Fréttatilkynning: Hugur 2004 Fréttatilkynning

Hugur
16. árgangur

Út er kominn 16. árgangur Hugar (2004), tímarits Félags áhugamanna um heimspeki. Ritstjóri er Davíð Kristinsson.

Þema heftisins að þessu sinni er samfélagsrýni hollenska heim-spekingsins Benedict de Spinoza (1632–1677). Gilles Deleuze færir rök fyrir því að Siðfræði Spinoza sé líkt og sifjafræði Nietzsches handan góðs og ills, enda báðir grunaðir um efnishyggju, siðleysi og guðleysi. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir víkur í grein sinni m.a. að raunsæjum og gagnrýnum hugmyndum Spinoza um aðhald stjórnmálamanna. Finnski heimspekingurinn Minna Koivuniemi gerir grein fyrir því hvernig Spinoza rannsakar hrif þar sem hann álítur stjórnmála-heimspeki verða að grundvallast á raunsærri mynd af því hvernig mennirnir eru gerðir.
Atli Harðarson ber síðan saman hugmyndir Spinoza og Johns Locke um frelsi. Chantal Mouffe gagnrýnir þá skynsemishyggju sem liggur rökræðulýðræði Habermas og Rawls til grundvallar. Líkt og Spinoza gagnrýnir Mouffe óhóflega skynsemishyggju og styðst í gagnrýni sinni við Wittgenstein.
Helsti Wittgenstein-fræðingur Frakka, rökgreininga-heimspekingurinn Jacques Bouveresse, ber gagnrýni Wittgensteins á „goðsögnina um reglur“ saman við áþekka gagnrýni heimspekimenntaða félagsfræðings Pierre Bourdieu. Hugur birtir auk þess þýðingu á tímamótagreininni „Heimspeki sem lífsmáti“ eftir fornfræðinginn Pierre Hadot. Í grein sinni „Heimspeki og sjálfshjálp. Sókrates og Dr Phil sem starfsbræður“ tekur Róbert Jack upp þráðinn frá Hadot. Í tilefni af tvöhundruð ára ártíð Immanuels Kant birtir Hugur þýðingu á samanburði heimspekingsins og sálgreinisins Slavoj Zizek á óhlutdrægri skyldusiðfræði Kants og markgreifans af Sade.

Sigríður Þorgeirsdóttir varpar ljósi á það hvernig kvenhatarinn Nietzsche býr í haginn fyrir femíníska gagnrýni á tvíhyggju. Eyja Margrét Brynjarsdóttir ræðir tvær ólíkar mótbárur við greinarmun huglægra og hlutlægra eiginleika. Þorsteinn Gylfason reifar ýmsa þræði íslenskrar heimspeki á tuttugustu öld. Siðfræði lífs og dauða eftir Vilhjálm Árnason bíður birtingar hjá þýsku fræðiritaforlagi og því ræddi Hugur við Vilhjálm.

Í heftinu er að finna þrjár greinar um bækur. Ármann Halldórsson fjallar um nýlega bók Johns McCumber. Jón Ólafsson fjallar um greinasafn Kristjáns Kristjáns-sonar Mannkostir. Gauti Sigþórsson menningarfræðingur fjallar um Heimspeki verðandinnar.
Að lokum er að finna í heftinu fjórtán ritdóma.

300 bls. kilja
Dreifing: Háskólaútgáfan
ISSN: 1021-7215
Verð: 3.000 kr.
JReykdal