Hér fyrir neðan má sjá grein sem kallast “Frelsi til að ljúga?”. Þar hélt einhver ágætur maður því fram, að fræðimenn kirkjunnar á miðöldum væru ekki að ljúga þegar þeir héldu því fram að Jörðin væri flöt, og það vegna þess að þeir tryðu því sjálfir.

Í fyrsta lagi - Eftir því sem ég best veit, þá vissu menn allt frá tímum Forn-Grikkja (ef ekki lengur) að Jörðin væri kúla/hnöttur. Hitt er svo annað mál, að þeir héldu því fram að allt snerist umhverfis Jörðina. Þannig að ég er ekki alveg viss um að þessu hafi verið haldið fram af menntamönnum Evrópu. Almúginn, ómenntaður og fáfróður trúði kannski öðru. En hvaða máli skiptir það venjulegt fólk hvort að heimurinn sé hnöttóttur, flatur, eða kleinuhringslaga? Afar litlu, myndi ég halda.

Í öðru lagi - Þeir lugu nú samt. Að ljúga, eins og ég skil hugtakið, er að segja ósatt eða fara með rangt mál, og skiptir hér litlu máli hvort að það sé viljandi eða óviljandi. Hins vegar er blekking allt annar handleggur; hún er athöfn sem felur í sér ásetning um að segja eitthvað sem er ósatt, rangt eða vitlaust. Ef ég er blindur og segi “Það er ekki snjókoma úti” þegar það er snjókoma - þá lýg ég (óvart). Segi ég blindum manni “Það er rigning úti” þegar svo er ekki, og ég veit að svo sé ekki - þá blekki ég.
All we need is just a little patience.