Eldri náttúruspekingar Þales frá Míletos (625 - 545 f.Kr.):
Þales er oft kallaður faðir grískrar heimspeki, hann var Fönikíumaður að ætt og lærði í Egyptalandi og Babýlóníu. Hann notaði m.a. reglur um einslaga þríhyrninga í flatarmálsfræði og sagði fyrir um sólmyrkva. Frægastur er Þales fyrir kenningu sína um að vatnið sé frumefni eða frumvera alls. Aristóteles taldi Þales hafa byggt þessa fullyrðingu á þeirri staðreynd, að vatn er nauðsynlegt öllu því, sem lífs anda dregur eða þá á hinum margvíslegu myndum sem vatn getur birst í. Mestu varðar í þessu sambandi að Þales reyndi með eigin athugunum og sjálfstæðri röksemdafærslu að skýra gerð heimsins, án þess að leita á náðir goðsögunnar.

Anaximander (6. öld f.Kr.)
Anaximander var lærisveinn Þalesar og hélt því fram að frumefnið væri ekki sjáanlegt í neinu þekktu efni, heldur væri það með öllu óskilgreinanlegt, eða “hið takmarkalausa”, upphaf alls og endir, apeiron, eins og hann kallaði það. Hann taldi að fyrst hefði orðið til eldhvel. Þegar það sprakk urðu til sólir og stjörnur sem ganga kringum jörðina. Jörðin var aftur á móti sívalningur sem svífur í lausu lofti. Allt hér á jörðu er fyrst komið úr sjó eða vatni, einnig mennirnir sem voru upphaflega í fisklíki. Hann gerði ásamt öðrum manni fyrsta þekkta uppdráttinn af allri heimsbyggðinni.

Anaximenes (6. öld f.Kr.)
Anaximenes var nemandi Anaximanders. Hann taldi loftið frumefni alls. Eldurinn yrði til við þynningu en vindar, ský og vötn við þéttingu. Sálin væri loftkennd og héldi manninum saman og andrúmsloftið (pnevma) væri sá andi sem er héldi alheiminum saman. Þessi kenning lét ekki mikið yfir sér en átti eftir að hafa geysileg áhrif á gríska heimspeki og raunar síðar á kristna trúfræði.

Heraklít frá Efesos (500 f.Kr.)
Heraklít fullyrti að hreyfingin eða breytingin væri innsta eðla tilverunnar en ytra tákn hennar væri eldurinn. Setningin “allt streymir, ekkert stendur við” hefur verið eignuð honum. Í hinni endalausu verðandi er fólgið guðdómlegt lögmál og samkvæmt því er hverjum hlut skipað gagnvart andstæðu sinni. Öll hreyfing og breyting felst í því að andstæður sameinast. Hreyfiaflið er hinn eilífi eldur sem gagnsýrir allt, eins og skinn sem er gætt afl, kraftur, guð. Hvort heldur í náttúrunni eða í mannheimi gildir baráttan fyrir tilverunni þar sem sá sterki sigrar.

Pýþagóras frá Samos (529 f.Kr)
Pýþagóras settist að í borginni Krótónu á Suður-Ítalíu, stofaði þar trúarreglu sem jafnan var kennd við hann og bæði konur og karlar höfðu aðgang að. Pýþagóringar voru Orfeus-trúar og lögðu áherslu á kenninguna um sálnaflakk og endurholdgun, þeir veltu fyrir sér þeim áhrifum sem tónlist gæti haft á hina ódauðlegu mannssál. Við fyrstu vísindalegu tilraun er sögur fara af, komust þeir að því, að tónhæðin væri háð lengd strengs í hljóðfæri. Jafnframt minntust þeir þess, að Egyptar höfðu notað tölurnar 3, 4 og 5 á hliðum þríhyrnings til að fá út rétt horn. Þeir sannfærðust því um, að leyndardóma tilverunnar væri að finna í talnahlutföllum. Frumeiningu alls töldu þeir töluna einn, það er punktinn. Með því að setja saman punktana á hinn margvíslegasta hátt fengu þeir línu, fleti og rúmtak. Svo virðist sem allt talnakerfið ætlaði þó að hrynja þegar einn þeirra komst að því að hornalínan í ferningi og hliðarnar yrðu ekki mældar á sama kvarða, þ.e. uppgötvaði hina óræðu tölu. En þrátt fyrir dulhyggju og talnaspeki í fræðum Pýþagóringa, mátti greina þar vísi að þeirri hugsun, að unnt væri að lýsa náttúrulegum fyrirbærum á stærðfræðilegan hátt. Pýþagóringar héldu því fram, að jörðin væri hnöttur, sem snérist um ósýnilegan “miðeld”. Kenning þeirra um hnattlögun jarðar hlaut viðurkenningu en var ekki sönnuð fræðilega fyrr en á 4. öld f.Kr. Beinna áhrifa Pýþagóringa gætti langt fram yfir upphaf okkar tímatals.

Exenófanes (570 - 480 f.Kr)
Kenndi í borginni Elea. Hann reis öndverður gegn guðatrúnni; mennirnir höfðu skapað guðina í sinni mynd. Guð væri sá sem er, var og verður, eilífur og óumbreytanlegur guð að baki tilverunnar. Sporgöngumenn Exenófanesar, en þeir voru jafnan kenndir við borgina og kallaðir Eleatar, leituðu hins eilífa og óumbreytanlega í tilverunni. Þeir voru á öndverðum meiði við Heraklít frá Efesos sem taldi hreyfingu og breytingu, verðandina innsta eðli tilverunnar.

Parmenídes frá Elea (500 f.Kr.)
Hann gekk svo langt að fullyrða að öll hreyfing og öll breyting væri sjónhverfing. Það sem er, það er eilíft og óumbreytanlegt. Skynheimurinn væri blekking en raunveruleikinn, hinn eini og sanni, hlyti að vera eilífur og óumbreytanlegur; hann yrði því einungis höndlaður með rökhugsun, þ.e. í heimi andans.

Zenón frá Elea (5. öld f.Kr.)
Hann þóttist geta sannað með rökum að hinn fótfrái Akkiles næði aldrei skjaldböku ef hún fengi dálítið forskot. Akkiles myndi ávallt helminga leiðina sem á milli hans og skjaldbökunnar væri, í það óendanlega. Eins mætti segja með fullum rökum um ör sem skotið væri af boga, að á hverju andartaki stæði hún kyrr. Þessar þverstæður Eletans Zenóns hafa valdið mönnum afar miklum heilabrotum og þeir fóru að gera sér grein fyrir muninum á því sem gæti verið rökrétt, að gefnum vissum forsendum, og því sem stæðist dóm reynslunnar, væri raunrétt. Svo virðist sem sjónarmið Heraklíts og Eleata væru ósættanleg. Brátt komu þó til sögunnar spekingar sem töldu það reynandi. Það voru hinir yngri náttúruspekingar, einkum þeir sem störfuðu á hinu gríska meginlandi, eða nánar til tekið í Aþenu.
Just ask yourself: WWCD!