjást fyrir frelsið? Einhver verður að greiða gjaldið og reglan frelsiselskenda virðist verða sú að það séu ekki þeir sem níðast á frelsinu sem greiða þetta gjald heldur þeir sem þurfa mest á hjálp að halda.

Frelsi, janfrétti og bræðralag er það sem lýðræðisvenjur Vesturlanda hafa verið byggðar á en síðan skiptist þetta einhvern veginn þannig að öðrum megin er predikað frelsi og hinum megin jafnrétti og bræðralag, er of mikið að biðja um að við finnum jafnvægi í þessum málum í stað þess að biðja bara um það sem stjórnmálaskoðanir manns segja manni til um? Ég veit að frelsi er ekki mikilvægara en jafnrétti, ég veit það í hjarta mínu að þetta tvennt ætti að vera óaðskiljanlegt, raunverulegt frelsi er ekki til án jafnréttis og raunverulegt jafnrétti er ekki til án frelsis. Bræðralag er sá hluti jöfnunar sem er líklega er erfiðast að ná fram, ómögulegt jafnvel, en þó það líti út fyrir að vera mark sem við náum aldrei þá er hugsjónin eitthvað sem við getum byggt á. Líklega er allt þrennt í raun ófáanlegt enda eru þetta í raun aðeins draumar lýðræðisins, við ættum samt sem áður að byggja samfélag okkar á þessum hugsjónum og ekki gleyma neinni þeirra. Rasistaáróður er, að mínu mati, ósamræmanlegur öllum þremur grundvallarmarkmiðum lýðræðisins.

Sumir segja að það þar sem frelsi, jafnrétti og bræðralag séu ómöguleg markmið þá eigi ekki að reyna að ná þeim, ég segi að það sé vitlaust sjónarmið, við erum ekki að reyna að ná einhverju endanlegu marki, við vitum að við getum aldrei náð fullkomnun en mig grunar að göfugu sjónarmiðin séu besta leiðin til að gera samfélagið gott. Nú myndu kannski einhverjir benda á Sovétríkin og segja að það hafi verið göfug sjónarmið sem hafi farið til fjandans og það er rétt en ef einhverjir ætla að líkja Sovétríkjunum saman við að fara lýðræðislegar leiðir í lýðræðisríki þá eru þeir blindir á hið augljósa.

Hvers vegna ætti þetta litla samfélag okkar, Hugi, að berjast gegn rasistaáróðri? Vegna þess að áróðurinn veldur gríðarlegum þjáningum.

Hvers vegna að reyna að banna þetta þegar það er aldrei hægt að koma algerlega í veg fyrir þetta? Af því að með því að banna þetta þá segjum við: Þetta er rangt og fækkum um leið sápukössum rasistana.

Mun sannleikurinn ekki gleymast þegar að ekki þarf að rökræða um hann? Ekkert endilega, við þurfum bara að fræða fólk um þetta þegar það er ungt, í skólum þá þarf að lýsa því hve viðbjóðslegur rasismi er og hvaða áhrif hann hefur haft.


Rasistar eiga ekki að fá sápukassa hérna á Huga, ég get ekki verið hluti af samfélagi sem tekur ekki almennilega á svona viðbjóði. Ef ég er ekki trúr sjálfum mér þá hef ég ekki neitt.
<A href="