Fyrir stuttu síðan var mikil umræða um ritskoðun í kjölfar viðtals sem birtist í DV við einn forsvarsmanna FÍÞ, ég tek fram að ég las það ekki enda ætla ég ekki að fjalla um efni þess sérstaklega.

Ég ætla að byrja á því að tala um hvernig vefmiðlar ungra jafnaðarmanna og frjálshyggjumanna fjölluðu um málið.

Ungir frjálshyggjummenn skrifuðu varla neitt um þetta efni nákvæmlega en vísuðu hins vegar í grein um málfrelsi að hætti J.S. Mill, þeir rekja ástæðurnar hans og þar gera þeir hæst úr þeirri rökfærslu hans um að ástæðurnar fyrir skoðuninni sem er ekki ritskoðuð gleymist ef það þarf ekki að halda uppi rökræðum um hana. En ef rökræður eru svona mikilvægar af hverju svöruðu ungir frjálshyggjumenn ekki málflutningi “Þjóðernissinna”? Er það verk fyrir aðra?

Ungir jafnaðarmenn hafa hins vegar verið duglegir að gagnrýna rasistana og þá sérstaklega Sigurður Hólm (sem ég hef mikið álit á þó að ég sé stundum ósammála honum, ég og hann höfum meðal annars tvisvar tekið þátt í blaðaskrifum fyrir sömu hlið í Morgunblaðiðnu, þ.e.a.s. um samkyhneigða og aðskilnað Ríkis og Kirkju). Sigurður ræðst harkalega á rasistana en líka á DV fyrir að hafa birt gagnrýnislaus viðtalið og látið alla blaðamennsku vera, hann vill hins vegar ekki láta ritskoða þá af því að þessar skoðanir verða ennþá til staðar í samfélaginu þó að þær birtist ekki.

Illugi var í þessu máli gerður að illmenni sem vildi skerða málfrelsi andstæðinga sinna, hann kom hins vegar að mínu mati með rök sem við getum ekki litið framhjá, ég umorða það aðeins af því ég vill koma því betur á framfæri en hann gerði. 12 milljónir manna var útrýmt vegna uppruna síns eða annars sem gerði þá óæðri í augum rasistum sem komust til valda með því að höfða til rasisma sem var þegar til staðar í samfélaginu, er þessi fórn eitthvað sem við viljum endurtaka? Viljum við fórna milljónum manna til að vernda “réttindi” skíthæla?

Við eigum ekki að takmarka málfrelsi fólks bara af því að okkur líkar ekki við það sem þeir eru að segja, segja málsvarar málfrelsisins, gagnrýnendur þessa viðtals DV voru fyrst og fremst að mótmæla því hvernig viðtalið var sett upp, þ.e.a.s. að þessir bjánar fengu þennan sápukassa til að koma fram með sínar heimskulegu skoðanir án þess að hafa almennilega gagnrýni á þetta.

En værum við að ritskoða þá bara af því að okkur líkar ekki við skoðanirnar? Mér finnst gagnrýnendur viðtalsins ekki hafa komið að einu grunnatriði sem mér finnst mikilvægt í þessu, það er að eiginlega allir samþykkja að við eigum að takmarka málfrelsi. Við leyfum fólki ekki að segja það sem því sýnist, eitt tilfelli er sérstaklega augljóst og það er þegar um er að ræða ærumeiðingar. Hver er munurinn að ljúga upp á einhvern einn mann og að ljúga upp á hóp fólks, það er fjöldinn. Einhverjir segja nú að þeir hafi rétt á sinni skoðun en ég tel að réttindi þeirra sem er verið að ljúga upp á hljóti að vega þyngra en “réttindi” þeirra sem eru að ljúga.

Eigum við að ritskoða rasistana? Er ekki augljóst að þeir þurfa að fylgja sömu reglum og við hin, við getum ekki gengið um og logið upp á fólk og komist upp með það. Við eigum að refsa þeim fyrir að tjá þessar “skoðanir” af því að þannig gefum við skýrt til kynna að þær byggi ekki á neinu nema óskhyggju. Við eigum ekki ritskoða þá sem við erum ósammála en við eigum að banna svona lygar, frjálshyggjusjónarmiðið um að málfrelsið skipti öllu er byggt á röngum forsendum, við erum ekki að banna fólki að vera ósammála okkur heldur fyrir að ljúga skaðlegum lygum. Við ættum að taka fyrir hvern einasta rasista sem heldur fram að einhver kynstofn sé æðri en annar, við ættum að sækja þá alla til saka og reyna að fá þá til að rökstyðja mál sitt fyrir dómstólum og við eigum að ráðast á skoðanir þeirra þar og ganga þannig frá þeim.

Ég efast um að skoðanir gleymist í þessu upplýsingasamfélagi okkar, við vitum líka að umræða um hvort rasistarnir ættu að njóta málfrelsis myndu koma upp reglulega (það að rökræða það væri nógu mikið frelsi) og þá skulum við sýna þeim myndir úr útrýmingabúðum nasista, við skulum segja þeim frá hvernig Evrópubúar slátruðu frumbyggjum út um allan heim en sérstaklega í Ameríku. Við skulum ekki gleyma, við eigum að rifja upp. Hver man núna hvernig Bandaríkjamenn fóru með Filippseyjinga í upphafi síðustu aldar? Það eru fáir, það hefur verið ritskoðað af Bandaríkjamönnum, það er þess lags ritskoðun sem við berjumst á móti. Sannleikurinn er nauðsynlegur, sannleikann má ekki ritskoða, við eigum að muna og við megum ekki gleyma. Við megum ekki gleyma að Íslendingar komu illa fram við gyðinga sem reyndu að koma hingað til lands í Seinni Heimstyrjöldinni, við megum ekki gleyma sannleikanum, við megum ekki leyfa fólki að fela hann eða breiða yfir hann með lygum.

Frjálshyggjusjónarmiðið virðist vera það að frelsi einstaklingsins sé fyrir öllu, ekkert tillit virðist vera tekið til afleiðinganna. Þeir halda því fram að frjáls umræða geti bjargað öllu en mér alltaf fundist oftrú frjálshyggjumanna á einstaklinga vera helsti galli þeirra, við vitum að það er hægt að sannfæra fólk um yfirburði síns “hóps” og við getum jafnvel haldið fram þeirri skoðun að það sé eitthvað í fólki sem gerir það að verkum að það vill trúa að það sé æðra öðrum. Hvað gerist ef leiðtogi kemur upp meðal rasistana sem er hefur sannfæringarkraft og persónutöfra?

Allir hljóta að vita að frelsi snýst ekki um að leyfa öllum að gera það sem þeir vilja, hér ætti að vera augljóst hvor meginreglan er dýrmætari en við þurfum að gera það vitandi að þó við virðumst vera að brjóta málfrelsið hér þá gerir það ekki að verkum að við ættum að gera það að aftur.
<A href="